Þessar hugleiðingar eru fyrst og fremst pepp fyrir sjálfa mig. Hef verið í smá ströggli undanfarið. Ekki alveg viss hvað það er…. einhver blanda af streitu vegna óvissu um það sem er framundan og svo hugsanlega hormónasveiflur. Aldurinn kannski að stríða mér!
Ég hef verið í góðum takti varðandi hreyfingu, hlaupið 3-4 sinnum í viku frá áramótum og styrktaræfingar tvisvar í viku. Gönguferðir inn á milli. Matarmálin hafa líka verið í ágætu lagi. En ég hef sofið órólega og af og til hellist yfir mig depurð og leiði sem á sér ekki endilega augljósar skýringar. Í gær tók ég þátt í 5 km Flandraspretti og man ekki eftir að hafa verið í jafnmiklu óstuði í hlaupi síðan í 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoni 2012 (þá var ástæðan að of stutt var liðið frá Jökulsárhlaupi og ég var bæði líkamlega þreytt og ekki með fókusinn í lagi).
En aftur að hlaupinu í gær….. eins og fyrr segir er ég búin að vera í góðum takti undanfarið varðandi hlaupin og fundist eins og þolið væri aftur að aukast. Ég var nokkuð viss um að ég ætti auðveldlega að geta verið fljótari en í Flandraspretti fyrir mánuði síðan (var þá 30,24 mín) og ætlaði helst að vera undir 28,43 (sem var tíminn minn í Flandraspretti í febrúar í fyrra). Þegar ég sá fram á að færið yrði ekkert sérstakt endurskoðaði ég það markmið og ákvað að stefna á innan við þrjátíu mínútur. Var ágætlega stemmd þegar ég vaknaði á fimmtudagsmorgun en einhverntíman upp úr hádegi var eins og grá þoka leggðist yfir mig og ég varð andlega þung og leið. Það var eiginlega alveg á mörkunum að ég hefði orku í að drattast af stað og mæta í hlaupið og fór meira af samviskusemi þar sem ég var búin að segjast ætla að hlaupa við of marga til að ég nennti að útskýra það að ég hefði hætt við án nokkurrar ástæðu nema ég var ekki í stuði. Svo ég mætti á staðinn, hljóp með hálfum huga og leiddist eiginlega alla leiðina. Ég var ekki beint þreytt…. bara rosalega þung á mér og eins og engin lífsorka innra með mér til að keyra mig áfram. Tíminn var 32 mínútur og ég var heilar sjö mínútur með síðasta kílómetrann….. það er hægari meðalhraði en í maraþoninu í sumar! Tíminn skiptir svo sem engu máli…. meira birtingarmynd á hvernig mér leið. En ég þarf einhvernvegin að finna leið til að ná aftur í lífskraftinn og gleðina innra með mér. Veit þetta er þarna einhversstaðar….. bara aðeins að fela sig fyrir mér í augnablikinu.
Þannig að sem skref í þá átt datt mér í hug að einbeita mér að þakklæti í dag…. þakklæti yfir öllu því sem gengur vel í lífinu. Þrátt fyrir þetta tímabundna bakslag er ég heilsuhraust og hef sennilega sjaldan verið í jafngóðu líkamlegu formi. Ég er í vinnu sem ég hef gaman af, er krefjandi en veitir mér jafnframt þann sveigjanleika og frelsi sem ég þarf svo mikið á að halda. Á síðasta ári náði ég langþráðu markmiði og kláraði drög að doktorsritgerðinni minni. Ég er farin að sjá til lands í að ljúka því ferli. Reyndar er biðin eftir viðbrögðum frá prófdómurum sennilega ein ástæða streitunnar sem er að krafsa í mig þessa dagana, en í stað þess að hafa áhyggjur af því hvenær þau koma og hvernig þau verða ætla ég að muna að vera þakklát fyrir að vera þó komin þetta langt. Og í stað þess að kvíða því hvað tekur við þegar því ferli lýkur langar mig að njóta þess að hugsa um öll þau tækifæri sem bíða í framtíðinni. Ég þarf ekkert að ákveða strax hver næstu skref verða….. get bara leyft mér að velta upp alls konar möguleikum. Finn að það er ekki tímabært að taka neinar ákvarðanir…. en að sama skapi er einhver óþreyja í mér…. því ég veit að framundan eru einhverskonar skil… einhver nýr kafli sem mun hefjast. En það er kannski bara allt í lagi að lifa með smá óvissu um stund.
Svo er það vorið og sumarið….. hvað sem vinnumálum líður þá eru bjartari tímar framundan. Mér líður alltaf betur á vorin, þegar sól fer að hækka á lofti og hlýna fer í veðri. Ég hlakka til að hlaupa á auðri jörð og geta varið meiri tíma á hlaupum og á göngu út í náttúrunni. Er með alls konar plön fyrir sumarið og finn tilhlökkun innra með mér þegar ég sé fyrir mér utanvegahlaup og þátttöku í alls kyns skemmtilegum viðburðum. Lífið er allt of dýrmætt til að eyða tíma í sjálfsvorkunn og leiðindi.
Viss um að næst þegar ég skrifa verði ég aftur orðin kát og glöð og bjartsýn….. þangað til tek ég bara lífinu eins og það kemur til mín…. skref fyrir skref. „This too shall pass“.