Hreyfing er ekki eitthvað sem fléttast sjálfkrafa inn í daglegt líf. Þannig hefur það a.m.k. aldrei verið hjá mér. Ég þarf að taka ákvörðun um að hreyfa mig og halda mig við hana. Þegar ég var stelpa „gleymdi“ ég stundum leikfimifötunum viljandi og fékk að horfa á í leikfimi. Allt annað í skólanum reyndist mér leikandi létt, en hreyfingin var annað. Ég var frekar þung á mér, og stóð jafnöldum mínum að baki í þessum efnum.
Á unglingsárunum breyttist þetta. Vinkonurnar voru íþróttastelpur og ég smitaðist af þeim. Fór að æfa fótbolta, blak og fleiri íþróttir. Var í ágætis formi, þó að ég gerði mér engar sérstakar grillur um stór afrek á íþróttasviðinu. En ég fór að finna meira fyrir líkamanum og hvað það var gott að hreyfa sig.
Síðasta árið í menntaskóla (1990-1991) byrjaði ég að æfa með þríþrautarhópi á Akureyri. Ég skokkaði reglulega 3-4 sinnum í viku í 8-9 mánuði, synti 1x í viku og þegar fór að líða á vorið bættust hjólreiðar við. Ég fann strax þá að þessi tegund af hreyfingu ætti vel við mig. Ekki af því að ég væri svo fljót, heldur kannski frekar vegna þess að þetta var hreyfing sem ég gat stundað á mínum forsendum. Ég þurfti ekki að keppa við aðra en sjálfa mig. Ég þurfti ekki að komast í eitthvað lið og vera endalaust að bera mig saman við aðra. Ég gat bara hlaupið, eða hjólað eða synt eins og mér leið þann daginn, og framförin fólst í því að bæta eigin tíma, ekki vera á undan einhverjum öðrum.
Eftir að ég kláraði stúdentspróf fór ég út í heim. Þó ég reyndi að halda áfram að skokka næstu árin, var aldrei mikil alvara í því. Var heldur ekki með neinn hóp til að æfa með eins og þegar ég var í þríþrautarhópnum.
Í kring um þrítugt tók ég aðra „hlaupasyrpu“ sem þó stóð aðeins yfir sumartímann. Náði að koma mér í nægjanlega gott hlaupaform til að skokka 10 km í Reykjavíkurmaraþoni sumarið 1999 (67 mínútur), 2000 (64 mínútur) og 2002 (66 mínútur). En svo datt einhvernvegin botninn úr þessari hreyfingu. Tók tarnir í líkamsræktarstöðvum, en eróbikk, body pump, tæ-bó og hvað þetta heitir allt saman…. þetta var ekki hreyfing sem höfðaði eins vel til mín. Ágætt að hreyfa sig og finna þá líkamlegu vellíðan sem því fylgdi, en mig langaði alltaf að taka hlaupin fastari tökum.
Eitt af því sem kom í veg fyrir að ég einbeitti mér að hlaupunum var að ég hafði þyngst og var búin að selja mér þá hugmynd að ég „yrði“ að léttast fyrst og svo gæti ég farið að hlaupa. Mér fannst líka erfitt að byrja að hlaupa, verandi svo miklu, miklu hægari en ég hafði „einu sinni“ verið. Samt var ég alltaf að reyna að potast af stað, en varð einhvernvegin aldrei neitt úr neinu. Ein flensa, eða ferðalag erlendis var nóg til að ég datt úr takti.
Sumarið sem ég var fertug fór ég til Kanada að heimsækja eldri bróðir minn. Hann dró mig með í einnar mílu hlaup (1,6 km), sem var svona hálfgert skemmtiskokk á Íslendingahátíð í Gimli. Ég var eitthvað tæplega 12 mínútur á leiðinni og með blóðbragð í munni þegar ég kom í mark. Á þessum tíma var farið að styttast í þriggja stafa tölu á viktinni og ég var í mjög slæmu líkamlegu formi. Ekki þar sem ég hafði ætlað mér að vera þegar ég yrði fertug. Ég var ósátt og hugsaði með mér að ég ætlaði mér að vera á betri stað þegar ég yrði 45 ára og 50 ára. Strax þetta sumar fór sú hugmynd að bæra á sér að setja mér það langtíma markmið að hluapa maraþon. Mér tókst samt ekki almennilega að halda mig við efnið veturinn á eftir, en einhverju frækorni hafði samt verið sáð.
Ég man enn daginn sem ég ákvað að nú ætlaði ég í „alvöru“ að byrja að hlaupa aftur. Þetta var 17. júní 2011. Ég hafði eitthvað byrjað á því að skokka um vorið, en látið það víkja um leið og annað í lífinu kallaði á athygli. Þann 17. júní langaði mig ekki neitt út að hreyfa mig. En ég tók ákvörðun. Ég ákvað að ég myndi hlaupa á hverjum degi í eina viku (sjö daga í röð). Fyrsta daginn var varla að ég drattaðist úr sporunum en svo var það léttara eftir því sem dagarnir liðu. Ég tók mér frí á degi númer átta, en strax daginn eftir var ég orðin viðþolslaus að komast af stað aftur. Það tók ekki lengri tíma að koma sér í gírinn. Þetta sumar skokkaði ég 4-5 sinnum í viku og dreif mig í 10 km í Reykjarvíkurmaraþoni í ágúst. Var um tíu mínútum lengur en tíu árum fyrr, en það skipti ekki máli. Ég var komin af stað.
Ég hélt mig við efnið alveg fram í nóvember, missti þá 3 vikur úr, tók aftur upp þráðinn í desember og endaði árið með þátttöku í 10 km gamlárshlaupi ÍR þann 31. desember. Ég setti mér líka áramótamarkmið, sem var að hlaupa 13 km í Jökulsárhlaupi í ágúst 2012. Þetta markmið hvatti mig til dáða og var án efa eitt af því sem hjálpaði mér að halda mig við efnið árið 2012. Markmiðið náðist og þetta hlaup var alveg frábært í alla staði (sjá frásögn hér).
Um haustið 2012 tókum við svo okkur til, nokkur í Borgarnesi, og stofnuðum hlaupahópinn Flandra. Þar með var komin félagsskapur sem gerði hlaupin ekki bara enn skemmtilegri, heldur hjálpaði líka til við að halda mér við efnið yfir vetrartímann, þegar mig langar stundum helst að leggjast í híði.
Ég umbreyttist ekki á einni nóttu. Þetta var langtímaferli. En ég hafði fundið eitthvað sem ég elskaði að gera. Mér finnst gaman að hlaupa, mér líður vel á eftir og þetta er áhugamál sem hefur undið upp á sig félagslega líka því ég hef kynnst mikið af fólki og átt margar góðar stundir í kring um skemmtilega hlaupaviðburði.
Það sem heldur mér við efnið frá degi til dags er að mér líður alltaf betur þegar ég fer út að hlaupa. Mikilvægasti þátturinn er með öðrum orðum að finna leið til að auka vellíðan í daglegu amstri. En það sem er svo frábært við hlaupin er að í viðbót við þau auknu lífsgæði sem safnast líka saman hin jákvæðu áhrif hreyfingarinnar. Þannig að með tímanum fór ég að geta hlaupið bæði hraðar og lengur. Kílóin fór að fjúka af, ekki bara af því að ég hreyfði mig meira, heldur ekki síður vegna þess að mér fannst svo gaman að hlaupa að það kveikti djúpstæða löngun til að borða næringaríka fæðu sem styddi við hlaupin.
Og svo fóru markmiðin að tikka inn. Fyrsta hálfmaraþonið hljóp ég árið 2013, árið 2014 fór ég loks að hlaupa aðeins hraðar. Ég léttist um 15 kíló það árið og náði þá loks að hlaupa 5 km á innan við 30 mínútum og 10 km á innan við klukkutíma. Árið 2015 hljóp ég svo fyrsta maraþonið – daginn sem ég var 45 ára – og það var eitt af því alskemmtilegasta sem ég hef gert. Virkilega skemmtilegur dagur. Ég held ég hafi samt jafnvel náð að toppa þá reynslu þegar ég tók upp á því að hlaupa Laugaveginn, 53 km fjallahlaup, sumarið 2017. Meiriháttar reynsla sem hægt er að lesa um í bloggpistli hér á síðunni.
Eitt af því sem hefur hvatt mig til dáða í þessu hlaupastússi er að lesa blogg, bæði íslensk og erlend. Sérstaklega finnst mér gaman að lesa hlaupablogg einhvers sem ég get tengt mig við. Með öðrum orðum, það eru ekki endilega hlaupablogg afreksfólksins sem ég sæki mestan innblástur í, heldur ekki síður blogg þeirra sem eru kannski með þeim síðustu í mark í almenningshlaupunum en halda samt áfram, skref fyrir skref, og ná með þrautseigju og þolinmæði að vinna nýja sigra.
Uppfært í desember 2017