„Hindranir eru til að sigrast á þeim“

Þessi tilvitnun hangir upp á vegg í svefnherberginu mínu. Hún minnir mig á að þó að við ráðum ekki alltaf hvað kemur fyrir þá höfum við val um hvernig við bregðumst við. Ef eitthvað óvænt raskar ró okkar og kemur í veg fyrir að hægt sé að fylgja upphaflegum áætlunum þýðir það samt ekki endilega að uppgjöf sé eina leiðin. Það þarf kannski að endurskipuleggja, breyta tímasetningum og sleppa ákveðnum hlutum. En með hugkvæmni, hyggjuviti og ástríðu fyrir því sem maður er að fást við er hægt að takast á við hindranir og vinna sig í gegn um þær.

Ég þarf á því að halda að minna mig á þessa tilvitnun núna. Varð fyrir því leiðindaóhappi á föstudag að eitthvað teygðist og tognaði á liðbandi í vinstra hné. Var að spila svokallaðan sápubolta á Bifröst með starfsmannaliðinu, datt (einsog maður gerir óhjákvæmilega í þessum leik) og fóturinn beyglaðist eitthvað undir mér. Ég heyrði (eða fann) eins og smá brak í hnéinu en fann samt í raun ekki mikið til. En hafði samt á tilfinningunni að eitthvað væri í ólagi og hætti því strax og fékk inn varamann. Sat svo í góða stund og fann þá ekki fyrir neinu en um leið og ég stóð upp og fór a ganga um var greinilegt að hugboðið hafði reynst rétt. Ég var draghölt og við ákveðna hreyfingu fann ég stingandi sársauka í hnéinu.

Starfsmannaliðið í Sápuboltanum 2014. Myndin er tekin áður en ég meiddi mig í hnéinu.

Starfsmannaliðið í Sápuboltanum 2014. Myndin er tekin áður en ég meiddi mig í hnéinu.

 

Miðað við það sem ég hef lesið mér til ætti þetta að lagast á 1-2 vikum ef ég bara passa mig að fara varlega og reyna ekki á fótinn næstu daga. Er sennilega frekar væg tognun. En maður veit samt aldrei með svona meiðsl og á föstudagskvöld og í gær (laugardag) var ég frekar stressuð yfir þessu. Gat lítið gengið eða beitt fætinum og sá í huga mér drauma sumarsins, sem flestir tengjast hlaupum eða fjallgöngum, gufa upp. Ég var nýbúin að ákveða að drífa mig í gönguferð þann 6.-7. júlí og svo stefndi ég á að taka þátt í 10 km Ármannshlaupi þann 9. júlí. Ég er búin að sætta mig við að sennilega þurfi ég að sleppa báðum þessum viðburðum en vonast til að ég geti farið að hlaupa aftur nógu snemma til að ég nái að vera með í Skógarhlaupinu eftir fjórar vikur. Já, og bara líka til að ég nái að njóta þess að hlaupa og ganga í sumar, þegar allt er í fullum blóma og birtan og sumarnæturnar gera manni kleift að vera úti og njóta náttúrunnar.

Það er eiginlega búið að ganga ævintýralega vel í hlaupunum síðustu mánuði og ekkert sem hefur komið upp á til að hægja á mér eða stoppa mig. Æfingar hafa gengið vel, matarræðið verið í mun betri farvegi en áður og ég hef verið að bæta mig mikið á stuttum tíma. Þegar vel gengur vill maður auðvitað helst að þannig haldi það bara áfram.

En…það góða við hindranir er að þær neyða mann til að stoppa, doka við og velta því fyrir sér hvað skiptir máli. Þær hjálpa til við að skerpa fókusinn. Sleppa því sem skipti kannski ekki svo miklu máli en hugsa upp leiðir til að halda áfram að vinna hinu, sem skiptir mann meira máli. Einstök hlaup og tímatökur skipta mig kannski ekki svo miklu máli, þegar ég virkilega hugsa um það. Ég er kappsöm að eðlisfari og finnst gaman að vinna í því að bæta tímana mína í einstökum vegalengdum. Slík markmið hjálpa mér frá degi til dags að halda mig við efnið og drífa mig út og hreyfa mig. En það sem ég sakna mest ef ég get ekki hreyft mig er að eftir því sem liðið hefur á er ég farin að nota hlaupin meira og meira með markvissum hætti til að stilla mig af tilfinningalega. Hreyfingin hjálpar til við að losa um spennu og vinna með erfiðaðar tilfinningar. Ég veit ekki hversu oft á síðustu mánuðum ég hef tekið eftir því að ef ég dríf mig út að hlaupa þegar ég er döpur, þreytt eða örg þá er líðanin yfirleitt alltaf mun betri að hreyfingu lokinni og ég betur í stakk búin að takast á við orsök hinnar upphaflegu vanlíðunar. Er svo ótrúlega gott að taka hressilega á og fá súrefni í lungun. Og þessi taktfasti rytmi sem maður kemst í er eitthvað sem hjálpar mér að hreinsa hugann.

Ég fer stundum í tækjasal til að gera styrktaræfingar, því ég veit að líkaminn þarf á þeim að halda líka, í viðbót við þolþjálfun. En þó að ég finni fyrir líkamlegri vellíðan eftir slíkar æfingar, þá upplifi ég ekki sömu dásamlegu frelsistilfinniguna og við hlaupin.

Hinn þátturinn sem ég myndi virkilega sakna ef ég þyrfti að gera hlé á hlaupunum til lengri tíma er frábæri félagsskapurinn sem ég hef fengið í gegn um Flandra. Er eitthvað svo notalegt að byrja helgarnar á því að hlaupa saman og spjalla síðan í heita pottinum á eftir. Eða að plana saman löng hlaup með þeim hlaupafélögum sem eru á svipuðu róli og að æfa fyrir sömu vegalengdir. Oft á maður líka góð og innihaldsrík samtöl í löngum hlaupatúrum og nær oft að létta á sér um hin ýmsu mál. Sjálfir viðburðirnir, eins og t.d. Mývatnsmaraþonið í júní, hálfmaraþonið í ágúst síðastliðnum og Jökulsárhlaupið í ágúst 2012, eru síðan mikil skemmtun og upplifun, hvort sem maður nær einhverjum tímamarkmiðum eða ekki.

Með öðrum orðum, hlaupin eru farin að vera vera stór hluti af hinu daglega lífi og eiga ríkulegan þátt í því hvað mér hefur liðið mikið betur undanfarna mánuði en árin á undan. Það er því kannski ekkert skrýtið að ég fái svolítinn sting í hjartað þegar eitthvað kemur upp á sem kemur í veg fyrir að ég geti stundað þau. Þannig að í gær var ég frekar döpur.

En í dag er ég bjartsýn og þess fullviss að hnjámeiðslin séu einungis hindrun til að vinna sig í gegn um, ekki veggur sem stoppar mig á þeirri leið sem ég er á. Ætla að vanda mig næstu daga og hugsa vel um sjálfa mig til að styrkja sem best við viðgerðarferli líkamans. Og eftir nokkrar vikur verð ég komin á fullt aftur. Viss um það 🙂

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Markmið. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við „Hindranir eru til að sigrast á þeim“

  1. Oddur Olafsson sagði:

    Flott hjá þér Auður. Óska þér góðs bata!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s