Hálfmaraþon #2: Mývatn

Það er gaman að halda minningum úr hlaupum til haga. Hér kemur því frásögn af hálfmaraþoni sem ég tók þátt í á Mývatni siðasta laugardag, mánudaginn 7. júní. Þetta var stórskemmtilegt hlaup og eftirminnanlegt fyrir góðan félagsskap ferðafélaga frá Flandra, frábært veður og ógurlegt mýflugnager sem olli talsverðum óróa fyrir hlaupið en reyndist síðan ekki neitt sérstakt vandamál þegar á hólminn var komið. Ég bætti tímann minn frá ágúst síðastliðnum umtalsvert og lauk hlaupinu á 2.24,12 (samanborið við 2.41,31 í ágúst 2013) og var því mjög ánægð með hvernig gekk.

 

Undirbúningur fyrir hlaup

Það er langt síðan ég ákvað að ég ætlaði að fara og hlaupa á Mývatni þessa helgi. Upphaflega hafði ég þó hugsað mér að hlaupa 10 km en geyma hálfmaraþonhlaup fram á haustið. Strax í febrúar fór ég þó að gæla við að breyta þessu og var orðin alveg ákveðin í því um miðjan mars. Ég byrjaði síðan að lengja vegalengdirnar strax í mars og var að hlaupa vel yfir 100 kílómetra á mánuði bæði í mars (127 km), apríl (119 km) og maí (165 km). Ég reyndi að taka a.m.k. einu sinn í viku langt hlaup (14 km eða lengra) og tókst það flestar helgar á þessu tímabili. Lengstu æfingahlaupin voru 17,8 km (1. maí) og 18,4 km (10. maí). Bæði þessi hlaup gengu mjög vel þannig að ég vissi að ég var í nógu góðu formi til að hlaupa vegalengdina nokkuð vandræðalaust. Ég reyndi líka að halda mig við eina hraðaæfingu/sprettæfingu á viku (oftast á mánudögum með Flandra) og svo 1-2 rólegri 5-8 km hlaup í viku. Braut líka æfingar upp með stöku utanvegahlaupi, stuttum fjallgöngum, sundi ofl. Ég var líka frekar dugleg að gera styrktaræfingar, bæði maga- og bakæfingar, armbeygjur ofl. Var með ca 20 mínútna rútínu sem ég gerði a.m.k. 1-2 í viku. Mér þykja styrktaræfingar ekkert sérlega skemmtilegar en ég fann hins vegar að þær skiptu miklu máli, ekki síst í lengri hlaupum, og hjálpa án efa mikið til við að koma í veg fyrir meiðsl.

Mér fannst vikan fyrir hlaup frekar erfið. Var búin að vera að hreyfa mig svo mikið vikurnar á undan þannig að mér fannst óþægilegt að hægja á mér og hvíla. Vildi helst fara út að hlaupa eða í önnur líkamleg átök á hverjum degi. Ég dró engu að síðu mjög úr álagi, fór rólega 6,4 km laugadeginum helgina áður, 6 km á sprettæfingu á mánudegi og svo skokk/ganga upp á Grábrók á miðvikudegi. Á fimmtudegi og föstudegi hvíldi ég.

Ég keyrði norður á föstudegi og hitti hlaupafélaga úr Flandra á Greifanum á Akureyri á föstudagskvöld. Þar borðuðum við saman „síðustu kvöldmáltíðina“ fyrir hlaup, en eins og flestir vita sem hafa hlaupið lengri vegalengdir þá skiptir staðgóður kvöldmatur ekki síður máli en morgunmaturinn daginn sem hlaupið er. Síðan keyrðum við öll í Mývatnssveitina þar sem gríðarmikið flugnager tók á móti okkur á Skútustöðum þar sem við gistum.

Það voru einmitt flugurnar sem voru mitt helsta áhyggjuefni fyrir hlaupið. Veðurspáin var góð, von á heiðskíru veðri, litlum vindi og 15-17°C. Þannig að það þurfti ekki að hafa áhyggjur af mótvindi eða slagveðri. En flugurnar voru annað mál. Ég tók með mér net en var frekar kvíðin hvernig mér myndi ganga að hlaupa með það (ef þörf yrði á). Hef reynt að nota net í fjallgöngum og alltaf fundist hálferfitt að anda og einhver svona köfnunartilfinning að vera með netið á mér. Það má eiginlega segja að allt annað sem ég er yfirleitt stressuð yfir fyrir hlaup hafi fallið í skuggann á blessuðu flugnagerinu, eins og t.d. hvort ég væri nógu vel æfð, hvort ég þyrfti á klósettið í miðju hlaupi og alls kyns svona áhyggjur sem láta á sér kræla fyrir hlaup af þessu tagi.

Að lokum ákvað ég bara að það þýddi ekki að hafa áhyggjur af einhverju sem ég hefði nákvæmlega enga stjórn á. Það eina sem ég gat gert var að undirbúa mig vel og vona hið besta. Þannig að ég makaði á mig flugnafæluspreyi um morguninn, bar vel á mig af sólvörn og skellti svo netinu góða á hausinn.

Þessa sjálfsmynd setti ég inn á facebook rétt fyrir hlaupið. Á þessu augnabliki leið mér eiginlega ákkúrat eins og svipurinn á andliti gefur til kynna.

Þessa sjálfsmynd setti ég inn á facebook rétt fyrir hlaupið. Á þessu augnabliki leið mér eiginlega ákkúrat eins og svipurinn á andlitinu gefur til kynna.

Við mættum í Jarðböðin um morguninn og þurftum að bíða þar í góða stund áður en rúta keyrði okkur á upphafsstað, sem var hinumegin við vatnið (miðað við Jarðböðin).

Hér sést kort af leiðinni. Hálfmaraþonið byrjaði þar sem bleika merkið er, hlaupið var norðan við vatnið, og allir enduðu þar sem rauða merkið er (við Jarðböðin)

Hér sést kort af leiðinni. Hálfmaraþonið byrjaði þar sem bleika merkið er, hlaupið var norðan við vatnið, og allir enduðu þar sem rauða merkið er (við Jarðböðin)

 

Hlaupið sjálft

Flugnagerið var mjög þétt á upphafstað og ljóst að netið yrði á hausnum við upphaf hlaups. Það voru 38 hlauparar í hálfmaraþoninu og var hlaupið ræst stundvíslega klukkan eitt. Það var góð tilfinning að leggja loks af stað og byrja að nota alla orkuna sem hafði byggst upp undanfarna daga. Ég var búin að ákveða a stefna að því að hlaupa á 6,30 – 6,45 mín/km hraða til að byrja með og sjá til hvernig mér liði á þeim hraða. Hinir hlaupararnir fór allir talsvert hraðar af stað; en ég og Sigga Júlla, hlaupafélagi úr Flandra, hlupum saman og náðum fljótlega fínum takti á ca 6,40 mín/km hraða. Við héldum þeim hraða fyrstu 11 kílómetrana og mér leið bara mjög vel allan þennan fyrrihluta hlaupsins. Það var vatnsstöð eftir 4 km og 9 km og ég fékk mér ca 1 ½ vatnsglas á báðum stöðum. Ég notaði hins vegar vatnið í vatnsbeltinu eingöngu þegar ég tók hlaupagel, sem var eftir 6 km, 12 km og 17 km. Þetta dugði til að halda frekar jafnri orku út allt hlaupið og ég varð aldrei verulega þyrst né orkulaus.

Eftir 11 km skyldu leiðir okkar Siggu þar sem hún var svo óheppin að fá skot í magann og nýtti sér kamarinn sem var staðsettur við upphafsstað 10 km hlaupsins. Ég hljóp því ein áfram og við tók nokkuð löng, aflíðandi brekka sem endaði ekki fyrr en þegar kom að Húsavíkurafleggjaranum. Þá voru tæpir 14 km búnir og í kjölfarið kom löng brekka niður sem var alveg sérlega skemmtilegt að hlaupa. Þarna gaf ég mér gott svigrúm til að horfa í kring um mig og dást að þessu dásamlega fallega útsýni sem blasti við allt í kring. Ég var enn með netið á hausnum. Prófaði að taka það af en þó að væri miklu minni fluga þarna en á upphafsstað hlaupsins voru þær fáu sem eftir voru strax farnar að angra mig með því að leita í augu og eyru. Mér hafði fundist það mun minna mál að hlaupa með netið en ég átti von á þannig að ég setti það bara aftur á og tók ekki af mér fyrr en ég fór að fjarlægjast vatnið og nálgast Jarðböðin (þegar var ca 1 km í mark).

Um það leiti sem ég beygði inn afleggjarann í átt að Námaskörðum og Jarðböðunum fór ég fram úr einum hlaupara og eftir stutta stund fór ég að sjá í þann næsta, sem ég náði þó ekki, enda stutt í mark á þessum tímapunkti. Þó hafi aðeins hægst á mér í brekkunum þá hafði mér samt tekist að halda sæmilega jöfnum hraða. Ég var vissulega farin að þreytast síðustu 2-3 kílómetranna en samt aldrei þannig að mig langaði til að labba eða hefði einhverjar efasemdir um hvort ég myndi klára.

Hér fyrir neðan er yfirlit yfir hraðann í hlaupinu. Ég setti þetta til gamans upp sem samanburðartöflu miðað við fyrsta hálfmaraþonhlaupið mitt í ágúst 2013. Ég kom sem sagt í mark á 2.24,12 sem var í takt við þær væntingar sem ég hafði. Ég hafði sett mér það markmið að vera undir tveimur og hálfum tíma, og var nokkuð viss um að það myndi takast ef ekkert óvænt kæmi upp, en bæting umfram það var síðan bara skemmtilegur bónus. Samtals bætti ég mig um 17 mínútur og 19 sekúndur miðað við hlaupið í ágúst á síðasta ári og ekki annað hægt en að vera ánægð með það 🙂

Samanburður

Það var gaman að koma í mark eftir vel heppnað hlaup. Og ekki spillti fyrir að auk Flandrafélaga sem ég hitti í marki, þá höfðu foreldrar mínir gert sér ferð á Mývatn og voru í klappliðinu á marksvæðinu.

Alltaf gaman að sjá markið framundan. Mynd: Bergsveinn Símonarson

Alltaf gaman að sjá markið framundan.
Mynd: Bergsveinn Símonarson

 

Sæl og glöð í marki.  Mynd: Hrefna Hjálmarsdóttir

Sæl og glöð í marki.
Mynd: Hrefna Hjálmarsdóttir

Það var gott að láta þreytuna líða úr í Jarðböðunum á eftir og gæða sér á grillmat í kjölfarið. Um kvöldið var svo sungið og trallað í bústað þar sem hluti Flandrara gisti. Frábær dagur í alla staði enda höfðum við heilmikið til að halda upp á. Allir hlauparar skiluðu sér í mark heilir á húfi, hvort sem þeir fóru í 3 km, 10 km, hálft maraþon eða heilt, mjög margir bættu tímana sína, fjórir úr Flandra nældu sér í gullverðlaun og þrír í silfur.

Gleði og glaumur hjá Flandra kvöldið eftir hlaup. Mynd: Björk Jóhannsdóttir

Gleði og glaumur hjá Flandra kvöldið eftir hlaup.
Mynd: Björk Jóhannsdóttir

 

Hugleiðing eftir hlaup

Þessi dagur á Mývatn var alveg frábær og stóð undir væntingum. Hlaupin hafa nú verið hluti af mínum lífsstíl í á þriðja ár og hafa gefið mér mikið; ekki bara betri heilsu heldur líka óteljandi góðar minningar.

En það er gott að minna sig á af og til hvaðan ég er að koma. Fyrir um fjórum árum, sumrið sem ég varð fertug, var ég í því versta líkamlega formi sem ég hafði verið í. Ferðalög, mikil vinna og umtalsverð streita höfðu einhvernvegin náð yfirhöndinni og ég hafði ekki haft kraft til að sinna sjálfri mér. Þetta er ekki góður staður að vera á og þarna um sumarið fór ég fyrst að finna fyrir löngun til að gera róttækar breytingar… ekki bara svona eitt og eitt leikfiminámskeið… heldur breytingar sem myndu rista dýpra. Ég hafði átt tímabil af og til þar sem ég kom mér í þokkalegt hlaupaform, vissi að mér þótti gaman að hlaupa, en ég hafði hins vegar alltaf látið þau víkja þegar annað í lífinu kallaði á athygli. Aldrei sett hreyfingu í forgang.

Fyrst þegar ég var að koma mér af stað að hlaupa þá kom það fyrir að manneskja á röskri göngu færi fram úr mér. Ég lötraði áfram. Og ég fór ekki langt…. kannski 15-20 mínútur til að byrja með. Ég þurfti líka að henda öllum hugsunum út um gluggann sem snerust um samanburð á því sem ég gat einu sinni. Það skipti engu máli hvað ég hefði hlaupið hratt og langt í menntaskóla. Það sem skipti máli var að mæta mér á þeim stað sem ég var hverju sinni og halda áfram, dag eftir dag, viku eftir viku og ár eftir ár. Hægt og rólega fór að vera meira og meira gaman og nú get ég eiginlega ekki hugsað mér lífið án þess að flétta hlaupum og útiveru inn í hið daglega líf…. ekki bara á fallegum sumardögum heldur allan ársins hring.

Stofnun hlaupahópsins Flandra haustið 2012 var algert lykilatriði í því að mér hefur tekist að halda mér við efnið og mikið er ég þakklát öllum þeim frábæru hlaupafélögum sem ég hef kynnst í gegn um þann félagsskap.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Hreyfing, Keppni. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s