Tvö skref áfram – eitt afturábak

Á morgun eru fimm vikur síðan ég tognaði í nára. Eftir tvær vikur í algerri hvíld frá hlaupunum hef ég verið að reyna að fara af stað aftur en gengur heldur brösulega. Fyrstu vikuna fór ég MJÖG varlega…. skokkaði stutt og mjög hægt. Fór kannski einn hring á íþróttavellinum, gekk tvo, skokkaði annan ofrv. Virtist samt fara hratt fram þannig að vikuna á eftir var ég farin að skokka 2-3 km á sæmilegum hraða án þess að ganga neitt. Mjög stuttar vegalengdir miðað við það sem ég var að skokka í sumar og haust, en ég var samt komin af stað.

Þann 1. nóvember fannst mér að nú væri þetta alveg að koma, og í stað þess að skokka á íþróttavellinum, dreif ég mig með hlaupahópnum í 5 km götuhlaup. Gekk ágætlega fyrri helminginn en eftir 3 km fann ég sting í nára sem ágerðist þannig að ég þurfti að ganga til baka. Næstu tvö skipti sem ég fór út (á laugardeg 3. nóv og mánudegi 5. nóv) gat ég lítið skokkað, fór nokkra hringi og gekk og skokkaði til skiptis. Síðasta fimmtudag var ég bara á vellinum, fór 2 km sæmilega hratt, gekk tvo hringi, og svo rólega 1,2 km. Ég fann lítið fyrir náranum á þessari æfingu og dagana á eftir fann ég ekkert fyrir honum við daglegar hreyfingar, göngu og þess háttar. Þannig að ég var að vona að þetta væri kannski bara liðið hjá. Dreif mig svo í dag (sunnudaginn 11. nóv) og stefndi á 5 km skokk. Langaði að prófa hvort væri kannski séns fyrir mig að taka þátt í næsta Flandraspretti, sem er 5 km hlaup sem við verðum með í Borgarnesi næsta fimmtudag. Niðurstaðan var sú að ég er ekki tilbúin í slíkt 😦 Gekk ágætlega fyrsta kílómetrann, en fór að finna mikið fyrir náranum strax á kílómetra tvö, nánar tiltekið þegar ég fór að hlaupa upp brekku. Þannig að 5 km skokkið breyttist í stutt 2 km skokk og ég þarf að sætta mig við það að batinn taki eitthvað lengri tíma. Sakna sérstaklega löngu, rólegu hlaupatúranna um helgar. En þeir koma aftur þó síðar verði.

Í millitíðinni hef ég verið að lesa mér til (og prófa mig áfram) með hlaupatækni. Fékk bókina ChiRunning + DVD í pósti fyrir rúmlega viku síðan. Er búin að horfa tvisvar sinnum á myndbandið og lesa lykilkafla í bókinni. Sumt snýr eingöngu að tækni, t.d. að halla sér örlítið fram þegar maður hleypur, til að láta þyngdaraflið vinna með sér (frá ökkla, ekki frá mitti), lenda á miðjum fæti (ekki á hælnum), virkja magavöða (miðjuna) þegar maður hleypur en slaka eins og hægt er er á öðrum vöðvum. Annað hefur kannski meira með hugarfar að gera, t.d. að nota hlaupinn til að skynja líkamann betur, og um leið nota hreyfinguna sem leið inn í núið. Hlaupin verða þannig leið til að fókusera og hreinsa hugann…. eins konar hugleiðsla á hreyfingu (moving mediation).

Allt þetta, bæði hið tæknilega og það sem snýr að hugarfarinu, á að hjálpa til við að gera hlaupin ánægjulegri, draga úr álagi sem geta leitt til meiðsla og þar sem orkunýting líkamans á að vera betri með þessu móti, þá hjálpar það líka til við að auka hraðann, án þess að það sé beinlínis markmið þeirra sem eru að kynna þessi fræði. Sumt virðist svipað því sem nokkrir Íslendingar hafa verið að kynna undir heitinu Smart Motion, a.m.k. tæknilegi hlutinn.

Ég hef líka verið að velta því fyrir mér, þessar vikur sem ég hef verið að brasast í þessum meiðslum, af hverju ég er svona upptekin af því að vilja geta skokkað/hlaupið. Ég hef vel getað verið í annarri hreyfingu þó að nárinn hafi verið að angra mig. Synti t.d. talsvert vikunar tvær sem ég gat ekkert skokkað, hef aðgang að ágætis tækjasal á Bifröst og fer stundum í jóga eða aðra rólega leikfimi heima hjá mér. Öll hreyfing er góð og fær mig til að líða betur, en af einhverjum ástæðum finnast mér hlaupin skemmtilegri. Ekki er það af því að ég sé svo ægilega góð í þeim…. er mjög hæg og oftast með þeim síðustu ef ég er að hlaupa í hóp. En það er eitthvað við þau sem henta minni skapgerð og átökin eru þannig að mér líður yfirleitt vel á eftir. Sef mun betur og þau virka vel til að losa mig við streitu sem á það til að festast í líkamanum. Svo hentar það mér vel að setja langtíma markmið sem halda mér við efnið, eins og t.d. Jökulsárhlaupið síðasta sumar. Ætla að gera eitthvað svipað næsta ár. Er ekki alveg búin að ákveða hvað það verður, en hugsa samt að ég stefni að hálfmaraþoni í næsta Reykjavíkurmaraþoni, svona sem aðal markmið. Og svo einhver skemmtileg smærri markmið fram að því.

Næsta markmið er samt aðallega að láta ekki meiðslin draga úr mér þróttinn heldur líta á þau sem leið til að þjálfa seiglu og tækifæri til að læra meira um líkamann og hvernig hann virkar best.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s