Fyrsta maraþonið

Frásögn af aðdraganda, undirbúningi og upplifun:

Forsagan

Ég man ekki alveg hvenær ég fékk fyrst þá flugu í höfuðið að mig langaði til að hlaupa maraþon einhverntíman á lífsleiðinni en hugmyndin fór að skjóta dýpri rótum fyrir um fimm árum síðan. Á þeim tíma var ég í afleitu líkamlegu formi og hugmyndin því frekar langsótt. En hún lét mig samt ekki í friði. Og einhvernvegin æxlaðist það þannig að ég fór að taka ýmis skref sem miðuðu að þessu markmiði jafn og þétt næstu árin á eftir.

Sumarið 2011 tók ég þátt í 10 km í Reykjavíkurmaraþoni, sumarið 2012 hljóp ég 13,2 km vegalengd í Jökulsárhlaupi og sumarið 2013 lauk ég mínu fyrsta hálfmaraþoni. Hver áfangi var mikilvægur persónulegur sigur og þetta voru áskoranir sem ég hafði mjög gaman af að glíma við. Draumurinn um maraþonið var aldrei langt undan, en ég fann þegar ég var að æfa fyrir hálfmaraþonið árið 2013 að ég var komin nokkuð nálægt þeim mörkum sem líkaminn þoldi á þeim tíma. Þó ég hefði lést um 4-5 kíló eftir að ég byrjaði að hlaupa þá var ég samt talsvert yfir kjörþyngd og ég komst að þeirri niðurstöðu að ef ég ætlaði mér að lengja vegalengdir verulega þyrfti ég fyrst að létta mig umtalsvert. Annars væri hættan á álagsmeiðslum of mikil.

Þannig að árið 2014 var áherslan á einmitt það. Ég léttist um 15 kg fyrri hluta árs og tók síðan þátt í þremur hálfmaraþonhlaupum seinni hluta ársins (í júní, ágúst og október). Fyrri hluta árs 2015 létti ég mig svo um önnur þrjú kíló í viðbót og var þá orðin 25 kílóum léttari en árið 2010, þegar hugmyndin um maraþonhlaup fór að láta á sér kræla fyrir alvöru.

Fyrir ári síðan tók ég síðan þá ákvörðun að nú væri komið að því: Fyrsta maraþonið yrði farið á afmælisdaginn minn 22. ágúst 2015. Ég var dugleg að segja hverjum sem vildi heyra frá þessu markmiði og hagaði öllum æfingum strax frá janúar á þessu ári með það í huga að ég yrði komin í form til að hlaupa maraþon síðsumars.

Undirbúningur

Fyrstu tvo mánuði ársins hljóp ég þrisvar sinnum í viku með Flandra, svipaðar vegalengdir og ég hafði verið að gera mánuðina á undan (ca 25-30 km á viku) en lagði meiri áherslu en áður á styrktaræfingar. Ég fór svo að smá auka vegalengdir með það að markmiði að hlaupa hálfmaraþon í lok apríl. Sleppti því hlaupi reyndar vegna flensu en þegar ég hafði jafnað mig eftir veikindin var kominn maí og æfingar fyrir sjálft maraþonið byrjuðu af meiri alvöru. Ég fjölgaði hlaupaæfingum upp í 4-5 sinnum í viku og helgarhlaupin fór að lengjast. Í júní og júlí tók ég nokkur hlaup sem voru 30 km eða lengri og ég var hlaupa um 200 kílómetra á mánuði í maí, júní og júlí með blöndu af hraðaæfingum, tempóhlaupum og rólegri hlaupum.

Þegar nær dró hlaupinu voru alls konar hlutir sem þurfti að pæla í sem skipta minna máli fyrir styttri vegalengdir. Það vafðist talsvert fyrir mér hvað væri best að borða fyrir og eftir löngu hlaupin og hvernig væri best að nærast dagana fyrir sjálft maraþonið. Næring í sjálfu hlaupinu (gel og vökvainntaka) var líka eitthvað sem þurfti að skipuleggja sem og að ná góðri hvíld dagana fyrir hlaupið. Ég lá yfir greinum, íslenskum og enskum, á netinu þar sem gefin voru góð ráð, ræddi við mér reyndara fólk, og reyndi að tileinka mér eitthvað af þeim fróðleik. Hvort sem það tókst eða ekki þá mætti ég allavega í hlaupið á laugardagsmorgni, vel úthvíld og vel stemmd til að takast á við verkefnið framundan.

Hlaupið

Ég mætti í hlaupið með Siggu Júllu, hlaupavinkonu úr Flandra. Hún var að fara hálft maraþon, sem byrjaði á sama tíma. Við marklínuna hittum við Jónínu, annan Flandrafélaga, og við þrjár spjölluðum saman þessar síðustu mínútur áður en hlaupið var ræst.

Ég var búin að ákveða, fyrir hlaupið, að byrja á 6,30 m/km hraða og sjá til hvernig mér gengi að halda þeim hraða. Vildi alls ekki fara hraðar því það myndi koma niður á mér síðar í hlaupinu. Sigga Júlla ákvað að byrja á þeim hraða líka þannig að við urðum samferða fyrstu 8 kílómetrana. Það var mjög skemmtilegt og gerði þessa fyrstu kílómetra frekar áreynslulausa og þægilega. Hraðinn var ekki meiri en svo að það var vel hægt að spjalla og tíminn leið hratt. Ég tók fyrsta gelið á drykkjarstöð eftir 8 km og stuttu eftir ákvað Sigga Júlla að hægja aðeins á sér þannig að ég hélt ein áfram.

Samkvæmt Garmin var ég 65,11 með fyrstu 10 km, eða á 6,31 m/km hraða. Mér leið eins og ég hefði getað farið mun hraðar þessa fyrstu kílómetra og þurfti stundum að minna sjálfa mig á að hægja á mér. Held samt að það hafi verið rétt ákvörðun að fara ekki hraðar, því strax í næsta kafla hlaupsins fór ósjálfrátt að hægjast á mér, þó mér finndst ég ekki orðin neitt sérstaklega þreytt, og ég var 1,40 mín lengur með næstu 10 kílómetra (66,51). Þegar ég fór yfir mottuna sem markaði tímann fyrir hálfmaraþon var tíminn kominn upp í 2.20,34.

Mér leið enn ágætlega á þessum tímapunkti og fannst sérstaklega gaman eftir 23 kílómetra að rekast á hann pabba minn, sitjandi á stól við stíginn, að fylgjast með hlaupurunum. Ég tók tíma til að knúsa hann sem var fín vítanmínsprauta. Leiðin lá inn í Elliðadal og svo Fossvoginn og í átt að Ægissíðu. Á þessum þriðja kafla hlaupsins, 20-30 km, var ég farin að finna meira fyrir þorsta og orkuleysi þannig að það var kærkomið að stoppa á drykkjarstöð eftir 25 km og 30 km og fá sér gel og vatn. Ég drakk yfirleitt 2 glös á hverri drykkjarstöð. Hraðinn var aðeins farinn að dala en á þessum 10 kílómetra kafla var ég samt enn á nokkuð jöfnum hraða, 6,50 m/km, og tíminn fyrir þennan legg var 68,20 mín.

Eftir 30 km fór ég að finna fyrir talsvert meiri þreytu, eins og ég hafði átt von á. Ef ég gætti ekki að mér var ég ósjálfrátt farin að hlaupa mun hægar…. stundum var hraðinn kominn niður í 7,30 m/km þegar ég leit á klukkuna og þá þurfti ég að beita mig hörðu til að hraða á mér aftur. Ég var farin að fá nóg af gelum, þannig að á drykkjarstöð við 34 km fékk ég mér í staðinn eitt glas af powerade en tók svo síðasta gelið á drykkjarstöð eftir 38 km. Samtals tók ég 7 gel, 1 fyrirhlaup og 6 á leiðinni.

Á þessum kafla var hraðinn sennilega hvað ójafnastur…. stoppaði örlítið lengur við drykkjarstöðvarnar…. var lengur að ná upp hraða aftur og hægði á mér af og til, en stoppaði þó aldrei til að ganga. Þó væri farið að hægjast á mér langaði mig samt aldrei að hætta og sennilega fór ég fram hjá fleiri hlaupurum á þessum legg en í köflunum á undan. Margir sem voru farnir að labba á þessum tímapunkti og einhverjir komnir út í kant að huga að blöðrum eða öðrum óþægindum. Ég var blessunarlega laus við allt slíkt og reyndi bara að gleyma þreytunni og njóta sem mest. Þessi hluti hlaupaleiðarinnar var m.a. út í Gróttu og mér fannst það skemmtilegasti hluti leiðarinnar. Meðalhraðinn á þessum kafla (30-40 km) var um 7,09 m/km.

Þegar ég var komin fram hjá 40 km keilunni varð hlaupið andlega léttara þó líkaminn væri þreyttur. Ég vissi að ég myndi klára og enn höfðu engin meiriháttar vandamál látið á sér kræla, hvorki blöðrur, meltingarvandamál né krampar. Bara svolítil þreyta, eins og við var að búast. Ég náði að hraða örlítið á mér þennan síðasta hluta og var á 7,06 m/km meðalhraða.

Það var góð tilfinning að beygja fyrir hornið á Lækjargötunni og sjá í mark en enn betra var að heyra nafnið mitt kallað þar sem ég hafði ekki átt von á neininum sem ég þekkti í marki. En þar voru þá samankomið frændfólk mitt, sem m.a. náði þessari fínu mynd sem birtist með þessum pistli, og einnig fólk úr Flandra. Hvatningarhrópin voru einmitt það sem ég þurfti á að halda til að gleyma þreytunni og hlaupa brosandi í mark.

RM_2015

Kát og glöð enda bara 200 metrar í mark. Mynd: Sigrún Kristjánsdóttir

Markmiðinu var náð. Ég kláraði maraþon, var í heilu lagi og fannst gaman alla leið. Lokatíminn var 4.49,17 sem var vel ástættanlegur tími miðað við væntingar fyrir hlaupið.

Stuðningsnet

Eitt af því sem ég hef lært í þessu ferli er hversu mikilvægt er að leita eftir stuðningi og vera opin fyrir að þiggja aðstoð þegar unnið er að stórum markmiðum. Þegar ég tók matarræðið í gegn árið 2013 leitaði ég ráðgjafar og stuðnings fagaðila og þegar ég byrjaði að æfa fyrir maraþonið fór í samstarf við þjálfara, hana Sonju Sif, sem sendi mér mánaðarlegar æfingaráætlanir og veitti bæði góð ráð og hvatningu. Ég hafði einnig mikinn stuðning af hlaupafélögum mínum í Borgarnesi (úr Hlaupahópnum Flandra). Það að vinna með þjálfara og hlaupa reglulega með hópi hjálpaði ekki aðeins til við að ná markmiðinu heldur gerði það ferðalagið miklu skemmtilegra. Mér hefur líka þótt gríðarlega vænt um stuðning og skilning frá vinum og vandamönnum á þessu brölti mínu. Í því samhengi verð ég sérstaklega að fá að nefna hana mömmu mína, Hrefnu Hjálmarsdóttir, sem hefur ekki aðeins sýnt þessu oft tímafreka áhugamáli mikla þolinmæði, heldur verið óþreytandi að hvetja mig til dáða. Takk, elsku mamma.

Birt í Hlaup, Hreyfing, Keppni | Færðu inn athugasemd

Tvö ný PéBé í 10 km

Fyrsta maraþonið nálgast óðfluga og hefur verið nóg að gera við að æfa fyrir það. Á síðustu tveimur vikum tók ég þátt í tveimur 10 km hlaupum og bætti tímann minn í bæði skiptin. Fyrra hlaupið var Adidas Boost hlaupið í Reykjavík þann 29. júlí. Þar hljóp ég á 55,52 sem var bæting upp á tvær og hálfa mínútu miðað við besta 10 km tímann minn frá því í september 2014. Laugardaginn 8. ágúst tók ég þátt í Brúarhlaupinu á Selfossi og bætti þá tímann um 10 sekúndur og hljóp á 55,42. Bæði þessi hlaup eru á frekar sléttri braut og aðstæður voru ágætar í bæði skiptin. Hér kemur stutt frásögn af hvoru hlaupinu fyrir sig.

Adidas Boost hlaup

Þetta er nýtt hlaup og var greinilega skipulagt með það í huga að um bætingarbraut væri að ræða. Vel auglýst, mikið af flottum vinningum (bæði fyrir verðlaunahafa og útdráttarverðlaun). Flott hlaup en klikkaði samt á nokkrum grunnatriðum eins og aðgengi að klósettum eða kömrum fyrir hlaup, hvar ætti að ná í keppnisgögn ofl. En þetta verður væntanlega lagað fyrir næsta skipti.

Ég fór í hlaupið ásamt tveimur hlaupafélögum úr Flandra, þeim Stefáni og Gunnari. Ég var ekki sérlega vel upplögð þennan dag. Hafði farið í erfiða fjallgöngu tveimur dögum fyrr og með frekar mikla strengi í lærunum. Einhver óróleiki í maganum líka. Ákvað samt að láta það ekki stoppa mig og fann svo sem ekki fyrir þessu þegar ég var lögð af stað. Hlaupið byrjaði upp aflíðandi brekku en var síðan annað hvort á jafnsléttu eða niðri móti stærstan hluta leiðarinnar nema síðustu 500 metrana var aftur aðeins uppi á móti. Ég var 27,25 mín með fyrri 5 kílómetrana, eftir 7,5 km var klukkan í ca 41,30 en svo missti ég aðeins niður hraðann síðustu 2 kílómetrana…. eða sérstaklega síðasta kílómetrann (sem var, eins og fyrr segir, aðeins upp á móti) og lokatíminn var 55,52. Var mjög sátt við það, sérstaklega í ljósi þess að ég var í raun ekki í neitt sérstöku stuði þennan dag.

Eftir hlaup var mikið húllumhæ, hitti fullt af fólki, bjór, hámark, bananar og fleira í marktjaldinu og svo útdeilt fullt af verðlaunum. Fékk samt engin verðlaun sjálf nema auðvitað PéB-ið mitt sem var svo sem alveg meira en nóg 🙂 Við drifum okkur svo í pottinn í Árbæjarlaug og svo fengum við okkur hamborgara á American Style um tíuleytið, áður en við brunuðum aftur í Borgarnes. Ég fær mér sjaldan hamborgara og hef aldrei fengið mér slíkt strax eftir hlaup. Komst að því að það er ekki góð hugmynd fyrir mig. Fór illa í maga og ég var veik alla nóttina og eins og drusla næsta dag. Gjörsamlega orkulaus.

Brúarhlaupið

Mig langaði að prófa annað 10 km hlaup á degi sem ég væri aðeins betur upplögð og Brúarhlaupið var tilvalið til þess. Slétt braut og Selfoss í passlegri fjarlægð frá Borgarnesi fyrir dagsferð. Þannig að á laugardagsmorgni dreif ég mig í bíltúr og var komin á Selfoss um 10.30 (hlaupið byrjaði 11.30). Á Selfossi hitti ég Ingu Dísu, hlaupafélaga úr Flandra, og við hituðum upp saman og fórum að byrjunarlínunni. Ég var mun betur upplögð en í fyrra hlaupinu og viss um að ég ætti innistæðu fyrir smá bætinu í viðbót. Fór sennilega heldur of hratt af stað því fyrstu 2 km voru á 5,18 meðalhraða og fyrri 5 km voru á 27,10 (10 sekúndum hraðari en besti tíminn minn í 5 km). Kom í ljós að ég gat ekki haldið þessum hraða, eftir 7,5 km var tíminn 41,20 og þessi kafli (5-7,5 km) var því 5 sekúndum hægari en í hlaupinu vikunni á undan og síðustu 2,5 km voru á alveg sama hraða síðast. Þannig að ég var 15 sekúndum fljótari með fyrri hlutann en 5 sekúndum lengur með seinni hlutann og náði í heildina 10 sekúndna betri tíma (55,42). Mér leið ágætlega eftir hlaupið og var fín þegar ég vaknaði næsta dag, þannig að í heildina var ég sáttari við þetta hlaup en hið fyrra þó bæði hafi verið lærdómsrík.

Nú eru bara tæpar tvær vikur í maraþon og ég finn að ég er orðin bæði spennt og stressuð. Hef náð að æfa nokkuð vel, fylgt áætlun svona 90 prósent og nú þarf ég bara að vinna með hausinn á mér og treysta því að æfingar undanfarinna mánaða skili mér í mark. Og muna að njóta og hafa gaman 🙂

Birt í Hlaup, Keppni | Færðu inn athugasemd

4 skóga hlaupið

Þann 25. júlí hljóp ég 17,6 km í 4 skóga hlaupinu í Fnjóskadal. Lauk hlaupinu á rétt rúmum tveimur tímum eða 2.00,33. Þetta var virkilega skemmtilegt hlaup í fallegu umhverfi.

Ég hef tvisvar sinnum tekið þátt í skemmtiskokki (4,3 km) í 4 skóga hlaupinu; fyrst árið 2012, þegar ég var tiltölulega nýbyrjuð að hlaupa, og aftur í fyrrasumar (2014) en þá hafði ég ætlað að hlaupa 17,6 km en varð að breyta um áætlun vegna meiðsla í hné sem höfðu verið að hrjá mig vikurnar á undan. Það var því kominn tími til að glíma við aðeins lengri vegalengd í þessu hlaupi.

Spáin var frekar óljós fyrir daginn og um morguninn, þegar lagt var af stað frá Akureyri, var veðrið satt að segja ekki  mjög spennandi því það hellirigndi. Þegar komið var á Bjarmavöll í Vaglaskógi var enn rigning, þó ekki eins mikil og hafði verið á Akureyri. Ég tók létt upphitunarskokk og rigndi aðeins á mig þá, en svo þegar kominn var tími til að fara í rútuna sem keyrði okkur á upphafsstað þá hætti rigninginn og hélst þurrt allan tíman sem ég var að hlaupa.

Til í tuskið.... nokkrum mínútum áður en ég lagði af stað.

Til í tuskið…. nokkrum mínútum áður en ég lagði af stað.

Þessi leggur hlaupsins byrjaði við Illugastaði og var hlaupið í gegn um 3 skóga: Þórðarstaðarskóg, Lundsskóg og Vaglaskóg. Leiðin í gegn um fyrsta skóginn var talsvert mikið upp og niður á frekar grófum malarstíg, síðan var beinn og breiður malarvegur í gegn um Lundsskóg en brautin varð aftur aðeins erfiðari þegar komið var inn í Vaglaskóg. Mér fannst leiðin hins vegar mjög falleg og virkilega naut þess að hlaupa þó ég færi aðeins hægara yfir en ég hafði ætlað mér vegna þess hvað var mikið um brekkur (stefndi á meðalhraða 6,30 m/km en var á endanum á meðalhraða 6,51 m/km).

Þetta var eitt af þeim hlaupum sem ég virkilega náði að njóta á meðan á því stóð. Það var enginn kvíði í mér fyrir hlaupið, mér leið aldrei illa á leiðinni þó ég tæki sæmilega á og á nokkrum stöðum fylltist ég gleði yfir því hvað þetta var gaman og þakklæti yfir að ég hefði heilsu til að geta stundað þetta áhugamál.

Birt í Hlaup, Hreyfing, Keppni | Færðu inn athugasemd

Löngu hlaupin

Ég er að æfa fyrir fyrsta maraþonið mitt. Á síðustu tveimur árum hef ég fimm sinnum tekið þátt í hálfmaraþon hlaupum. Stærsti munurinn á að æfa fyrir maraþon í staðinn fyrir hálfmaraþon eru löngu hlaupin, sem verða ennþá lengri en í æfingum fyrir hálfmaraþon. Áður en ég byrjaði æfingar fyrir maraþonið hafði ég aldrei hlaupið lengra en 21,1 km en nú er ég búin að taka nokkur helgarhlaup sem eru lengri en 25 km. Mér finnst alltaf svolítið spennandi að fylgjast með líkamanum og sjá hvað gerist þegar ég lengi tímann sem ég er á hlaupum. Hversu vel þolir líkaminn aukið álag? Hversu lengi er hann að ná sér?

Til gamans ætla ég að gefa hér stutt yfirlit yfir löngu hlaupin í júní og júlí og hvernig ég hef upplifað þau:

13. júní – 28 km

Þetta var fyrsta hlaupið þar sem ég hljóp lengra en 25 km samfellt. Ég var á Akureyri og tók stóran Akureyrarhring, út í þorp, yfir Leirubrúnna, aðeins inn í fjörð og svo til baka í gegn um Kjarnaskóg. Fyrstu 20 km voru bara svona „venjulegir“ en ég virkilega fann fyrir síðustu 8 kílómetrunum. Leiðin var líka þannig að á þessum bút voru mestu brekkurnar, þannig að hlaupaleiðin var kannski ekki skynsamleg frá því sjónarmiði. Meðalhraðinn í þessu hlaupi var eitthvað circa 7,10 og það hægði verulega á mér síðustu 10 kílómetrana (var vel undir 7,00 m/km fram að því). Síðustu 2-3 kílómetrana fann ég fyrir spennu í mjöðmum og eins var mér illt í hálsi og hendi hægra megin (músarhendin). Leið samt allt í lagi eftir hlaupið og alls ekki eins og ég væri örmagna. Fór meira að segja 8 km liðkunarskokk næsta dag sem gekk ágætlega.

20. júní – 30 km

Klárlega besta og skemmtilegasta langa hlaupið fram að þessu. Ég undirbjó mig aðeins betur. Ákvað leiðina út frá því að hún væri auðveldari hvað brekkur varðar. Keyrði inn að Hrafnagili og byrjaði á því að hlaupa aðeins inn í fjörð og svo til baka upp brekkuna í átt að Laugalandi. Þetta var stærsta brekkann á þessari leið og gott að ljúka henni á fyrstu 6 kílómetrunum. Síðan hljóp ég í norðurátt út Eyjafjörðinn, yfir Leirubrú og til baka inn í fjörð þar til ég var komin aftur á Hrafnagil. Heiða vinkona hjólaði inn að Hrafnagili og kom hlaupandi á móti mér og var samferða síðustu 2-3 kílómetrana og „í marki“ voru pabbi og mamma sem voru mætt til að koma  með okkur í sund og hádegismat á eftir. Það var ekki síst þessi félagsskapur í lokin sem gerði þetta hlaup skemmtilegt, en líka hvað gekk vel og mér leið vel allan tímann. Ég prófaði í fyrsta sinn gel með koffíni og tók eitt gel áður en ég fór af stað og svo á 8 kílómetra fresti (samtals fjögur gel). Var með ca 1,2 lítra af vatni í hlaupabakpokanum mínum sem passaði ákkúrat fyrir þessa vegalend. Veðrið var frábært. Gat verið á bol en samt smá gola til að mér yrði ekki allt of heitt. Ég byrjaði frekar rólega og var á rétt innan við 7 m/km hraða en smá hraðaði svo á mér og síðustu 10 kílómetrana hljóp ég á 6,40 m/km. Meðalhraðinn var um 6,48 m/km. Þegar ég var að klára hlaupið leið mér eins og ég hefði vel getað hlaupið nokkra kílómetra í viðbót og haldið sama hraða.

4. júlí – 33 km

Lengsta hlaupið fram að þessu. Átti að vera 32 km samkvæmt plani, en mig langaði að hlaupa Hvanneyrarhringinn sem er örlítið lengri. Og fannst ómögulegt að loka þá ekki hringnum. Við fórum tvær saman þennan hring, ég og Ella hlaupavinkona úr Flandra sem einnig er að æfa fyrir fyrsta maraþonið sitt. Fyrsti hluti leiðarinnar er eftir þjóðvegi eitt en svo eftir 7 km er beygt upp að Ferjubakka og svo hlaupið áfram að gömlu brúnni yfir Hvítá og svo að Hvanneyri. Leiðin þar sem beygt er af þjóðveginum og þar til komið er að Hvanneyri var langskemmtilegasti hluti leiðarinnar. Þetta er um helmingur hringsins (frá 7-21 km) og að mestu á malarvegi. Þarna var ég í góðum gír og meðalhraðinn eftir fyrstu 20 kílómetrana var 6,40 m/km. Ella er heldur hraðari en ég þannig að hún hljóp hægar en hún er vön en ég örlítið hraðar.

Hvanneyrarhringur

Ég og Ella á miðri leið. Myndin er tekin rétt við brúna við Hvítá

Eftir rúmlega 20 kílómetra fór ég hinsvegar að finna fyrir talsverðri þreytu. Þarna vorum við aftur komnar út á malbikaðan veg þar sem var talsverð umferð og því ekki hægt að hlaupa lengur hlið við hlið. Ég hafði heldur enga orku lengur til að spjalla. Þannig að ég sagði Ellu að hlaupa bara áfram á sínum hraða en ég þyrfti að hægja aðeins á mér. Ég stoppaði samt aldrei og labbaði ekki neitt, en fór síðustu 13 km á ca 7,10 m/km. Meðalhraðinn á mér var í raun mjög svipaður og tveimur vikum fyrr, eða um 6,48 m/km en hlaupið í heild reyndist mér mun erfiðara og ég var þreytt bæði á eftir og næsta dag. Eftir 31 km hlaupum við í gegn um kríuvarp og þá hraðaði ég talsvert á mér þrátt fyrir að vera orðin dauðþreytt í löppunum. Magnað hvað sjálfbjargarviðleitnin er sterk þegar 5-6 kríur fljúga ógnandi í kring og gera sig líklegar til að gokka mann í hausinn 😉 En þetta var skemmtileg hlaup þó það væri þrælerfitt.

18 júlí – 32 km

Var aftur komin norður og nú ákvað ég að hlaupa hinn hlutann af Eyjafirði, eða frá Hrafnagili og inn í fjörð (í átt að Saurbæ og Melgerðismelum) og svo til baka. Hlaupið var sex dögum eftir að ég kom heim úr nokkurra daga bakpokagöngu og ég fann fljótt eftir að ég fór af stað að það var talsverð þreyta í líkamanum. Byrjaði við Hrafnagil, svo upp brekkuna í átt að Laugalandi en beygði svo til hægri inn í fjörð. Fór ca 15 km í þá átt og þá yfir brúna og til baka að Hrafnagili. Skemmtileg leið og fyrstu tvo tímana mætti ég varla bíl. En ég náði mér aldrei alveg á strik og var frekar þreytt í líkamanum alla leiðina. Meðalhraðinn var um 7,10 m/km.

Eyjafjörður

„Selfie“ á hlaupum…:-)

Ég stefni á eitt langt hlaup í viðbót um næstu helgi en svo fer ég væntanlega að hægja á mér og „hvíla“ fyrir stóra daginn sem verður þann 22. ágúst nk, sama dag og ég verð 45 ára.

Mér finnst ég læra heilan helling á hverju hlaupi og vona að þau nýtist mér þegar kemur að sjálfu maraþoninu.

Birt í Hlaup, Hreyfing | Færðu inn athugasemd

Uppgjör fyrir júní

Júní var mánuður þar sem ég vann markvisst að stóru markmiðunum. Sat við skriftir allar mánuðinn og var tilbúin með drög að doktorsritgerðinni í byrjun júlí. Og æfingar fyrir maraþonið í ágúst byrjuðu fyrir alvöru með helgarhlaupum sem fóru alveg upp í 30 kílómetra. Setti nýtt met yfir heildarfjölda kílómetra í einum mánuði og hljóp rétt rúmlega 200 km, þrátt fyrir að hafa meitt mig í tá og þurft að sleppa einu löngu hlaupi og 1-2 styttri.

Ég tók þátt í einu keppnishlaupi í júní, hálfmaraþoni á Mývatni þann 6. júní. Það gekk ágætlega. Var 8 mínútum fljótari en á sömu braut fyrir ári síðan og einni mínútu lengur en besti tíminn minn í hálfmaraþoni (frá því í RM í ágúst 2015). Þar sem ég var í miðjum æfingum fyrir maraþonið þá setti ég ekki 100% orku í hálfmaraþonið heldur tók meira þátt til gamans. Átti  því ekki von á að bæta besta tímann og var bara sátt við árangurinn. Var gott veður, margir sem ég þekkti og var hið skemmtilegasta hlaup.

Birt í Doktorsrannsókn, Hlaup, Hreyfing | Færðu inn athugasemd

Flatnavegur – Fyrsta heila fjallvegahlaupið mitt

Síðasta laugardag gerði ég tilraun tvö til að hlaupa og klára svokallað fjallvegahlaup. Fyrsta tilraun var fyrir ári síðan þegar ég var í hópi sem gerði atlögu að Leggjabrjóti en varð að snúa við vegna veðurs. Hægt er að lesa um það ævintýri á bloggsíðu Stefáns Gíslason (sjá hér). Að þessu sinni var verkefnið leið sem kallast Flatnavegur, sem liggur þvert yfir Snæfellsnesið, frá Rauðamelsölkeldu og endar á bænum Setbergi. Sem betur tókst okkur öllum sem vorum með í för að ljúka hlaupinu að þessu sinni, enda veður og aðstæður með besta móti. Upphafsmaðurinn að báðum þessum hlaupum er fyrrnefndur Stefán, Flandrari, hlaupafélagi og góður vinur.

Þeir sem hafa áhuga af þessum tegundum hlaupa geta fengið góðar og ítarlegar upplýsingar á sérstakri síðu þar sem Stefán deilir upplýsingum um fjallvegaverkefnið sitt. Þessi bloggfærsla lýsir hins vegar einungis minni persónulegu upplifun af þessu hlaupi, sem mér fannst erfitt en jafnframt sérlega skemmtilegt. Myndirnar sem birtast með pistlinum hnuplaði ég frá Stefáni á Facebook síðu fjallvegaverkefnisins og vona að hann fyrirgefi mér það.

Ég hef oft farið í gönguferðir um landslag svipað því sem við fórum um á laugardag en það eru ákveðnir hlutir sem ég er búin að uppgötva að eru talsvert frábrugðnir þegar markmiðið er að hlaupa frekar en ganga. Í fyrsta lagi er útbúnaðurinn annars konar. Í stað þess að ferðast um í sterkum, vatnsheldum gönguskóm eru strigaskór staðalbúnaður. Þeir eru léttari en maður kemst fljótt að því að það er til lítils að reyna að halda sér þurrum. Skórnir blotna við minnstu vætu og því alveg eins gott að ösla bara beint yfir ár, læki og mýrar án þess að hafa af því nokkrar áhyggjur þó fætur verði votir. Brooks Cascadia utanvegaskórnir mínur reyndur ljómandi vel í þessum aðstæðum. Fljótir að blotna en líka fljótir að þorna aftur.

Í öðru lagi er minna svigrúm til að taka með sér aukaföt og því eins gott að vanda valið vel þegar maður klæðir sig. Ekki gott að verða kalt, en ekki heldur þægilegt að þurfa að dragnast með aukaklæðnað ef manni verður of heitt.Ég var klædd í síðar hlaupabuxur, í compression legghlífum innanundir, síðri hlaupapeysu og léttum hlaupajakka. Hafði hárband sem virkaði bæði sem svitaband og hægt var að setja yfir eyru til að verja gegn vindi. Í bakpokanum var ég svo með húfu, hálskraga og vettlinga en þurfti ekki á þessum útbúnaði að halda. Fannst samt gott að vita af þessum aukaklæðnaði.

Í þriðja lagi er farið hraðar yfir í fjallahlaupum en göngutúrum, oft dreifist meira úr hópnum, og því meiri líkur á að maður endi ein á ferð, þrátt fyrir að vera hluti af hópi. Í fjórða lagi er minna um pásur, þar með talið nestispásur, og því næring á leiðinni aðallega í formi vatnsdrykkju og hlaupagels sem tekið er inn á ferð.

Með allt þetta í huga þá var ekki laust með að ég væri með pínulítið í maganum áður en hlaupið hófst. Ég er ekkert sérlega ratvís og hafði svolitlar áhyggjur af því að ef ég mynda enda ein myndi ég villast af leið. Og með svo lítinn útbúnað með sér þá er það ekkert sérstaklega aðlaðandi tilhugsun. Stefán var hins vegar búinn að setja greinargóða leiðarlýsingu á netið sem ég bæði las vel og vandlega, og prentaði út og var með í vasanum. Veðrið var líka eins og best var á kosið, hlýtt, skýjað en ágætt skyggni, sem dró úr hættunni á því að villast.

En aftur að sjálfu hlaupinu. Við vorum 23 sem lögðum af stað frá Rauðamelsölkeldu um klukkan 15:20, laugardaginn 30. maí. Þar af vorum við samtals 11 frá Flandra og einn til sem kom hlaupandi á móti.

Hópurinn í upphafi hlaups. Mynd: Stefán Gíslason

Hópurinn í upphafi hlaups. Mynd: Stefán Gíslason

Til að byrja með var hlaupið á mjúkum stíg en fljótlega vorum við komin í landslag sem var erfiðara undir fæti: þúfur, urð og grjót og á sumum stöðum jafnvel kjarr eða mýrar. Inn á milli voru þó stígar, sem auðvelduðu hlaupin, en landslagið var með þeim hætti að maður missti yfirleitt sjónar af þeim flestum eftir smá stund (nema síðustu 3-4 kílómetrana, sem voru eftir malarslóða).

Í fyrsta hlutanum, áður en við óðum yfir Flatnaá. Mynd: Stefán Gíslason

Í fyrsta hlutanum, áður en við óðum yfir Flatnaá. Mynd: Stefán Gíslason

Eftir 3-4 km komum við að staðnum þar sem átti að vaða yfir Flatnaá. Á þessum tímapunkti var hópurinn enn nokkuð samhangandi en fljótlega eftir að komið var yfir ána fór að dreifast úr honum, a.m.k. mín megin, sem var hægari hluti hópsins. Ég fann fljótt að mér fannst óþægilegt að fara of hratt yfir þar sem ég er ekkert sérlega fótviss og þarna var auðvelt að misstíga sig og hrasa. Þannig að ég var frekar hægfara, og hljóp í raun hægar en ég hefði getað miðað við dagsformið. En ég reyndi samt að halda mig í skokktaktinum og „hljóp“ eiginlega alla leið nema á nokkrum köflum þar sem þúfur og kjarr gerðu það að verkum að það var eiginlega ómöglegt annað en að ganga.

Eftir 5-6 km var ég hætt í að sjá í nokkurn mann, hvorki þá sem voru fyrir framan mig né aftan. Leiðin virtist þó nokkuð auðrötuð, mér leið vel og ég því bara í góðum gír þó ég væri bara ein að hlaupa með sjálfri mér. Veðrið var gott, skemmtilegt að virða fyrir sér fallegt landslag og góð tilfinning að hlaupa svona ein út í náttúrunni.

Frá seinni hlutanum. Áin var aldrei langt undan og það hjálpaði til við að halda áttum. Mynd: Stefán Gíslason

Frá seinni hlutanum. Áin var aldrei langt undan og það hjálpaði til við að halda áttum. Mynd: Stefán Gíslason

Ég var með þrjú gel með mér og rúmlega líter af vatni í vatnsblöðru í bakpoka (sem ég gat drukkið úr í gegn um rör). Ég stoppaði því aldrei til að borða og drekka en fékk mér gel á ca klukkutíma fresti. Ég var yfirleitt aðeins byrjuð að vera svöng og máttlaus áður en ég tók gelin, en sló á það um leið og fékk smá orku í kroppinn. Eftir ca 12 km dró ég fram leiðarlýsinguna, bara til að vera viss um að ég væri á rétti leið. Sá að leiðin mín passaði vel við lýsinguna þannig að ég hélt bara áfram, jafnt og þétt, og ca á kílómetra 15-16 fór ég aftur að sjá í næstu hlaupara á undan.

Rétt í þann mund sem ég var komin í gegn um erfiðasta hluta leiðarinnar, sem var blanda af kjarrlendi og mýrum, og búin að finna malarveginn sem við fylgdum síðasta spölinn, komu þeir Stefán og Gunni, hlaupafélagar úr Flandra, á móti mér. Þeir ákváðu að lengja svolítið hlaupið sitt með því að hlaupa til baka og hitta þá sem höfðu dregist aftur úr. Það urðu fagnaðarfundir og var gaman að fá pepp og faðmlag, svona rétt til að bæta á orkuna fyrir lokakaflann (allir alltaf svo góðir vinir svona upp á fjöllum 🙂 ).

Hér er ég búin að hlaupa tæpa 18 km, svolítið þreytt en jafnframt ánægð með að vera komin á beina og breiða braut og vita að væri stutt eftir. Mynd: Stefán Gíslason

Hér er ég búin að hlaupa tæpa 18 km, svolítið þreytt en jafnframt ánægð með að vera komin á beina og breiða braut og vita að væri stutt eftir. Mynd: Stefán Gíslason

Þeir héldu svo áfram til að finna þær sem voru á eftir mér en ég átti hið þægilegasta skokk síðustu kílómetrana eftir að ég var komin á malarvegin. Var hissa hvað ég átti mikla orku eftir þrátt fyrir að hafa verið á ferðinni í meira en þrjá tíma og leið bara eiginlega mjög vel þessa síðustu kílómetra.

Þegar ég loks komst á leiðarenda voru liðnir þrír klukkutímar og 37 mínútur síðan ég lagði af stað og samkvæmt Garmin úrinu mínu hafði ég farið samtals 21,5 kílómetra. Þó ég hafi oft hlaupið jafn langa vegalengd hef ég ekki áður verið jafnlengi á hlaupum samfleytt án þess að taka mér pásu og því kannsi ekki furða að ég væri orðin nokkuð lúin.

Á bænum Setbergi hitti ég fyrir bæði eiganda hússins og þá Flandrara sem kláruðu hlaupið á undan mér. Hinir hlaupararnir höfðu flestir drifið sig af stað heim fljótlega eftir að þeir kláruðu hlaupið og áður en ég komst alla leið en við í Flandra tókum okkur hins vegar góðan tíma í að skipta um föt og borða nesti áður en við héldum heim á við eftir góðan dag og frábært hlaup.

Birt í Fjallgöngur, Hlaup, Hreyfing | Færðu inn athugasemd

Uppgjör fyrir maí

Maí var góður hlaupamánuður. Ég hljóp samtals 193 km sem er það lengsta sem ég hef farið á einum mánuði. Tók þátt í einu 7 km hlaupi og fór í eitt mjög skemmtilegt fjallahlaup (skemmtihlaup, ekki tímatökuhlaup) en annað var hefðbundin æfingahlaup. Næsta mánuð eykst svo álagið enn meira en þá á ég að hlaupa 230 km samkvæmt áætlun…. enda að styttast í maraþonið í ágúst. Við sjáum hvernig það gengur.

Ég komst lítið í að skrifa fyrri hluta mánaðarins en síðari hluta maí sat ég við og bættust um 8000 orð við ritgerðina. Það er eins með skrifin og hlaupin… í júní verður bara bætt í enda styttist í skilafrest.

Dagskráin í júní: Skrifa – Hlaupa – Borða – Sofa: Repeat 😉

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Icelandair hlaup og uppgjör fyrir apríl

Í gær tók ég þátt í 7 km Icelandair hlaupi.Var búin að setja mér það markmið fyrir hlaupið að hlaupa á 5,40 m/km og ná tímanum 39,40 mín. Hlaupið gekk hins vegar vonum framar og ég var 38,20 mínútur að klára hlaupið. Þetta er rúmlega tíu mínútna bæting á 7 km tímanum mínum (hef ekki tekið þátt í 7 km hlaupi í tæp tvö ár) og ég var rúmlega 11,33 mínútum fljótari en í sama hlaupi fyrir tveimur árum síðan (sjá lýsingu á því hlaupi hér).

IcelanderHlaup_samanburdur

Þetta gekk sem sagt vel og var skemmtilegt. Fyrsti kílómetrinn var hægastur (lenti í troðningi), kílómetri númer tvö sá hraðasti, en svo hélt ég sæmilega jöfnum hraða út hlaupið og var meira að segja á örlítið betri meðalhraða síðustu 2 km miðað við fyrstu 5 km. Við vorum sjö sem hlupum frá Flandra og það gerði hlaupið líka skemmtilegra að vera í góðum félagsskap. Fórum svo í pottinn á eftir og brunuðum svo heim í Borgarnesið.

Mér finnst alltaf smá vesen að finna út hvernig er best að nærast fyrir hlaup sem eru tímasett svona á kvöldmatartíma. Í þetta sinn borðaði ég staðgóðan hádegismat á Bifröst (grænmetisbaunabollur, hrísgrjón + salat), fékk mér einn lítinn snúð á fundi sem ég var á klukkan 14:30, ásamt kaffi og vatni, og svo gleypti ég í mig banana og vanilluhámark klukkan 16:30, um leið og ég var að koma mér í hlaupafötin. Þetta virkaði ágætlega. Nógu stutt síðan ég borðaði til að ég var ekki svöng en nógu langt til að maginn var ekki upptekinn við að melta.

Ég átti eftir að skrifa uppgjör fyrir aprílmánuð. Hann fór nú ekki alveg eins og til stóð. Ég hljóp 121,8 km í mánuðinum. Gekk vel fyrstu 20 dagana og ég var búin að fylgja alveg æfingaplani, bæði hvað varðar hlaup og styrktaræfingar, með það í huga að hlaupa hálfmaraþon í vormaraþoni laugardaginn 25. apríl. Þann 22. apríl veiktist ég hins vegar af einhverri leiðindaflensu. Lá í rúminu í þrjá daga með háan hita og beinverki og var svo hundslöpp aðra þrjá daga í viðbót. Þannig að ég tók mér hlé frá hlaupunum í heila viku og tók svo bara 2 róleg hlaup vikuna þar á eftir. Er í raun bara í þessari viku sem ég er komin á fullt skrið aftur. Var auðvitað frekar fúl að missa af hálfmaraþoninu, en ég var hins vegar svo óskaplega þakklát fyrir að ná að vera orðin frísk á einni viku, því um síðustu helgi fór ég í stutta ferð erlendis, og það var mikilvægara fyrir mig að ná að vera sæmilega hress þá daga heldur en að taka þátt í hlaupinu. Þannig að allt fór þetta eins og það átti, og kannski var bara gott fyrir líkamann að taka sér smá hvíld frá hlaupunum. Hef ekki tekið svona langa pásu frá því síðasta sumar, þegar ég meiddi mig í hnéinu.

Hvað önnur markmið varðar þá skrifaði ég lítið í apríl í ritgerðinni. Það mun standa til bóta í maí og júní, þar sem kennslan er núna búin og ekkert annað en skrif og hlaup á dagskrá í vor. „Fókus“ er mantra næstu vikna 🙂

Birt í Hlaup, Hreyfing | Færðu inn athugasemd

Marsmánuður – uppgjör

Mars var þriðji lengsti hlaupamánuðurinn frá því ég fór að skrá hjá mér hlaupin fyrir þremur árum síðan, en ég hljóp samtals 157,1 km í mánuðinum (lengsti mánuðurinn fram að þessu var september 2014 þegar ég hljóp 174,8 km). Þar munaði um bæði að helgarhlaupin fór að lengjast (16 km/16km/18km/20km) og að ég bætti inn einu rólegu aukahlaupi inn í hverri viku og fór því 4x í viku út að hlaupa og einu sinni í ræktina til að gera styrktaræfingar. Ég tók þátt í tveimur 5 km hlaupum, fyrst Flandraspretti þann 19. mars (27,33) og svo FH hlaupinu í Hafnarfirði viku síðan (27,21). Þannig að ég er mjög sátt og ánægð með hreyfinguna í  marsmánuði…. ekki síst að hafa náð að halda áætlun að mestu leyti þrátt fyrir leiðindaveður á köflum.

Varðandi önnur markmið, þá gengu ritgerðarskrif ekki alveg jafn hratt fyrir sig og í febrúar. Skrifaði ekki nema 3200 orð (samanborið við tæp 6000 orð í febrúar). Duttu út einhverjir skrifdagar og svo gekk misvel að einbeita sér. En ég er samt langt því frá að örvænta. Orðafjöldi er ekki allt og það fór talsverður tími í ritgerðina þó það væri ekki endilega bein skrif. Fékk t.d. og fór yfir athugasemdir frá leiðbeinanda, endurraðaði ákveðnum köflum og las og kynnti mér nýjar heimildir sem voru að koma út.

Framundan er apríl. Veit ekki hvað ég næ að skrifa í þeim mánuði. Ýmis önnur verkefni sem þurfa að hafa forgang, svo sem einkunnargjöf, þátttaka í ráðstefnu og smá aukakennsla í HÍ, en vonast samt til að ná nokkrum skrifdögum. Svo verður tekið á því í maí og júní 🙂

Hvað hlaupin varðar stefni ég á hálfmaraþon í vormaraþoni laugardaginn 25. apríl. Þetta verður ákveðið stöðutékk áður en ég helli mér út í maraþonþjálfunina í sumar.

Fyrir fimm árum síðan, þegar ég var fertug í Kanada, nýbyrjuð í doktorsnáminu og í afleitu líkamlegu formi, ákvað ég að ég ætlaði að koma mér aftur í hlaupaform og setti mér það markmið að bæta þolið jafnt og þétt meðfram náminu þannig að ég yrði tilbúin til að hlaupa maraþan um það leyti sem að ég kláraði doktorsritgerðina. Ég miðaði við 45 ára afmælið mitt þann 22. ágúst. Og nú er sá tími að koma og mér finnst ég vera tilbúin í lokaátökin… bæði hvað varðar skrifin og að auka vegalengdirnar í hlaupunum. Þetta verða krefjandi og skemmtilegir mánuðir framundan.

YouCanDoIt

Birt í Doktorsrannsókn, Hlaup, Markmið | Færðu inn athugasemd

Síðasti Flandrasprettur vetrarins

Síðasti Flandrasprettur vetrarins var á fimmtudag. Ég bætti tímann minn um 1,10 mín og hljóp á 27,33 mín. Skemmtilegt hlaup og ég var mjög sátt við tímann og hvernig mér leið í sjálfu hlaupinu.

Flandrasprettur_Mars2015

Ég fór á námskeið í núvitund þennan sama dag, fyrir hlaupið, og gat nýtt mér það sem við ræddum þegar ég var að hlaupa. Að beina athyglina að augnablikinu, njóta þess að finna hvernig ég var að taka á öllum vöðvum, að finna regnúðann í andlitinu og að finna gleðitilfinningu innra með mér. Gleyma öllu öðru.

Ég hljóp á frekar jöfnum hraða, var 10,48 mín fyrstu tvo kílómetrana (5,24 pace) og meðalhraðinn í heild var 5,28. Þetta er hraði sem ég lét mig ekki einu sinni dreyma um fyrir ekki svo löngu síðan. Gaman að líta til baka og minna mig á hvaðan ég er að koma. Í mars 2013 hljóp ég síðasta Flandrasprettinn á 33,59 mín, í mars 2014 var tíminn 32,16 og núna 27,33. Í fyrra tók ég hröðum framförum sem tengdist ekki aðeins æfingum heldur ekki síður því að ég léttist mikið (15 kg á sex mánuðum). En framfarirnar núna síðustu mánuði felast fyrst og fremst í góðum æfingum. Hef lést örlítið í viðbót (2 kg frá áramótum), hef hlaupið heldur meira en á sama tíma í fyrra, en stærsta breytingin er sennilega sú að ég hef tekið styrktaræfingar fastari tökum.

Nú eru að verða fjögur ár síðan ég ákvað að gera hlaupin að lífsstíl. Með hverju árinu festa þau sig fastar í sessi í mínu daglega lífi og ég er farin að tengja við þá hugmynd að ég sé hlaupari. Er augljóslega ekki sú hraðasta, en hef færst frá því að vera yfirleitt sú hægasta í þeim hópum sem ég hleyp í, yfir að vera á svona miðlungshraða. Þó hraði sé ekki endilega eitthvað aðalmarkmið, þá er samt gaman að geta náð að fylgja öðrum, þó ekki sé nema vegna félagsskaparins. Það dregur líka úr stressi fyrir tímatökuhlaup að hafa ekki endalaust áhyggjur af því að vera langsíðust í mark. Ég var reyndar orðin ansi góð í að peppa mig upp og minna mig á að einhver þyrfti að vera síðastur og það væri bara allt í lagi ef það væri ég. Lét það ekki stoppa mig. En samt gott að vera „útskrifuð“ frá þeim stað…. a.m.k. í bili.

Eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hversu ástríðan fyrir hlaupunum hefur haldist og mér finnst þetta alltaf jafn gaman. Hef ekki enn fengið leið á því að fara út að hlaupa. Þvert á móti þá finnst mér það sífellt meira gaman. Veit ekkert hvað það endist lengi. Kannski í eitt ár í viðbót, kannski næstu tíu árin, kannski þar til ég dey. Það skiptir svo sem ekki máli. Veit bara að núna hentar þessi lífsstíll mér vel, hreyfingin færir mér vellíðan og allt stússið, félagsskapurinn, viðburðirnir, það að vinna að ákveðnum markmiðum….allt gerið þetta lífið skemmtilegra. Þannig að ég er óendanlega þakklát fyrir hlaupin og það sem þau hafa gefið mér.

Birt í Hlaup, Hreyfing, Keppni | Færðu inn athugasemd