Endurmat

„Þú þarft að mæta þér þar sem þú ert“. Þetta er ráð sem ég hef gefið mörgum sem eru að koma sér af stað í hreyfingu og betra matarræði og finnst árangurinn lítill miðað við hvar viðkomandi var staddur „einu sinni“. Og nú er komið að því að ég þarf enn og aftur að nýta þetta ráð fyrir sjálfa mig.

Það skiptir nefnilega ekki máli að fyrir ári síðan hafi ég verið að hlaupa 40 km á viku, vel á mig komin líkamlega eftir góðan vetur þar sem allt gekk upp varðandi styrktaræfingar, matarræði og rútínu. Það var gaman og gekk vel en hjálpar mér ekki núna. Nú hefur nefnilega ekki gengið alveg eins vel. Eitt og annað sem hefur komið upp á sem hefur valdið því að ég hef ekki náð að halda dampi í æfingum og hef farið af sporinu varðandi matarræði. Engin stór áföll, heldur meira svona fullt af litlum hindrunum sem saman hafa komið í veg fyrir að ég hafi getað beitt mér af fullum krafti.

Þannig að nú er staðan svona:

 1. Ég hef þyngst um 6-7 kíló frá því í síðasta sumar/haust
 2. Ég hef hlaupið 277 km frá áramótum, miðað við 470 km á sama tímabili í fyrra
 3. Ég hleyp bæði hægar og styttra en á svipuðum tíma fyrir ári síðan
 4. Ég er sennilega á svipuðum stað hvað styrktaræfingar varðar
 5. Ég er algjörlega meiðslalaus
 6. Ég er laus við páskaflensuna
 7. Ég er loksins farin að sofa almennilega aftur og þreytan sem var að plaga mig í vetur er ekki lengur að gera mér lífið leitt
 8. Snjórinn er farinn og sumarið er framundan
 9. Í þessari viku fór ég loksins að mæta á hlaupaæfingar aftur
 10. Í morgun hljóp ég 14 km, sem er lengsta hlaup ársins, og líður ágætlega í skrokknum á eftir

Þannig að í raun og veru er þetta bara fín staða. Ég er ekki á sama stað og fyrir ári síðan, en það var líka ár stórra markmiða. Nú er kannski meiri áhersla á að hafa gaman og njóta. Og hvað sem öllum litlum hindrunum og veseni líður, þá er ég á uppleið núna og það er það sem skiptir máli.

Ég er sem sagt ekki á leiðinni að setja nein PB og keppa í stórum hlaupum alveg á næstunni. Hálfmaraþon undir tveimur tímum er ekki innan seilingar. En það er allt í lagi – markmiðið er enn á sínum stað. Það tekur mig bara aðeins lengri tíma að ná því en til stóð. Núna er áherslan að komast aftur í takt og ná aftur í hlaupagleðina og ánægjuna við að vera úti að hreyfa mig í góðum félagsskap. Ég ætla að gera sem mest af því næstu vikurnar. Og ég ætla að gera það í góðri sátt við líkamann, með því að gefa honum þá hvíld sem hann þarf, muna eftir að teygja og slaka á og næra hann með mat sem styður við markmiðin framundan.

Þetta verður fínt sumar

Vestmannaeyjar_2017

Birt í Hlaup, Hreyfing, Markmið, Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Hlaupaárið 2017 og markmið fyrir 2018

Jæja, kominn tími til að gera hlaupaárið upp og kasta markmiðum fyrir árið 2018 út í alheiminn.Fyrst smá tölfræði:

 1. Árið 2017 hljóp ég samtals 1848 kílómetra. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd fjölgaði kílómetrunum eftir því sem leið á árið, fjöldinn var í hámarki í júní, sem var aðal æfingamánuðurinn fyrir Laugaveginn, og þeim fækkaði svo snarlega síðustu þrjá mánuði ársins þegar maraþon ársins var búið. Ég fékk flensu í febrúar, sem skýrir fá kílómetra þann mánuðinn.

 

Mánuðir2017

 1. Síðan ég byrjaði að skrá hlaupin mín hef ég aldrei hlaupið jafn langt og á þessu ári. Á þessari mynd er hægt að sjá þróunina. Árið 2013 var eitt af stóru markmiðunum mínum að ná 1000 kílómetrum á einu ári. Það tókst ekki og ég var því afar glöð þegar það tókst árið 2014. Síðustu þrjú árin hef ég hlaupið langt yfir 1000 kílómetra án þess að taka sérstaklega eftir því. Spurning hvort ég reyni einhverntíman við 2000 km á ári? Það verður samt ekki á þessu ári (sjá umfjöllun um markmið fyrir 2018 neðar).

Ár2012_2017

Í heild var þetta virkilega skemmtilegt hlaupaár. Laugavegurinn og allar æfingarnar fyrir hann er eftirminnanlegast en ýmislegt annað sem er gaman að minnast. Háfslækjarhringur á uppstigningardag með Flandra er alltaf skemmtilegur dagur og Hvítasunnuhlaup Hauka, þar sem ég fór 17,5 km, var sérlega skemmtilegt. Það var líka gaman að bæta tímann minn í 5 km tvisvar sinnum, fyrst í mars og aftur í apríl, og að bæta tímann minn í 10 km í Ármannshlaupinu í júlí. Maraþonið í haust er líka eftirminnanlegt þó það hafi reynst mér ansi erfitt.

Þó að hlaupin hafi tekið mestan tíma þá gaf ég mér smá tíma fyrir fjallgöngur líka, sérstaklega í ágúst. Fór i fjögurra daga göngu um Víknaslóðir í byrjun ágúst og svo í mjög eftirminnanlega, erfiða en líka skemmtilega göngu á Kerlingu + 7 tindana (endað á Súlum) síðar í ágúst.

Hvað með 2018?

Þá er komið að markmiðunum fyrir þetta ár. Ég hef lengi verið að melta það með mér hvað ætti að vera næsta markmið í hlaupunum. Í framtíðinni langar mig í fleiri löng utanvegahlaup eins og Laugaveginn, kannski jafnvel erlendis líka. En ég var orðin svo södd af hlaupunum í haust að ég ætla aðeins að láta það bíða. Einbeita mér að styttri vegalengdum og hafa þá um leið svigrúm fyrir fjölbreytilegri hreyfingu (þegar maður hleypur 282 km á mánuði – eins og ég gerði í júní sl, þá gerir maður ekkert mikið annað ;-)). Mig langar að ná upp meiri hraða, og það þýðir reglulegar og markvissar æfingar, en ekki síður markvisst matarræði sem styður við markmiðin.

Aðal hlaupamarkiðið verður að bæta tímann minn í hálfmaraþoni – stefni á undir tvo tíma (núverandi PB er 2:09,09). Stefnan verður sett á Akureyrarhlaup í júlí, en ef það gengur ekki þá er hægt að endurtaka leikinn í Reykjavíkurmaraþoni og jafnvel í haustmaraþoninu.

Annað markmið er að taka þátt í sem flestum gleði- og upplifunarhlaupum, utanvegahlaupum, fjallahlaupum og allskonar. Búa til góðar minningar.

Þriðja markmiðið er að auka fjölbreyti í hreyfingu: Styrktaræfingar, fjallgöngur, jóga og sund. Stefni líka á að kaupa mér hjól um leið og snjóa leysir og fara að hjóla sem oftast í vinnuna.

Fyrstu tíu vikur ársins er ég búin að skrá mig í fjarþjálfun þar sem fókusinn verður á að byggja upp styrk og beina athyglinni að góðri næringu. Hlakka til að takast á við það verkefnið 🙂

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Hvað næst?

Ég er manneskja sem þarf á markmiðum að halda. Markmiðum sem tengjast viðfangsefnum sem ég hef ástríðu fyrir og eru þess eðlis að þau toga mig út úr þægindarammanum. Mér finnst gott að hafa stór markmið, búta þau svo niður í viðráðanlega hluta og vinna að þeim í rólegheitum, skref fyrir skref. Fagna áfangasigrum og njóta ferðalagsins.

what-next

Síðustu árin hef ég haft fá en skýr, stór markmið. Ég vann að doktorsritgerð og ég varð hugfanginn af hlaupum. Setti markið á maraþon og svo á Laugaveginn. Þetta voru allt stór markmið sem tók mig nokkur ár að ná. Ég held ég geti sagt með góðri samvisku að ég hafi notið ferðalagsins við að ná þessum markmiðum, þó vissulega hafi ég líka stundum þurft að taka á honum stóra mínum. En það er hluti af gleðinni við að ná markmiðum: að ögra sjálfri sér og komast yfir erfiða hjalla.

En nú er svo komið að öllum þessum markmiðum er lokið. Maraþonið hljóp ég árið 2015 (og annað til tveimur árum síðar), doktorsritgerðina varði ég í lok árs 2016 og í sumar hljóp ég Laugaveginn.

Það var lítill tími til að finna fyrir tómleika þar sem ég tók upp á því að skipta um vinnu og flytja í annan landshluta. Síðustu vikur og mánuðir hafa því farið í að selja íbúð og kaupa íbúð, setja í kassa, taka úr kössum, klára verkefni í gömlu vinnunni og setja mig inn í verkefni í nýrri vinnu. Það er nóg að gerast og nóg við að vera. En samt finnst mér ég eitthvað áttalaus. Mig vantar ný markmið. Nýja tinda til að klífa. Verkefni sem ég hef ástríðu fyrir.

Þegar ég velti fyrir mér nýjum markmiðum er samt eins og ég rekist á vegg. Einhver andleg þreyta innra með mér. Þörf fyrir að hvílast. Tæma hugann. Sennilega þarf ég að gera einmitt það áður en nýju markmiðin ná að fæðast. Nota skammdegið og myrkrið til að leita inn á við. Taka tíma, rótfesta mig á nýjum stað, ná jafnvægi og treysta því að þegar sól fari að hækka á ný fæðist nýjar og spennandi hugmyndir.

Gentleness

Birt í Uncategorized | Ein athugasemd

Laugavegurinn: „Þetta gat ég“

Fyrir fjórum vikum tók ég þátt í Laugavegshlaupinu, 55 km fjallahlaupi frá Landmannalaugum í Þórsmörk (reyndar bara 53 km skv. Garmin – en nógu langt samt ;-)). Ég kláraði hlaupið á rétt rúmum níu klukkutímum (9:01,05) og kom í mark alsæl og ánægð með að hafa náð markmiði sem fyrir aðeins nokkrum árum virtist fjarlægur og óraunhæfur draumur. Hlaupið var virkilega krefjandi líkamlega en andlega var ég í góðu standi alla leið og hvikaði aldrei frá því markmiði að halda áfram, skref fyrir skref, og koma heil í mark. Hér kemur framsögn að aðdraganda, undirbúningir og hlaupinu sjálfu.

Bloggið er skrifað bæði til minnis fyrir sjálfa mig en einnig með það í huga að frásögnin gagnist öðrum, ekki síst hægfara hlaupurum sem eru kannski á svipuðum stað í dag og ég var sjálf fyrir nokkrum árum.

Aðdragandi

Það var fyrir um fimm árum síðan sem ég skrifaði í dagbókina mína að einhverntíman langaði mig til að hlaupa Laugaveginn. Á þessum tíma var ég búin að hlaupa reglulega í um eitt ár og hafði nýlokið við 13 km utanvegahlaup úr Hljóðaklettum í Ásbyrgi (stysta leiðin í Jökulsárhlaupinu). Ég var afar hægfara á þessum tíma, langt yfir kjörþyngd, og var yfirleitt með þeim síðustu í mark í flestum hlaupum sem ég tók þátt í. Jökulsárhlaupið var ekki bara fyrsta utanvegahlaupið mitt heldur líka fyrsta hlaupið sem var lengra en 10 km. En mér fannst þetta eitt af því skemmtilegasta sem ég hafði gert og vildi halda áfram, fara lengra og stefna hærra.

Jökulsár_2012

Að koma í mark eftir 13 km í Jökulsárhlaupi þann 11. ágúst 2012. Frábært hlaup sem kveikti hlaupaástríðuna fyrir alvöru. Mynd: Hrefna Hjálmarsdóttir

Ég þorði ekki að nefna þessa hugmynd um Laugaveginn á nafn við nokkurn mann fyrr en 2-3 árum síðar – svo fjarlæg og í raun hlægileg var þessi hugmynd á þessum tíma miðað við mitt líkamlega ástand. En góðir hlutir gerast hægt og smátt og smátt fór ég að hlaupa bæði lengra og hraðar og markmiðið var ekki alveg jafn fjarstæðukennt. Ég hljóp mitt fyrsta maraþon árið 2015 og sumarið 2016 tók ég endanlega ákörðun um að reyna við Laugavegshlaupið ári síðar, eða í júlí 2017.

Það sem hræddi mig mest við Laugaveginn var ekki sjálf leiðin og hvort ég kæmist alla vegalengdina, heldur hvort ég myndi ná tímamörkunum í hlaupinu. Hlauparar þurfa sem sagt að ná í Álftavatn á innan við fjórum tímum og í Emstrur á innan við sex tímum til að fá leyfi til að halda áfram og klára hlaupið og ég vissi að það yrði enginn afsláttur gefinn hvað varðar þessi tímamörk. En það var bara ein leið til að finna út hvort mér tækist að ná tímamörkunum – að skrá sig í hlaupið, æfa sig og láta á það reyna.

Undirbúningur

Ég hljóp bara eins og venjulega yfir vetrartímann, fór á Flandraæfingar þrisvar sinnum í viku og vikulegur kílómetraskammtur var oftast á bilinu 20-25 km. Ég lagði hins vegar sérstaka áherslu á styrktaræfingar frá september og til marsloka og var mætt í ræktina klukkan sex tvo morgna í viku með tveimur hressum vinkonum og þjálfara. Held að þær æfingar hafi skilað sér því ég komst algjörlega meiðslalaus í gegn um bæði æfingar fyrir Laugaveginn og sjálft hlaupið.

Styrktaræfingar_Mars2017

Þessar mættu með mér í ræktina klukkan sex á morgnanna, tvisvar í viku, í allan vetur

Í mars byrjaði ég svo í námskeiði hjá þeim Sigga P. og Torfa, en þeir félagar hafa boðið upp á undirbúningsnámskeið fyrir Laugavegshlaupið árum saman. Þetta námskeið var algjör snilld og hárrétt ákvörðun fyrir mig að skrá mig í það. Þar fékk ég fróðleik, félagsskap og æfingaáætlun sem var sérsniðin mínum markmiðum og aðstæðum. Nú fóru hlaupin að lengjast og kílómetrunum að fjölga. Í mars hljóp ég samtals 158 km, í apríl voru það 185 km, í maí 242 km og í júnímánuði hljóp ég samtals 282 km, sem er það langlengsta sem ég hef nokkrum sinnum hlaupið í einum mánuði.

Það var eiginlega ekki fyrr en ég byrjaði að mæta á æfingar með Laugavegshópnum sem ég fór að trúa því að það væri möguleiki fyrir mig að ná tímamörkum og klára hlaupið. Fram að því hugsaði ég alltaf með mér að ég ætlaði að „prófa“ að hlaupa Laugaveginn og velti því mikið um hvernig ég myndi bregðast við ef ég kæmist ekki í Emstrur innan tímamarkanna. En einhverntíman á miðju námskeiði breyttist hugsunin úr því að ég ætlaði að „reyna“ og yfir í einbeittan vilja að klára hlaupið. Trúin á eigin getu var sem sagt að styrkjast.

Hvaleyrarvatn_mai2017

Frá æfingu við Hvaleyrarvatn með Laugavegshópnum í lok maí 2017. Mynd: Torfi H. Leifsson

Í byrjun júní tók ég þátt í Hvítasunnuhlaupi Hauka og var mjög sátt við hvernig mér gekk þar, sérstaklega í brekkunum þar sem ég fann að ég var orðin sterkari en áður. Ég hafði hins vegar áhyggjur af því að allan júnímánuð, þegar mesti þunginn var í æfingum, var ég í Kaupmannahöfn þar sem erfitt er að finna hlaupaleiðir nema á marflötu malbiki. Á meðan hlaupafélagar mínir á Íslandi skokkuðu um fjöll og firnindi hljóp ég kílómetra eftir kílómetra í sléttlendinu í Kaupmannahöfn og nágrenni, oftast ein.

Köben_júní

Hlaupaleiðirnar í Kaupmannahöfn og nágrenni voru ekkert sérstaklega líkar aðstæðum á Laugaveginum!

Það hefði vissulega verið gott að komast í brekkur og undirlendi sem var líkara því sem von var á í hlaupinu, en þegar upp var staðið gögnuðust þessar löngu og einhæfu æfingar mér betur en ég átti von á, sérstaklega á söndunum milli Álftavatns og í Emstrur. En þá að sjálfu hlaupinu.

Hlaupið

Við Borgnesingarnir lögðum af stað í Landmannalaugar um miðja nótt. Við vorum fjögur í Flandra sem tókum þátt í hlaupinu, en auk þess var einn hlaupari frá Ströndum með í för og einn félagi okkar kom með sem bílstjóri og keyrði jeppa sem við höfðum leigt fyrir ferðalagið. Það var alger lúxus að fá að vera í samfloti með þessum félögum mínum og gerði daginn mun skemmtilegri en ella.

Laugavegur2017_BorgarnesGroup

Með ferðafélögum í Landmannalaugum við upphaf hlaups.

Við vorum komin í Landmannalaugar um hálfátta, aðeins á undan rútunum, og höfðum því nægan tíma að fara á klósett, ákveða endanlega klæðnað og sinna öðru sem þurfti að huga að síðustu mínúturnar fyrir hlaup. Ég var orðin óþreyjufull að drífa mig á stað og það var því ákveðinn léttir þegar hlaupið var loksins ræst rúmlega níu. Fyrsti hópurinn, sá guli, fór af stað klukkan 09:15, sá rauði kl. 09:20, sá græni kl. 09:25 og við sem vorum í bláa og síðasta hópnum vorum ræst kl. 09:30. Og þar með var ævintýrið hafið.

LAU2017_1780

Komin af stað. Þarna eru ca 2-3 km búnir. Mynd: Torfi H. Leifsson

Mér gekk nokkuð vel upp í Hrafntinnusker. Samkvæmt áætlun frá þeim Sigga P og Torfa, sem miðaði við lokatíma upp á 8 klukkutíma og tíu mínútur, var viðmiðunartíminn fyrir mig í Hrafntinnuskrer 1:40 mín, en ég var fjórum mínútum lengur. Ég hafði engar sérstakar áhyggur af því, enda vissi ég að þessi spá um lokatíma væri sennilega í bjartsýnni kantinum. Ég var hins vegar lengur en ég ætlaði mér úr Hrafntinnuskeri og í Álftavatn. Sá leggur var strembnari en ég átti von á. Skítaveður, vindur, rigning og meira að segja smá slydda. Þegar ég var að koma niður Jökultungurnar fór ég að hafa áhyggjur af hvort ég væri komin í hættu að ná ekki tímamörkunum í Emstrum, en svo reyndist þessi leggur úr Hrafntinnuskeri í Álftavatn 11 km (en ekki 12) og síðustu 1-2 kílómetrarnir voru á flatlendi eftir jeppavegi, þannig að ég róaðist fljótt. Ég var engu að síður 10 mínútum lengur en áætlunin gerði ráð fyrir og heildartíminn var kominn upp í rétt rúmar þrjár og hálfa klukkustund þegar ég kom að drykkjarstöðinni við Álftavatn. Þá vissi ég að svo framarlega sem lappirnar væru enn í sæmilegu standir ætti ég að geta náð í Emstrur innan sex tíma. Mér gekk frekar vel yfir sandana, þrátt fyrir mótvind, og náði að halda nokkuð jöfnum hraða. Þá komu hlaupaæfingarnar á flatlendinu í Kaupmannahöfn í júní loksins til góða. Var líka með góðan hlaupafélaga þennan legg, Elínu Úlfarsdóttur úr Hveragerði, en við hlupum samsíða lengst af í Hvítasunnuhlaupinu fyrir nokkrum vikum, hittumst svo á drykkjarstöðinni við Álftavatn, og við ákváðum að vera í samfloti í Emstrur, sem hjálpaði heilmikið. Þetta var eini hluti hlaupsins þar sem ég var á nákvæmlega sama tíma og áætlun gerði ráð fyrir, en það tók mig 2:20 mín að hlaupa þennan legg. Þegar ég hljóp í hlað í Emstrum var heildartíminn kominn upp í 5:52. Ég var sem sagt átta mínútum undir tímamörkum og fékk leyfi til að halda áfram og klára hlaupið. Það var mikill léttir og svo sannarlega ekki sjálfgefið. Af 487 hlaupurum sem lögðu af stað voru 430 sem kláruðu, sem þýðir að 57 náðu ekki tímamörkum eða þurftu að hætta af öðrum ástæðum.

Ég stoppaði í ca átta mínútur í Emstrum til að næra mig, fara á klósettið, bæta á vatnsbirgðirnar og teygja örlítið á stífum kálfum. Svo hélt ég áfram glöð í bragði en líkamlega var þó heldur af mér dregið. Var farin að reka tærnar í og datt eða hrasaði þrisvar sinnum á stuttum tíma (þó án þess að meiða mig). Ég sá því að eina vitið væri að hægja aðeins á mér, ef ég ætlaði að komast í heilu lagi á leiðarenda, og það tók mig því heila þrjá klukkutíma að klára þessa síðustu 16 km, eða um hálftíma lengur en áætlunin sem sett hafði verið upp. Ég labbaði rösklega ca helming og skokkaði rólega inn á milli. Spjallaði líka heilmikið við fólk á leiðinni og naut útsýnisins, en á þessum tímapunkti var veðrið orðið talsvert betra.

Laugavegur2017_Midway

Þessa mynd tók írsk kona, sem ég hljóp með góðan spöl, og hún sendi mér eftir hlaupið. Þarna eru um 40 km búnir og við bara í góðu stuði.

Það var ljúft að sjá loksins í markið og klára hlaupið. Lokatíminn var 09:01,05. Heldur lengur en ég átti von á að ég yrði ef ég á annað borð næði tímamörkum, en engu að síður var ég alsæl, enda markmiðið fyrst og fremst að ná að klára og að njóta – og það tókst

LAU2017_3999

Þetta hafðist – síðustu metrarnir fyrir markið. Mynd: Torfi H. Leifsson.

Næring og klæðnaður

Ég tók með mér átta gel sem ég var búin að setja í tvær litlar 200 ml vatnstúbur. Ég setti gelin í túburnar til að forðast að bréfin utan af gelunum myndu fjúka burt en það reyndist líka vel að hafa gelin í þessu formi í mesta kuldanum því ég var orðin loppin á fingrum og hefði reynst mér erfiðara að rífa upp gelbréfin heldur en að skrúfa af tappann af túbunum.

Ég hefði vel komið fyrir fleiri gelum í hverri túbu og myndi taka með mér 10 gel (5 í hverja túbu) ef ég færi aftur. Slapp samt alveg til, þar sem ég nýtti mér líka næringu á drykkjarstöðum í Álftavatni og í Emstrum. Fékk mér 2-3 bananabita á báðum stöðum og litla kanelsnúða. Ég var með ca 1,2 lítra af vatni í kamelpokanum mínum þegar ég lagði af stað og það dugði mér í Álftavatn (stoppaði ekkert í Hrafntinnuskeri). Fyllti á vatnið í Álftavatni og aftur í Emstrum, en ég var eitthvað að flýta mér of mikið í Emstrum og setti full lítið vatn í pokann þannig að ég var orðin vatnslaus 1-2 kílómetrum áður en ég kom að næstu drykkjarstöð eftir Emstrur (rétt fyrir brekkuna upp Kápuna). Ég fékk mér líka kók á síðustu drykkjarstöðunum en lét orkudrykkina vera.

Eitt sem ég klikkaði á í undirbúningi voru salttöflurnar. Komst einhvernvegin aldrei almennilega í að skoða þau mál en á leiðinni í Landmannalaugar fékk ég tvær töflur hjá hlaupafélaga mínum í Flandra. Tók fyrri töfluna við Álftavatn og þá síðari við Emstrur en þegar ég var rúmlega hálfnuð með síðasta legginn fann ég að það var stutt í krampa. Var að ræða þau mál við Íslending sem hljóp samsíða mér um stund og hann átti eftir eina freyðitöflu með salti og steinefnum sem hann ætlaði ekki að nota og gaf mér. Hún gagnaðist vel og ég fann að slaknaði aðeins á spennunni í kálfum.

Varðandi klæðnað þá var ég í síðum hlaupabuxum, hlaupapeysu með renndum kraga (mikilvægt til að vernda hálsinn frá nuddi frá vatnsslöngu á kamelpokanum…. eitthvað sem var að angra mig á löngu hlaupunum þegar ég var í bol með opnara hálfmáli) og í gula Flandra hlaupajakkanum. Ég var með léttar legghlífar yfir skónum, sem gögnuðust vel og sjálfir hlaupaskórnir voru Saucony Peregrine sem reyndust frábærlega. Ég var með buff á hausnum og Craft hlaupavettlinga. Ég var líka með húfu í vasa í Kamelpokanum (sem ég notaði ekki), og þar var ég líka með léttan álpoka, svona til að vera viðbúin ef eitthvað kæmi upp á og ég þyrfti að bíða eftir hjálp. Ég tók hvorki síma né myndavél með mér.

Eftir talsverða umhugsun sleppti ég að senda poka að Bláfjallakvísl. Ég vildi ekki nota dýrmætan tíma í fataskipti og lenda kannski í því að það yrðu ákkúrat mínúturnar sem myndu skera úr um hvort ég næði tímamörkum eða ekki. Þetta var rétt mat. Ég hafði enga þörf á að stoppa og búnaðurinn, bæði föt og skór, reyndust eins og best var á kosið.

Endurheimt

Ég var dauðþreytt eftir hlaupið og með mikla strengi í 3-4 daga en að öðru leyti kenndi ég mér ekki meins. Skrokkurinn í fínu standi og ég fór að hlaupa aftur tæpri viku eftir hlaup, fór í fjögurra daga fjallgöngu tveimur vikum eftir hlaupið og er núna komin á fullt í æfingar fyrir maraþon sem er framundan í október. Þannig að ég er bara rétt að byrja 🙂

Laugavegur2017_Medal

Ætla að geyma þessa medalíu – enda talsvert fyrir henni haft 😉

 

 

Birt í Hlaup, Hreyfing, Keppni | Færðu inn athugasemd

Næsta markmið: Laugavegurinn

Fyrir tæpum fimm árum skrifaði ég í dagbókina mína (þessa sem enginn fær að lesa) að ég ætti mér þann draum að hlaupa Laugaveginn einhverntíman í framtíðinni. Ekki þennan í miðbæ Reykjavíkur heldur hinn, sem liggur frá Landmannalaugum í Þórsmörk. Á þessum tíma var draumurinn svo fjarlægur og óraunhæfur að ég hélt honum fyrir mig. Ég var tiltölulega nýbyrjuð að hlaupa og miðað við hraða, form og fyrri afrek þá var sú hugmynd að hlaupa 55 km utanvegahlaup fullkomnlega fjarstæðukennd.

Ég held að það hafi liðið 2-3 ár frá því ég skrifaði um þennna draum í dagbókina og þar til ég fór að þora að nefna þessa hugmynd upphátt við vel valda hlaupafélaga. Eftir að ég hljóp fyrsta maraþonið, árið 2015, fór hugmyndin að verða örlítið minna fjarstæðukennd. Kannski gæti ég þetta?

Frá því síðasta haust hef ég sagt hverjum sem er og vill heyra að sumarið 2017 ætli ég að hlaupa Laugaveginn. Æfingum vetrarins var hagað með þetta markmið í huga og í janúar skráði ég mig í bæði í hlaupið og á undirbúningsnámskeið hjá Torfa og Sigga P., tveimur reynsluboltum sem hafa verið með námskeið af þessum toga í mörg ár. Nú er sem sagt formlegt æfingatímabil fyrir Laugaveginn hafinn og framundan, næstu 16 vikurnar, eru mörg og löng hlaup. Sjálft hlaupið verður svo laugardaginn 15. júlí.

Flandrasprettur_Mars2017

Með Bergu hlaupavinkonu á góðri stundu eftir Flandrasprett. Mynd: Torfi Bergsson

Það er eiginlega ekki fyrr en síðustu 2 vikurnar sem ég hef byrjað að trúa því að kannski sé það í alvöru raunverulegur möguleiki að ég geti farið í þetta hlaup og klárað það innan tímamarka. Þó ákvörðun hafi verið tekin fyrir talsvert löngu síðan, þá var erfitt að trúa því að þetta gæti tekist. Kannski kæmist ég af stað – en ætli ég yrði stoppuð á miðri leið vegna þess að ég næði ekki tímamörkum? Þetta hefur verið minn aðalótti, miklu frekar en að óttast meiðsl eða það að ég nái ekki að halda mig við efnið í æfingum. Mér finnst gaman að hlaupa og hlakka bara til að vera á hlaupum klukkutímum saman næstu vikur og mánuði. En ég er ekkert sérstaklega hraðskreið, og allra síst í ójöfnu undirlagi.

En ég er sem sagt meira bjartsýn núna en áður að þetta takist. Ég kem „vel undan vetri“, náði að vera mjög stöðug í styrktaræfingum í skammdeginu, hélt dampi í hlaupnum og formið því ágætt miðað við árstíma. Þannig að nú trúi ég því að þetta séu möguleiki. Ég trúi því að ef allt gengur upp varðandi æfingar, ef engin meiðsli eða aðrir óvæntir þröskuldar komi upp, þá sé það raunhæfur möguleiki að ég geti hlaupið alla leið, innan tímamarka, og að ég muni koma í mark heil á húfi, glöð og sátt.

Þetta byrjar allt í huganum, ekki satt?

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Utanvegahlaup og 10 daga hreinsun

Það er kannski ekki það skynsamlegasta í heimi að taka þátt í krefjandi utanvegahlaupi þegar maður er í miðju kafi í 10 daga hreinsun. En það gerði ég nú samt í dag og skemmti mér vel. Ég sló samt engin tímamet, nema síður sé, og afrekaði meira að segja að koma síðust í mark. Var um 20 mínútum lengur með síðari hlutann en þann fyrri og spilaði þar stærsta hlutverkið mikið magnleysi sem kom yfir mig strax eftir 7-8 km af hlaupinu sem hægði verulega á mér. Sennilega hefur tilraunastarfsemin í matarmálum haft sitt að segja og ég vissi svo sem fyrirfram að þetta gæti farið á hvorn vegin sem er. En einmitt þess vegna var þetta hlaup, og ferlið í kring um það, óvenjulærdómsríkt og því tilvalið að blogga svolítið um það.

Hlaupið sem um ræðir var Hvítasunnuhlaup Hauka og fór ég lengri leiðina, 17,5 km. Það er best að byrja að segja frá því að þetta er alveg frábært hlaup, vel að öllu staðið og geggjuð hlaupaleið. Ætla svo sannarlega að fara aftur í þetta hlaup að ári.

Hlaup, námskeið eða bæði?

Það er langt síðan ég skráði mig í þetta hlaup, sennilega 2-3 mánuðir. Það var svo bara um miðjan apríl sem mér datt allt í einu í hug að skrá mig í námskeið með yfirskriftinni „10 daga hreint matarræði“. Var að koma út úr streitutímabili í vinnunni og vantaði smá spark í rassinn og koma matarræðinu aftur í góðan farveg. Og fannst einhvernvegin að líkamanum veitti ekki af smá hreinsun. Tímasetningin var fullkomin, einmitt þegar ég átti von á að mesta vinnustressið yrði liðið hjá, en það sem setti strik í reikninginn var þetta hlaup. Fyrst var ég að hugsa um að sleppa námskeiðinu til að komast í hlaupið, svo velti ég fyrir mér að sleppa hlaupinu til að geta einbeitt mér að námskeiðinu, en ákvað á endanum að gera bæði en nálgast hlaupið sem smá tilraun. Athuga hvernig mér myndi ganga að hlaupa eftir að hafa verið á Vegan matarræði (-sykur, glúten og koffein) í rúma viku. Veit að eru mörg dæmi um hlaupara út í heimi sem ná fínum árangri á vegan matarræði og mér fannst forvitnilegt að prófa. Það spilaði líka inn í að hlaupið var á degi 9, þannig að ég var að vonast til að mesta þreytan hefði liðið hjá og líkaminn væri farinn að venjast breytingunni.

Námskeiðið byrjaði sunnudaginn 8. maí og fyrstu 3 dagana var yfir mér óskaplegt slen og ég bara svaf og svaf. Spennufall í kjölfar verkefnaskila, langtímaþreyta og svo þessi skyndilega og frekar róttæka breyting á matarræði (þar með talið að taka kaffi út) höfðu þessi áhrif. En það var líka greinilegt að það var einhver hreinsun í gangi. Á miðvikudagsmorgni vaknaði ég, meltingin (bæði ristill og nýru) eins og þau væru ofvirk, og var eins og losnaði um einhverja stíflu. Í kjölfarið leið mér miklu betur, gat auðveldlega náð góðum fókus í vinnunni og þurfti ekki lengur að leggja mig 1-2 sinnum á dag. Ég var hinsvegar fljót að finna fyrir máttleysi þegar ég fór út að hlaupa.

Ég hafði tekið síðustu löngu æfingahlaupin vikuna áður en 10 daga námskeiðið byrjaði. Fyrstu 2 dagana í námskeiðinu fór ég í róleg stutt hlaup og átti svo sem ekki von á öðru en að ég yrði frekar kraftlaus. Á fimmtudegi fór ég svo og hljóp 8 km, og var fín fyrstu 4 kílómetrana en varð svo þreytt um mitt hlaup og hægði á mér. Það sama gerðist tveimur dögum síðar, á laugardegi, þegar ég fór líka 8 kílómetra. Þá reyndar leið mér þannig eftir hlaupið að ég var alveg viðþolslaus af hungri (fannst ég samt búin að borða nægjanlega dagana á undan, en auðvitað færri kaloríkur miðað við magn í svona mat þannig að það getur verið blekkjandi) og eins fór ég að fá svimaköst þegar ég stóð snöggt upp. Þannig að ég ákvað að bæta inn smá dýrapróteini og sauð mér tvö harðsoðin egg, annað sem ég borðaði seinni partinn á laugardag og hitt í hádeginu á sunnudag. Á sunnudagskvöldið fékk ég mér líka grillaðan lax og vel útilátið af hrísgrjónum + grænmeti. Ég hressist heilmikið við að bæta smá próetini inn og á mánudagsmorgun leið mér bara mjög vel og var til í slaginn. Hafði útbúið mér nesti sem var sex döðlur til að fá mér á meðan á hlaupinu stóð (í staðinn fyrir hlaupagel), hristing úr möndlumjólk og banana + eitt harðsoðið egg til að borða strax eftir hlaup. Var svo búin að semja við hlaupafélagana úr Borgarnesi að við myndum stoppa á Gló í hádegismat eftir hlaupið.

File 16.5.2016, 18 44 50

Nestið sem ég tók með mér: Döðlurnar til að borða á leiðinni og egg og hristingur úr möndlumjólk og banana strax eftir hlaup.

Hlaupið sjálft

Veðrið var frábært og mikil stemmning þannig að það var létt yfir mér þegar við fórum af stað. Fyrstu 2-3 kílómetrarnir gengu eins og í sögu og þegar við komum upp á hæðina þar sem Hvaleyrarvatn blasti við fannst mér ég vera á toppi tilverunnar. Kílómetrar 3-5 voru farnir í sæluvímu en strax upp úr því fór ég að finna fyrir því að ég gat ekki farið á sama hraða og ég vön. Var samt í ágætu standi svona  þar til ég var komin upp topp á Stórhöfða og kláraði fyrri helming hlaupsins á ca klukkutíma og tíu mínútum. En svo bara hægðist og hægðist á mér og það fór að vera erfiðara og erfiðara að byrja að hlaupa aftur eftir göngukafla upp brekkur. Ég var ekki þreytt í fótunum og púlsinn var ekkert hræðilega hár…. ég var bara einhvernvegin gjörsamlega máttlaus. Ákvað bara að puða áfram og pæla lítið í tíma. Var samt allan tíman í ágætu skapi og fannst gaman þrátt fyrir máttleysið. Ég var líka exta varkár að fara ekki hratt yfir þar sem var ójafnt undirlag þar sem ég hafði tognað á hægri hendi 12 dögum áður (datt þegar ég var að hlaupa) og hafði ekki enn jafnað mig að fullu á þeim meiðslum. Ætlaði því alls ekki að detta á hendina. Þetta var smá áskorun þegar leið á hlaupið því þegar þreytan gerir vart við sig aukast líkurnar á að maður reki sig í stein. Gerðist reyndar nokkrum sinnum hjá mér, en af því að ég fór svo hægt yfir missti ég ekki jafnvægið við það.

Þegar ég átti eftir um hálfan kílómetra í mark gerðist það í fyrsta sinn í hlaupinu að brautarvörslu var ábótavatn, ég kom að gatnamótum og var útilokað að sjá af merkingum í hvora áttina ætti að fara. Ég fór til hægri en sá svo að einn hlaupari var á eftir mér sem fór beint áfram. Þannig að ég sneri við og komst eftir einhverjum krókaleiðum aftur inn á rétta braut. Þessi krókur þýddi um auka 300 metra og gerði það að verkum að ég var síðust í stað þess að vera næstsíðust í mark. En það var allt í lagi. Einhver þarf að taka að sér að vera síðastur og í dag var það ég sem tók það hlutverk að mér. Ég var 20 mínútum lengur með seinni hluta hlaupsins en þann fyrri og kom í mark á 2.39,55 (átti von á að klára á ca 2 klst 20 mínútum).

File 16.5.2016, 18 45 17

Flottur verðlaunapeningur og mér fannst ég hafa unnið fyrir honum því ég hef sjaldan puðað jafnmikið í hlaupi þrátt fyrir að hafa sjaldan farið jafn hægt yfir!

Eftir hlaup

Þrátt fyrir þetta gríðarlega mikla máttleysi var ég fín strax að hlaupi loknu, um leið og ég var búin að sporðrenna egginu og möndlumjólkurbananahristingnum. Leið bara ágætlega og var í raun ekkert sérstaklega þreytt. Rúsínan í pylsuendanum var svo að ég vann þessa fínu Asics hlaupaskó í útdráttarverðlaun.

Þegar upp var staðið var þetta skemmtilegt, en jafnframt lærdómsríkt hlaup. Á næsta ári ætla ég aftur og bæta tímann minn alveg helling 😉

File 16.5.2016, 18 45 41

Með hlaupafélögunum úr Flandra í Borgarnesi.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Mót hækkandi sól

Þessar hugleiðingar eru fyrst og fremst pepp fyrir sjálfa mig. Hef verið í smá ströggli undanfarið. Ekki alveg viss hvað það er…. einhver blanda af streitu vegna óvissu um það sem er framundan og svo hugsanlega hormónasveiflur. Aldurinn kannski að stríða mér!

Ég hef verið í góðum takti varðandi hreyfingu, hlaupið 3-4 sinnum í viku frá áramótum og styrktaræfingar tvisvar í viku. Gönguferðir inn á milli. Matarmálin hafa líka verið í ágætu lagi. En ég hef sofið órólega og af og til hellist yfir mig depurð og leiði sem á sér ekki endilega augljósar skýringar. Í gær tók ég þátt í 5 km Flandraspretti og man ekki eftir að hafa verið í jafnmiklu óstuði í hlaupi síðan í 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoni 2012 (þá var ástæðan að of stutt var liðið frá Jökulsárhlaupi og ég var bæði líkamlega þreytt og ekki með fókusinn í lagi).

En aftur að hlaupinu í gær….. eins og fyrr segir er ég búin að vera í góðum takti undanfarið varðandi hlaupin og fundist eins og þolið væri aftur að aukast. Ég var nokkuð viss um að ég ætti auðveldlega að geta verið fljótari en í Flandraspretti fyrir mánuði síðan (var þá 30,24 mín) og ætlaði helst að vera undir 28,43 (sem var tíminn minn í Flandraspretti í febrúar í fyrra). Þegar ég sá fram á að færið yrði ekkert sérstakt endurskoðaði ég það markmið og ákvað að stefna á innan við þrjátíu mínútur. Var ágætlega stemmd þegar ég vaknaði á fimmtudagsmorgun en einhverntíman upp úr hádegi var eins og grá þoka leggðist yfir mig og ég varð andlega þung og leið. Það var eiginlega alveg á mörkunum að ég hefði orku í að drattast af stað og mæta í hlaupið og fór meira af samviskusemi þar sem ég var búin að segjast ætla að hlaupa við of marga til að ég nennti að útskýra það að ég hefði hætt við án nokkurrar ástæðu nema ég var ekki í stuði. Svo ég mætti á staðinn, hljóp með hálfum huga og leiddist eiginlega alla leiðina. Ég var ekki beint þreytt…. bara rosalega þung á mér og eins og engin lífsorka innra með mér til að keyra mig áfram. Tíminn var 32 mínútur og ég var heilar sjö mínútur með síðasta kílómetrann….. það er hægari meðalhraði en í maraþoninu í sumar! Tíminn skiptir svo sem engu máli…. meira birtingarmynd á hvernig mér leið. En ég þarf einhvernvegin að finna leið til að ná aftur í lífskraftinn og gleðina innra með mér. Veit þetta er þarna einhversstaðar….. bara aðeins að fela sig fyrir mér í augnablikinu.

Þannig að sem skref í þá átt datt mér í hug að einbeita mér að þakklæti í dag…. þakklæti yfir öllu því sem gengur vel í lífinu. Þrátt fyrir þetta tímabundna bakslag er ég heilsuhraust og hef sennilega sjaldan verið í jafngóðu líkamlegu formi. Ég er í vinnu sem ég hef gaman af, er krefjandi en veitir mér jafnframt þann sveigjanleika og frelsi sem ég þarf svo mikið á að halda. Á síðasta ári náði ég langþráðu markmiði og kláraði drög að doktorsritgerðinni minni. Ég er farin að sjá til lands í að ljúka því ferli. Reyndar er biðin eftir viðbrögðum frá prófdómurum sennilega ein ástæða streitunnar sem er að krafsa í mig þessa dagana, en í stað þess að hafa áhyggjur af því hvenær þau koma og hvernig þau verða ætla ég að muna að vera þakklát fyrir að vera þó komin þetta langt. Og í stað þess að kvíða því hvað tekur við þegar því ferli lýkur langar mig að njóta þess að hugsa um öll þau tækifæri sem bíða í framtíðinni. Ég þarf ekkert að ákveða strax hver næstu skref verða….. get bara leyft mér að velta upp alls konar möguleikum. Finn að það er ekki tímabært að taka neinar ákvarðanir…. en að sama skapi er einhver óþreyja í mér…. því ég veit að framundan eru einhverskonar skil… einhver nýr kafli sem mun hefjast. En það er kannski bara allt í lagi að lifa með smá óvissu um stund.

Svo er það vorið og sumarið….. hvað sem vinnumálum líður þá eru bjartari tímar framundan. Mér líður alltaf betur á vorin, þegar sól fer að hækka á lofti og hlýna fer í veðri. Ég hlakka til að hlaupa á auðri jörð og geta varið meiri tíma á hlaupum og á göngu út í náttúrunni. Er með alls konar plön fyrir sumarið og finn tilhlökkun innra með mér þegar ég sé fyrir mér utanvegahlaup og þátttöku í alls kyns skemmtilegum viðburðum. Lífið er allt of dýrmætt til að eyða tíma í sjálfsvorkunn og leiðindi.

Viss um að næst þegar ég skrifa verði ég aftur orðin kát og glöð og bjartsýn….. þangað til tek ég bara lífinu eins og það kemur til mín…. skref fyrir skref. „This too shall pass“.

this-too-shall-pass

Birt í Hlaup, Hreyfing, Keppni, Sjálfsrækt | Færðu inn athugasemd

Markmið 2016

Árið 2016 verður ár utanvegahlaupanna. Stefni að því að taka þátt í Jökulsárhlaupinu þann 6. ágúst og fara lengstu vegalengdina (Dettifoss – Ásbyrgi, 32,7 km). Svo þarf það aðeins að ráðast af öðru sem er á dagskrá hvaða önnur hlaup ég fer í. Mig langar í Snæfellsjökulshlaupið og kannski Fjögurra skóga hlaupið, Vesturgötuna, Esjuhlaupið eða Tindahlaupið í Mosó.

Ég lít á fyrstu mánuði ársins sem tímabil þar sem grunnur er lagður að hlaupaformi sumarsins. Þannig að í janúar, febrúar og mars ætla ég að einbeita mér að því að koma mér í góða rútínu bæði í hlaupum, styrktaræfingum og matarræði. Koma sterk til leiks í apríl og maí þegar fer að vora. Tek örugglega þátt í einhverjum 5 km og 10 km hlaupum og langar að vinna í því að auka hraðann. Svo aldrei að vita nema ég skelli mér í 1-2 hálfmaraþon á árinu en hugsa að ég láti maraþon eiga sig þetta árið.

Lífið snýst um meira en hlaup, þó þessi bloggsíðan beini sjónum helst að þeim þætti tilverunnar, og markmið ársins snúa líka að vinnu og einkalífi. Af vinnutengdum markmiðum ber hæst að á árinu 2016 ætla ég mér að verja doktorsritgerðina mína. Þar með mun ljúka nokkuð löngu ferðalagi og ég hlakka til að reka endahnútinn á það ferðalag og skapa um leið rými fyrir eitthvað nýtt. Í einkalífinu hef ég líka markmið en þau eru ekki þess eðlis að ég hafi þörf eða löngun til að deila þeim hér. Geymi þau í hjartanu og ræði við þá sem málið er skylt.

Birt í Hlaup, Hreyfing, Markmið | Ein athugasemd

Hlaupaárið 2015 – Uppgjör

Það er ekki hægt að segja annað en að árið 2015 hafi verið farsælt hlaupaár. Ég náði langþráðu markmiðið, sem var að klára fyrsta maraþonið, og átti óteljandi góðar stundir tengdar hlaupunum, bæði ein og með góðum félögum. Samtals hljóp ég rúmlega 1700 km á árinu og bætti tímann minn í öllum þeim vegalengdum sem ég átti fyrri tíma til að miða við.

Ég tók samtals þátt í 16 keppnishlaupum: átta 5 km hlaupum, einu 7 km hlaupi, þremur 10 km hlaupum, tveimur hálfmaraþonum, einu maraþoni og einu utanvegahlaupi með tímatöku (17,6 km í Fjögurra skóga hlaupinu).

Ég bætti 5 km tímann minn um 2,18 mínútur (úr 29,39 í 27,21), 10 km tímann um 2,41 mínútur (úr 58,23 í 55,42) og hálfmaraþontímann minn bætti ég um tæpar sex mínútur (5,58), eða úr 2.15,06 í 2.09,08.

road to horizon

An image of a road to the horizon with text 2015

Maraþonið var eftirminnanlegasta hlaupið enda stærsta markmiðið. Þar var aðalmarkmiðið að ná að klára og líða sæmilega alla leið. Það tókst. Auðvitað var ég með einhver tímamarkmið bak við eyrað. Ég var nokkuð viss um að ná að klára undir fimm tímum, en fannst líklegast að ef allt gengi upp yrði ég einhversstaðar á bilinu 4.30,00 til 4.50,00. Það gekk eftir, því það tók mig 4.49,17 að klára; eða heldur nær efri mörkum þess sem ég hafði ætlað mér, en þó innan þeirra. Held ég eigi alveg eitthvað inni ef ég ákveð að hlaupa annað maraþon síðar, en í þetta skipti var aðaláherslan að komast heil í mark.

Önnur hlaup sem standa upp úr er m.a. Skógarhlaupið í lok júlí þar sem ég fór 17,6 km. Var skemmtileg leið og ég virkilega naut þess að hlaupa það hlaup. Icelandair hlaupið í maí (7 km) var líka eftirminnanlegt. Við fórum saman hópur úr Flandra og ég náði að bæta tímann minn um rúmar 10 mínútur frá því tveimur árum áður, sem var skemmtilegt (hljóp ekkert 7 km hlaup árið 2014).

En það voru ekki bara sjálf keppnishlaupin sem voru eftirminnanleg. Háfslækjarhringur á uppstigningardag, Flatnavegurinn og sum löngu hlaupin í sumar lífguðu upp á hlaupaárið. Sérstaklega man ég 30 km æfingahlaup þar sem ég hljóp Eyjafjarðahring (Hrafnagil – Laugaland – Leirubrú – Hrafnagil). Heiða vinkona kom á móti mér og hljóp með síðasta spölinn og pabbi og mamma biðu á Hrafnagili og við fórum öll saman í sund og svo í hádegismat á Silvu. Það var skemmtilegur dagur.

Ég gæti haldið áfram upptalningunni…. hlaupin bæta ekki bara heilsu og þrek heldur skapa svo margar góðar minningar. Langar að nefna eitt í lokin, sem kom skemmtilega á óvart. Í lok ársins, í október og nóvember, tók ég upp á því að mæta klukkan sex á morgnanna í styrktarþjálfun með tveimur hlaupavinkonum. Ef einhver hefði sagt mér fyrir nokkrum árum að ég myndi rífa mig upp í svartasta skammdeginu fyrir klukkan sex til að fara að lyfta lóðum hefði ég hlegið að vitleysinni…. en svo prófaði ég og finnst það alveg frábært. Hentar mér mun betur en t.d. jóga snemma á morgnanna (sem ég prófaði fyrr á árinu). Ég glaðvakna og er súper orkumikil þessa daga sem ég byrja með styrktarþjálfun. Vellíðanin sem fylgir áreynslunni er aðeins öðru vísi en eftir hlaup, léttur bruni í vöðvunum, fremur en þægileg þreyta, og það kom mér skemmtilega á óvart hvað æfingar eldsnemma á morgnanna áttu vel við mig. Mun klárlega halda þessu áfram á nýju ári. Annars eru markmið næsta árs efni í annan pistil sem fæðist vonandi fljótlega.

 

Birt í Hlaup, Hreyfing, Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Maraþon – hvað svo?

Eitt af því sem fylgir að ná markmiðum sem hefur verið stefnt að lengi er að gleðinni fylgir ákveðin tómleikatilfinning. Það kom því ekki á óvart að þegar ég vaknaði daginn eftir maraþonið upplifði ég ákveðina depurð. Sú tilfinning stóð sem betur fer ekki lengi yfir, en fókusinn í æfingum var hins vegar ekki mikill í september. Það var allt í lagi. Ég var búin að ákveða fyrirfram að taka því rólega vikurnar eftir maraþonið. Fór samt reglulega út að hlaupa en hvorki jafnlangt og áður né var ég að reyna að slá nein hraðamet. Heildafjöldi kílómetra í september var um 100 miðað við að ég hafði verið að hlaupa ca 200 km í hverjum mánuði um vorið og sumarið. September var samt góður mánuður. Ég tók síðbúið sumarfrí og fór í tvær stuttar en skemmtilegar ferðir til útlanda. Þetta gerði það að verkum að tómleikatilfinningin leið fljótt hjá, því það voru aðrir hlutir til að hlakka til þó þeir tengdust ekki hreyfingu.

Í októberbyrjun fann ég hins vegar að ég var tilbúin að fara aftur í almennilega rútínu með hreyfingu og matarræði. Mér líður svo miklu betur þegar þessi mál eru í lagi. Ég er ekki búin að setja mér nein stór markmið varðandi hvað kemur næst, eftir maraþonið. Það kemur með nýju ári. En ég er komin  með „millimarkmið“. Í október og nóvember ætla ég að vera sem mest í rútínu. Það verður  mikið að gera í vinnunni en ég verð hins vegar að mestu á sama stað og lítið á ferðinni nema á milli heimilis og vinnu.

Ég geri ráð fyrir að halda áfram að hlaupa 3x í viku með hlaupahópnum Flandra. Ég ætla að taka þátt í hálfmaraþoni eftir tvær vikur en annars nota ég styttri hlaup eins og Flandrasprettina til að halda mér við efnið. Kannski skelli ég mér líka í eitt og eitt Powerade hlaup í Reykjavík ef það hentar tímalega séð. Stóra breytingin er að ég ætla að leggja sérstaka áherslu á styrktaræfingar í október, nóvember og janúar (verð að ferðast mestallan desember og mun því taka hlé þá). Ég mæti núna tvisvar sinnum í viku klukkan sex að morgni í Íþróttamiðstöð Borgarness þar sem við erum þrjár saman úr hlaupahópnum með þjálfara sem passar vel upp á að við tökum hressilega á því. Nú er ég búin að mæta í þrjú skipti og það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvað ég reyni miklu meira á mig þegar ég vinn með þjálfara en ef ég hef farið ein. Hef fengið strengi eftir öll skiptin í mismunandi vöðva. En annað sem ég hef tekið eftir líka: Þessi skipti sem ég hef byrjað daginn á styrktaræfingum hefur mér liðið alveg óvenju vel allan daginn. Ég hef ekki beinlínið fundið mikið fyrir því að ég var að taka á um morguninn, en það er samt einhver vellíðunartilfinning í líkamanum sem hefur fylgt mér alveg fram á kvöld. Aðeins öðruvísi vellíðunartilfinning en eftir hlaup, en ekki síður góð. Gæti orðið háð þessu 😉

Strengh_training

Allavega… þó að maraþonið sé búið er ég hvergi nærri hætt að hreyfa mig. Þvert á móti: Ég er bara rétt að byrja!

Birt í Hreyfing | Færðu inn athugasemd