Árið 2016 verður ár utanvegahlaupanna. Stefni að því að taka þátt í Jökulsárhlaupinu þann 6. ágúst og fara lengstu vegalengdina (Dettifoss – Ásbyrgi, 32,7 km). Svo þarf það aðeins að ráðast af öðru sem er á dagskrá hvaða önnur hlaup ég fer í. Mig langar í Snæfellsjökulshlaupið og kannski Fjögurra skóga hlaupið, Vesturgötuna, Esjuhlaupið eða Tindahlaupið í Mosó.
Ég lít á fyrstu mánuði ársins sem tímabil þar sem grunnur er lagður að hlaupaformi sumarsins. Þannig að í janúar, febrúar og mars ætla ég að einbeita mér að því að koma mér í góða rútínu bæði í hlaupum, styrktaræfingum og matarræði. Koma sterk til leiks í apríl og maí þegar fer að vora. Tek örugglega þátt í einhverjum 5 km og 10 km hlaupum og langar að vinna í því að auka hraðann. Svo aldrei að vita nema ég skelli mér í 1-2 hálfmaraþon á árinu en hugsa að ég láti maraþon eiga sig þetta árið.
Lífið snýst um meira en hlaup, þó þessi bloggsíðan beini sjónum helst að þeim þætti tilverunnar, og markmið ársins snúa líka að vinnu og einkalífi. Af vinnutengdum markmiðum ber hæst að á árinu 2016 ætla ég mér að verja doktorsritgerðina mína. Þar með mun ljúka nokkuð löngu ferðalagi og ég hlakka til að reka endahnútinn á það ferðalag og skapa um leið rými fyrir eitthvað nýtt. Í einkalífinu hef ég líka markmið en þau eru ekki þess eðlis að ég hafi þörf eða löngun til að deila þeim hér. Geymi þau í hjartanu og ræði við þá sem málið er skylt.
Spennandi ár framundan, verður gaman að fylgjast með þér á árinu, þú kemur vonandi í Fjögurra skóga hlaupið með mér.