Hlaupaárið 2015 – Uppgjör

Það er ekki hægt að segja annað en að árið 2015 hafi verið farsælt hlaupaár. Ég náði langþráðu markmiðið, sem var að klára fyrsta maraþonið, og átti óteljandi góðar stundir tengdar hlaupunum, bæði ein og með góðum félögum. Samtals hljóp ég rúmlega 1700 km á árinu og bætti tímann minn í öllum þeim vegalengdum sem ég átti fyrri tíma til að miða við.

Ég tók samtals þátt í 16 keppnishlaupum: átta 5 km hlaupum, einu 7 km hlaupi, þremur 10 km hlaupum, tveimur hálfmaraþonum, einu maraþoni og einu utanvegahlaupi með tímatöku (17,6 km í Fjögurra skóga hlaupinu).

Ég bætti 5 km tímann minn um 2,18 mínútur (úr 29,39 í 27,21), 10 km tímann um 2,41 mínútur (úr 58,23 í 55,42) og hálfmaraþontímann minn bætti ég um tæpar sex mínútur (5,58), eða úr 2.15,06 í 2.09,08.

road to horizon

An image of a road to the horizon with text 2015

Maraþonið var eftirminnanlegasta hlaupið enda stærsta markmiðið. Þar var aðalmarkmiðið að ná að klára og líða sæmilega alla leið. Það tókst. Auðvitað var ég með einhver tímamarkmið bak við eyrað. Ég var nokkuð viss um að ná að klára undir fimm tímum, en fannst líklegast að ef allt gengi upp yrði ég einhversstaðar á bilinu 4.30,00 til 4.50,00. Það gekk eftir, því það tók mig 4.49,17 að klára; eða heldur nær efri mörkum þess sem ég hafði ætlað mér, en þó innan þeirra. Held ég eigi alveg eitthvað inni ef ég ákveð að hlaupa annað maraþon síðar, en í þetta skipti var aðaláherslan að komast heil í mark.

Önnur hlaup sem standa upp úr er m.a. Skógarhlaupið í lok júlí þar sem ég fór 17,6 km. Var skemmtileg leið og ég virkilega naut þess að hlaupa það hlaup. Icelandair hlaupið í maí (7 km) var líka eftirminnanlegt. Við fórum saman hópur úr Flandra og ég náði að bæta tímann minn um rúmar 10 mínútur frá því tveimur árum áður, sem var skemmtilegt (hljóp ekkert 7 km hlaup árið 2014).

En það voru ekki bara sjálf keppnishlaupin sem voru eftirminnanleg. Háfslækjarhringur á uppstigningardag, Flatnavegurinn og sum löngu hlaupin í sumar lífguðu upp á hlaupaárið. Sérstaklega man ég 30 km æfingahlaup þar sem ég hljóp Eyjafjarðahring (Hrafnagil – Laugaland – Leirubrú – Hrafnagil). Heiða vinkona kom á móti mér og hljóp með síðasta spölinn og pabbi og mamma biðu á Hrafnagili og við fórum öll saman í sund og svo í hádegismat á Silvu. Það var skemmtilegur dagur.

Ég gæti haldið áfram upptalningunni…. hlaupin bæta ekki bara heilsu og þrek heldur skapa svo margar góðar minningar. Langar að nefna eitt í lokin, sem kom skemmtilega á óvart. Í lok ársins, í október og nóvember, tók ég upp á því að mæta klukkan sex á morgnanna í styrktarþjálfun með tveimur hlaupavinkonum. Ef einhver hefði sagt mér fyrir nokkrum árum að ég myndi rífa mig upp í svartasta skammdeginu fyrir klukkan sex til að fara að lyfta lóðum hefði ég hlegið að vitleysinni…. en svo prófaði ég og finnst það alveg frábært. Hentar mér mun betur en t.d. jóga snemma á morgnanna (sem ég prófaði fyrr á árinu). Ég glaðvakna og er súper orkumikil þessa daga sem ég byrja með styrktarþjálfun. Vellíðanin sem fylgir áreynslunni er aðeins öðru vísi en eftir hlaup, léttur bruni í vöðvunum, fremur en þægileg þreyta, og það kom mér skemmtilega á óvart hvað æfingar eldsnemma á morgnanna áttu vel við mig. Mun klárlega halda þessu áfram á nýju ári. Annars eru markmið næsta árs efni í annan pistil sem fæðist vonandi fljótlega.

 

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Hreyfing, Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s