Eitt af því sem fylgir að ná markmiðum sem hefur verið stefnt að lengi er að gleðinni fylgir ákveðin tómleikatilfinning. Það kom því ekki á óvart að þegar ég vaknaði daginn eftir maraþonið upplifði ég ákveðina depurð. Sú tilfinning stóð sem betur fer ekki lengi yfir, en fókusinn í æfingum var hins vegar ekki mikill í september. Það var allt í lagi. Ég var búin að ákveða fyrirfram að taka því rólega vikurnar eftir maraþonið. Fór samt reglulega út að hlaupa en hvorki jafnlangt og áður né var ég að reyna að slá nein hraðamet. Heildafjöldi kílómetra í september var um 100 miðað við að ég hafði verið að hlaupa ca 200 km í hverjum mánuði um vorið og sumarið. September var samt góður mánuður. Ég tók síðbúið sumarfrí og fór í tvær stuttar en skemmtilegar ferðir til útlanda. Þetta gerði það að verkum að tómleikatilfinningin leið fljótt hjá, því það voru aðrir hlutir til að hlakka til þó þeir tengdust ekki hreyfingu.
Í októberbyrjun fann ég hins vegar að ég var tilbúin að fara aftur í almennilega rútínu með hreyfingu og matarræði. Mér líður svo miklu betur þegar þessi mál eru í lagi. Ég er ekki búin að setja mér nein stór markmið varðandi hvað kemur næst, eftir maraþonið. Það kemur með nýju ári. En ég er komin með „millimarkmið“. Í október og nóvember ætla ég að vera sem mest í rútínu. Það verður mikið að gera í vinnunni en ég verð hins vegar að mestu á sama stað og lítið á ferðinni nema á milli heimilis og vinnu.
Ég geri ráð fyrir að halda áfram að hlaupa 3x í viku með hlaupahópnum Flandra. Ég ætla að taka þátt í hálfmaraþoni eftir tvær vikur en annars nota ég styttri hlaup eins og Flandrasprettina til að halda mér við efnið. Kannski skelli ég mér líka í eitt og eitt Powerade hlaup í Reykjavík ef það hentar tímalega séð. Stóra breytingin er að ég ætla að leggja sérstaka áherslu á styrktaræfingar í október, nóvember og janúar (verð að ferðast mestallan desember og mun því taka hlé þá). Ég mæti núna tvisvar sinnum í viku klukkan sex að morgni í Íþróttamiðstöð Borgarness þar sem við erum þrjár saman úr hlaupahópnum með þjálfara sem passar vel upp á að við tökum hressilega á því. Nú er ég búin að mæta í þrjú skipti og það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvað ég reyni miklu meira á mig þegar ég vinn með þjálfara en ef ég hef farið ein. Hef fengið strengi eftir öll skiptin í mismunandi vöðva. En annað sem ég hef tekið eftir líka: Þessi skipti sem ég hef byrjað daginn á styrktaræfingum hefur mér liðið alveg óvenju vel allan daginn. Ég hef ekki beinlínið fundið mikið fyrir því að ég var að taka á um morguninn, en það er samt einhver vellíðunartilfinning í líkamanum sem hefur fylgt mér alveg fram á kvöld. Aðeins öðruvísi vellíðunartilfinning en eftir hlaup, en ekki síður góð. Gæti orðið háð þessu 😉
Allavega… þó að maraþonið sé búið er ég hvergi nærri hætt að hreyfa mig. Þvert á móti: Ég er bara rétt að byrja!