Utanvegahlaup og 10 daga hreinsun

Það er kannski ekki það skynsamlegasta í heimi að taka þátt í krefjandi utanvegahlaupi þegar maður er í miðju kafi í 10 daga hreinsun. En það gerði ég nú samt í dag og skemmti mér vel. Ég sló samt engin tímamet, nema síður sé, og afrekaði meira að segja að koma síðust í mark. Var um 20 mínútum lengur með síðari hlutann en þann fyrri og spilaði þar stærsta hlutverkið mikið magnleysi sem kom yfir mig strax eftir 7-8 km af hlaupinu sem hægði verulega á mér. Sennilega hefur tilraunastarfsemin í matarmálum haft sitt að segja og ég vissi svo sem fyrirfram að þetta gæti farið á hvorn vegin sem er. En einmitt þess vegna var þetta hlaup, og ferlið í kring um það, óvenjulærdómsríkt og því tilvalið að blogga svolítið um það.

Hlaupið sem um ræðir var Hvítasunnuhlaup Hauka og fór ég lengri leiðina, 17,5 km. Það er best að byrja að segja frá því að þetta er alveg frábært hlaup, vel að öllu staðið og geggjuð hlaupaleið. Ætla svo sannarlega að fara aftur í þetta hlaup að ári.

Hlaup, námskeið eða bæði?

Það er langt síðan ég skráði mig í þetta hlaup, sennilega 2-3 mánuðir. Það var svo bara um miðjan apríl sem mér datt allt í einu í hug að skrá mig í námskeið með yfirskriftinni „10 daga hreint matarræði“. Var að koma út úr streitutímabili í vinnunni og vantaði smá spark í rassinn og koma matarræðinu aftur í góðan farveg. Og fannst einhvernvegin að líkamanum veitti ekki af smá hreinsun. Tímasetningin var fullkomin, einmitt þegar ég átti von á að mesta vinnustressið yrði liðið hjá, en það sem setti strik í reikninginn var þetta hlaup. Fyrst var ég að hugsa um að sleppa námskeiðinu til að komast í hlaupið, svo velti ég fyrir mér að sleppa hlaupinu til að geta einbeitt mér að námskeiðinu, en ákvað á endanum að gera bæði en nálgast hlaupið sem smá tilraun. Athuga hvernig mér myndi ganga að hlaupa eftir að hafa verið á Vegan matarræði (-sykur, glúten og koffein) í rúma viku. Veit að eru mörg dæmi um hlaupara út í heimi sem ná fínum árangri á vegan matarræði og mér fannst forvitnilegt að prófa. Það spilaði líka inn í að hlaupið var á degi 9, þannig að ég var að vonast til að mesta þreytan hefði liðið hjá og líkaminn væri farinn að venjast breytingunni.

Námskeiðið byrjaði sunnudaginn 8. maí og fyrstu 3 dagana var yfir mér óskaplegt slen og ég bara svaf og svaf. Spennufall í kjölfar verkefnaskila, langtímaþreyta og svo þessi skyndilega og frekar róttæka breyting á matarræði (þar með talið að taka kaffi út) höfðu þessi áhrif. En það var líka greinilegt að það var einhver hreinsun í gangi. Á miðvikudagsmorgni vaknaði ég, meltingin (bæði ristill og nýru) eins og þau væru ofvirk, og var eins og losnaði um einhverja stíflu. Í kjölfarið leið mér miklu betur, gat auðveldlega náð góðum fókus í vinnunni og þurfti ekki lengur að leggja mig 1-2 sinnum á dag. Ég var hinsvegar fljót að finna fyrir máttleysi þegar ég fór út að hlaupa.

Ég hafði tekið síðustu löngu æfingahlaupin vikuna áður en 10 daga námskeiðið byrjaði. Fyrstu 2 dagana í námskeiðinu fór ég í róleg stutt hlaup og átti svo sem ekki von á öðru en að ég yrði frekar kraftlaus. Á fimmtudegi fór ég svo og hljóp 8 km, og var fín fyrstu 4 kílómetrana en varð svo þreytt um mitt hlaup og hægði á mér. Það sama gerðist tveimur dögum síðar, á laugardegi, þegar ég fór líka 8 kílómetra. Þá reyndar leið mér þannig eftir hlaupið að ég var alveg viðþolslaus af hungri (fannst ég samt búin að borða nægjanlega dagana á undan, en auðvitað færri kaloríkur miðað við magn í svona mat þannig að það getur verið blekkjandi) og eins fór ég að fá svimaköst þegar ég stóð snöggt upp. Þannig að ég ákvað að bæta inn smá dýrapróteini og sauð mér tvö harðsoðin egg, annað sem ég borðaði seinni partinn á laugardag og hitt í hádeginu á sunnudag. Á sunnudagskvöldið fékk ég mér líka grillaðan lax og vel útilátið af hrísgrjónum + grænmeti. Ég hressist heilmikið við að bæta smá próetini inn og á mánudagsmorgun leið mér bara mjög vel og var til í slaginn. Hafði útbúið mér nesti sem var sex döðlur til að fá mér á meðan á hlaupinu stóð (í staðinn fyrir hlaupagel), hristing úr möndlumjólk og banana + eitt harðsoðið egg til að borða strax eftir hlaup. Var svo búin að semja við hlaupafélagana úr Borgarnesi að við myndum stoppa á Gló í hádegismat eftir hlaupið.

File 16.5.2016, 18 44 50

Nestið sem ég tók með mér: Döðlurnar til að borða á leiðinni og egg og hristingur úr möndlumjólk og banana strax eftir hlaup.

Hlaupið sjálft

Veðrið var frábært og mikil stemmning þannig að það var létt yfir mér þegar við fórum af stað. Fyrstu 2-3 kílómetrarnir gengu eins og í sögu og þegar við komum upp á hæðina þar sem Hvaleyrarvatn blasti við fannst mér ég vera á toppi tilverunnar. Kílómetrar 3-5 voru farnir í sæluvímu en strax upp úr því fór ég að finna fyrir því að ég gat ekki farið á sama hraða og ég vön. Var samt í ágætu standi svona  þar til ég var komin upp topp á Stórhöfða og kláraði fyrri helming hlaupsins á ca klukkutíma og tíu mínútum. En svo bara hægðist og hægðist á mér og það fór að vera erfiðara og erfiðara að byrja að hlaupa aftur eftir göngukafla upp brekkur. Ég var ekki þreytt í fótunum og púlsinn var ekkert hræðilega hár…. ég var bara einhvernvegin gjörsamlega máttlaus. Ákvað bara að puða áfram og pæla lítið í tíma. Var samt allan tíman í ágætu skapi og fannst gaman þrátt fyrir máttleysið. Ég var líka exta varkár að fara ekki hratt yfir þar sem var ójafnt undirlag þar sem ég hafði tognað á hægri hendi 12 dögum áður (datt þegar ég var að hlaupa) og hafði ekki enn jafnað mig að fullu á þeim meiðslum. Ætlaði því alls ekki að detta á hendina. Þetta var smá áskorun þegar leið á hlaupið því þegar þreytan gerir vart við sig aukast líkurnar á að maður reki sig í stein. Gerðist reyndar nokkrum sinnum hjá mér, en af því að ég fór svo hægt yfir missti ég ekki jafnvægið við það.

Þegar ég átti eftir um hálfan kílómetra í mark gerðist það í fyrsta sinn í hlaupinu að brautarvörslu var ábótavatn, ég kom að gatnamótum og var útilokað að sjá af merkingum í hvora áttina ætti að fara. Ég fór til hægri en sá svo að einn hlaupari var á eftir mér sem fór beint áfram. Þannig að ég sneri við og komst eftir einhverjum krókaleiðum aftur inn á rétta braut. Þessi krókur þýddi um auka 300 metra og gerði það að verkum að ég var síðust í stað þess að vera næstsíðust í mark. En það var allt í lagi. Einhver þarf að taka að sér að vera síðastur og í dag var það ég sem tók það hlutverk að mér. Ég var 20 mínútum lengur með seinni hluta hlaupsins en þann fyrri og kom í mark á 2.39,55 (átti von á að klára á ca 2 klst 20 mínútum).

File 16.5.2016, 18 45 17

Flottur verðlaunapeningur og mér fannst ég hafa unnið fyrir honum því ég hef sjaldan puðað jafnmikið í hlaupi þrátt fyrir að hafa sjaldan farið jafn hægt yfir!

Eftir hlaup

Þrátt fyrir þetta gríðarlega mikla máttleysi var ég fín strax að hlaupi loknu, um leið og ég var búin að sporðrenna egginu og möndlumjólkurbananahristingnum. Leið bara ágætlega og var í raun ekkert sérstaklega þreytt. Rúsínan í pylsuendanum var svo að ég vann þessa fínu Asics hlaupaskó í útdráttarverðlaun.

Þegar upp var staðið var þetta skemmtilegt, en jafnframt lærdómsríkt hlaup. Á næsta ári ætla ég aftur og bæta tímann minn alveg helling 😉

File 16.5.2016, 18 45 41

Með hlaupafélögunum úr Flandra í Borgarnesi.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s