Ég náði markmiði september og hljóp 100 km. Það gekk ágætlega, nema ýmislegt varð til þess að ég fór heldur færri kílómetra um miðjan mánuðinn en til stóð og þurfti því aðeins að gefa í síðustu vikuna til að ná að klára. Hélt svo ótrauð áfram í október alveg þar til 8. október…. þá kom smá babb í bátinn.
Ég var á hlaupaæfingu með Flandra, hlaupahópnum okkar í Borgarnesi. Æfingin byrjaði á 15 mínútna rólegu skokki og svo var farið á íþróttavöllinn í hraðaæfingar. Ég fann fyrir einhverju taki á innanverðu vinstra lærinu strax á fyrstu 100-200 metrunum. Sennilega hef ég farið óþarftlega hratt af stað, eitthvað spennt upp vöðvann til að halda jafnvægi, og þar sem ég var alveg óupphituð, þá fór sem fór. Það er nefnilega þannig að það sem er rólegt fyrir einn er hratt fyrir annan. „Rólega“ skokkið í upphafi var sennilega ekkert rólegt fyrir mig. Ég bara fór af stað með hópnum og fyrst ég var í stuði fannst mér allt í lagi að halda bara þeim hraða. En þegar ég skoða tölurnar úr Garmin tækinu mínu sé ég að ég var að skokka þennan upphitunarlegg á 6,50 mín/km, sem er hratt fyrir mig…. allt of hratt til að æða af stað á þeim hraða algjörlega köld og óupphituð. Og af því að ég er búin að vera svo heppin í þessu hlaupabrölti mínu að ég hef ekki fundið fyrir neinum meiðslum, þá hélt ég bara áfram… treysti því að þetta myndi jafna sig… sem það gerði ekki. Virtist samt ekki vera neitt hræðilegt þegar ég var búin með æfinguna, en um kvöldið var ég farin að finna verulega til og gat ekki stigið í fótinn. Nú eru liðnir 12 dagar og ég hef ekkert farið út að hlaupa síðan þennan mánudag.
Ég var ekki hölt nema 1-2 daga, en finn enn fyrir taki í náranum vinstra megin, sérstaklega ef ég beygi mig og lyfti fætinum á sama tíma. Og í þau fáu skipti sem ég hef prófað að skokka nokkur skref finn ég alltaf talsvert fyrir þessu. En þetta virðist samt vera að lagast hratt. Til að missa ekki algjörlega dampinn í hreyfingu ákvað ég að synda, og er búin að synda 1000 metra 2-3 sinnum í viku undanfarið. Hef bara farið á sama tíma og ég hefði átt að vera á hlaupaæfingu. Er síðan að spá í að prófa að fara að skokka aftur í næstu viku, bara mjög rólega, til að tékka á hvort þetta sé að lagast. Hlaupa kannski 3-4 hringi á vellinum og svo í sund á eftir. Taka eina viku svona rólega og sjá hvort ég verð tilbúin að fara að hlaupa aftur með hópnum eftir það.
Þetta er sem sagt líkamlega hliðin….. en þá að hinni andlegu. Ég varð nefnilega alveg hræðilega spæld yfir þessari hindrun sem kom í veg fyrir að ég gæti haldið mínu striki. Mér fannst ég vera komin á svo góða siglingu, var farin að auka hraðann svolítið, léttast aðeins, og fannst ég sífellt vera að fá meiri og meiri ánægju út úr hlaupunum. Þau bæta svefninn alveg helling og mér líður einhvernvegin miklu betur þegar ég gef mér tíma í að fara út að hlaupa a.m.k. 3-4 sinnum í viku. Svo var ég farin að kynnast fullt af skemmtilegu fólki í gegn um þetta áhugamál og fannst gaman hvað gekk vel að virkja fólk í Borgarnesi að fara að hlaupa saman, jafnvel þó við séum á mismunandi getustigi. Ég var harðákveðin í að láta veturinn ekki stoppa mig, heldur halda ótrauð áfram og koma sterk inn í næsta vor. Ekki taka 2-3 mánaða hlé eins og í fyrravetur.
Með öðrum orðum, ég var alls ekki tilbúin að taka mér pásu frá hlaupunum og frekar fúl með þetta allt saman þó ég reyndi að bera mig vel. Atvikið varð þó til að ég fór að lesa mér enn meira til um hlaup og m.a. allt mögulegt um hlaupameiðslu og hvernig er hægt að koma í veg fyrir þau. Rakst meðal annars á þessa síðu hér: http://www.chirunning.com/ og þessa hér: http://wholisticrunning.com/ og heillaðist nógu mikið til að ég er búin að panta mér bæði bók og DVD. Það var ekki bara þessi pæling, um að hægt væri að draga úr meiðslahættu með því að huga að hlaupastíl, sem mér fannst áhugaverð, heldur líka hugmyndafræðin… að tengja hlaupin við núvitund og ákveðið hugleiðsluástand. Það er eitthvað sem mér finnst eftirsóknarvert og langar að prófa mig áfram með.
Þannig að ég er hvergi nærri hætt. Vil alls ekki láta þetta stoppa mig. Þvert á móti, þá get ég ekki beðið að byrja aftur. Hlakka til. Ætla samt að fara MJÖG varlega. Vil ekki gera þau mistök að æða af stað og fljótt og eiga í þessu lengur en ella.
Er aðallega að skrifa þetta blogg til að peppa mig áfram. Var komin í óþarflega mikla sjálfsvorkunn, fannst ég vera að missa af allskonar skemmtulegum viðburðum hjá hlaupahópnum og var hrædd um að ég myndi eiga erfitt með að koma mér af stað aftur. Sjálfsvorkunn er hins vegar óskaplega leiðinlegur ferðafélagi. Ég vil miklu frekar eiga vinkonurnar jákvæðni og bjartsýni sem samferðakonur, enda engin ástæða til annars en að ég verði komin á fullt skrið aftur eftir 1-2 vikur.
Flott blogg! „That’s the spirit“! Áfram Auður! 🙂