Fyrsta maraþonið

Frásögn af aðdraganda, undirbúningi og upplifun:

Forsagan

Ég man ekki alveg hvenær ég fékk fyrst þá flugu í höfuðið að mig langaði til að hlaupa maraþon einhverntíman á lífsleiðinni en hugmyndin fór að skjóta dýpri rótum fyrir um fimm árum síðan. Á þeim tíma var ég í afleitu líkamlegu formi og hugmyndin því frekar langsótt. En hún lét mig samt ekki í friði. Og einhvernvegin æxlaðist það þannig að ég fór að taka ýmis skref sem miðuðu að þessu markmiði jafn og þétt næstu árin á eftir.

Sumarið 2011 tók ég þátt í 10 km í Reykjavíkurmaraþoni, sumarið 2012 hljóp ég 13,2 km vegalengd í Jökulsárhlaupi og sumarið 2013 lauk ég mínu fyrsta hálfmaraþoni. Hver áfangi var mikilvægur persónulegur sigur og þetta voru áskoranir sem ég hafði mjög gaman af að glíma við. Draumurinn um maraþonið var aldrei langt undan, en ég fann þegar ég var að æfa fyrir hálfmaraþonið árið 2013 að ég var komin nokkuð nálægt þeim mörkum sem líkaminn þoldi á þeim tíma. Þó ég hefði lést um 4-5 kíló eftir að ég byrjaði að hlaupa þá var ég samt talsvert yfir kjörþyngd og ég komst að þeirri niðurstöðu að ef ég ætlaði mér að lengja vegalengdir verulega þyrfti ég fyrst að létta mig umtalsvert. Annars væri hættan á álagsmeiðslum of mikil.

Þannig að árið 2014 var áherslan á einmitt það. Ég léttist um 15 kg fyrri hluta árs og tók síðan þátt í þremur hálfmaraþonhlaupum seinni hluta ársins (í júní, ágúst og október). Fyrri hluta árs 2015 létti ég mig svo um önnur þrjú kíló í viðbót og var þá orðin 25 kílóum léttari en árið 2010, þegar hugmyndin um maraþonhlaup fór að láta á sér kræla fyrir alvöru.

Fyrir ári síðan tók ég síðan þá ákvörðun að nú væri komið að því: Fyrsta maraþonið yrði farið á afmælisdaginn minn 22. ágúst 2015. Ég var dugleg að segja hverjum sem vildi heyra frá þessu markmiði og hagaði öllum æfingum strax frá janúar á þessu ári með það í huga að ég yrði komin í form til að hlaupa maraþon síðsumars.

Undirbúningur

Fyrstu tvo mánuði ársins hljóp ég þrisvar sinnum í viku með Flandra, svipaðar vegalengdir og ég hafði verið að gera mánuðina á undan (ca 25-30 km á viku) en lagði meiri áherslu en áður á styrktaræfingar. Ég fór svo að smá auka vegalengdir með það að markmiði að hlaupa hálfmaraþon í lok apríl. Sleppti því hlaupi reyndar vegna flensu en þegar ég hafði jafnað mig eftir veikindin var kominn maí og æfingar fyrir sjálft maraþonið byrjuðu af meiri alvöru. Ég fjölgaði hlaupaæfingum upp í 4-5 sinnum í viku og helgarhlaupin fór að lengjast. Í júní og júlí tók ég nokkur hlaup sem voru 30 km eða lengri og ég var hlaupa um 200 kílómetra á mánuði í maí, júní og júlí með blöndu af hraðaæfingum, tempóhlaupum og rólegri hlaupum.

Þegar nær dró hlaupinu voru alls konar hlutir sem þurfti að pæla í sem skipta minna máli fyrir styttri vegalengdir. Það vafðist talsvert fyrir mér hvað væri best að borða fyrir og eftir löngu hlaupin og hvernig væri best að nærast dagana fyrir sjálft maraþonið. Næring í sjálfu hlaupinu (gel og vökvainntaka) var líka eitthvað sem þurfti að skipuleggja sem og að ná góðri hvíld dagana fyrir hlaupið. Ég lá yfir greinum, íslenskum og enskum, á netinu þar sem gefin voru góð ráð, ræddi við mér reyndara fólk, og reyndi að tileinka mér eitthvað af þeim fróðleik. Hvort sem það tókst eða ekki þá mætti ég allavega í hlaupið á laugardagsmorgni, vel úthvíld og vel stemmd til að takast á við verkefnið framundan.

Hlaupið

Ég mætti í hlaupið með Siggu Júllu, hlaupavinkonu úr Flandra. Hún var að fara hálft maraþon, sem byrjaði á sama tíma. Við marklínuna hittum við Jónínu, annan Flandrafélaga, og við þrjár spjölluðum saman þessar síðustu mínútur áður en hlaupið var ræst.

Ég var búin að ákveða, fyrir hlaupið, að byrja á 6,30 m/km hraða og sjá til hvernig mér gengi að halda þeim hraða. Vildi alls ekki fara hraðar því það myndi koma niður á mér síðar í hlaupinu. Sigga Júlla ákvað að byrja á þeim hraða líka þannig að við urðum samferða fyrstu 8 kílómetrana. Það var mjög skemmtilegt og gerði þessa fyrstu kílómetra frekar áreynslulausa og þægilega. Hraðinn var ekki meiri en svo að það var vel hægt að spjalla og tíminn leið hratt. Ég tók fyrsta gelið á drykkjarstöð eftir 8 km og stuttu eftir ákvað Sigga Júlla að hægja aðeins á sér þannig að ég hélt ein áfram.

Samkvæmt Garmin var ég 65,11 með fyrstu 10 km, eða á 6,31 m/km hraða. Mér leið eins og ég hefði getað farið mun hraðar þessa fyrstu kílómetra og þurfti stundum að minna sjálfa mig á að hægja á mér. Held samt að það hafi verið rétt ákvörðun að fara ekki hraðar, því strax í næsta kafla hlaupsins fór ósjálfrátt að hægjast á mér, þó mér finndst ég ekki orðin neitt sérstaklega þreytt, og ég var 1,40 mín lengur með næstu 10 kílómetra (66,51). Þegar ég fór yfir mottuna sem markaði tímann fyrir hálfmaraþon var tíminn kominn upp í 2.20,34.

Mér leið enn ágætlega á þessum tímapunkti og fannst sérstaklega gaman eftir 23 kílómetra að rekast á hann pabba minn, sitjandi á stól við stíginn, að fylgjast með hlaupurunum. Ég tók tíma til að knúsa hann sem var fín vítanmínsprauta. Leiðin lá inn í Elliðadal og svo Fossvoginn og í átt að Ægissíðu. Á þessum þriðja kafla hlaupsins, 20-30 km, var ég farin að finna meira fyrir þorsta og orkuleysi þannig að það var kærkomið að stoppa á drykkjarstöð eftir 25 km og 30 km og fá sér gel og vatn. Ég drakk yfirleitt 2 glös á hverri drykkjarstöð. Hraðinn var aðeins farinn að dala en á þessum 10 kílómetra kafla var ég samt enn á nokkuð jöfnum hraða, 6,50 m/km, og tíminn fyrir þennan legg var 68,20 mín.

Eftir 30 km fór ég að finna fyrir talsvert meiri þreytu, eins og ég hafði átt von á. Ef ég gætti ekki að mér var ég ósjálfrátt farin að hlaupa mun hægar…. stundum var hraðinn kominn niður í 7,30 m/km þegar ég leit á klukkuna og þá þurfti ég að beita mig hörðu til að hraða á mér aftur. Ég var farin að fá nóg af gelum, þannig að á drykkjarstöð við 34 km fékk ég mér í staðinn eitt glas af powerade en tók svo síðasta gelið á drykkjarstöð eftir 38 km. Samtals tók ég 7 gel, 1 fyrirhlaup og 6 á leiðinni.

Á þessum kafla var hraðinn sennilega hvað ójafnastur…. stoppaði örlítið lengur við drykkjarstöðvarnar…. var lengur að ná upp hraða aftur og hægði á mér af og til, en stoppaði þó aldrei til að ganga. Þó væri farið að hægjast á mér langaði mig samt aldrei að hætta og sennilega fór ég fram hjá fleiri hlaupurum á þessum legg en í köflunum á undan. Margir sem voru farnir að labba á þessum tímapunkti og einhverjir komnir út í kant að huga að blöðrum eða öðrum óþægindum. Ég var blessunarlega laus við allt slíkt og reyndi bara að gleyma þreytunni og njóta sem mest. Þessi hluti hlaupaleiðarinnar var m.a. út í Gróttu og mér fannst það skemmtilegasti hluti leiðarinnar. Meðalhraðinn á þessum kafla (30-40 km) var um 7,09 m/km.

Þegar ég var komin fram hjá 40 km keilunni varð hlaupið andlega léttara þó líkaminn væri þreyttur. Ég vissi að ég myndi klára og enn höfðu engin meiriháttar vandamál látið á sér kræla, hvorki blöðrur, meltingarvandamál né krampar. Bara svolítil þreyta, eins og við var að búast. Ég náði að hraða örlítið á mér þennan síðasta hluta og var á 7,06 m/km meðalhraða.

Það var góð tilfinning að beygja fyrir hornið á Lækjargötunni og sjá í mark en enn betra var að heyra nafnið mitt kallað þar sem ég hafði ekki átt von á neininum sem ég þekkti í marki. En þar voru þá samankomið frændfólk mitt, sem m.a. náði þessari fínu mynd sem birtist með þessum pistli, og einnig fólk úr Flandra. Hvatningarhrópin voru einmitt það sem ég þurfti á að halda til að gleyma þreytunni og hlaupa brosandi í mark.

RM_2015

Kát og glöð enda bara 200 metrar í mark. Mynd: Sigrún Kristjánsdóttir

Markmiðinu var náð. Ég kláraði maraþon, var í heilu lagi og fannst gaman alla leið. Lokatíminn var 4.49,17 sem var vel ástættanlegur tími miðað við væntingar fyrir hlaupið.

Stuðningsnet

Eitt af því sem ég hef lært í þessu ferli er hversu mikilvægt er að leita eftir stuðningi og vera opin fyrir að þiggja aðstoð þegar unnið er að stórum markmiðum. Þegar ég tók matarræðið í gegn árið 2013 leitaði ég ráðgjafar og stuðnings fagaðila og þegar ég byrjaði að æfa fyrir maraþonið fór í samstarf við þjálfara, hana Sonju Sif, sem sendi mér mánaðarlegar æfingaráætlanir og veitti bæði góð ráð og hvatningu. Ég hafði einnig mikinn stuðning af hlaupafélögum mínum í Borgarnesi (úr Hlaupahópnum Flandra). Það að vinna með þjálfara og hlaupa reglulega með hópi hjálpaði ekki aðeins til við að ná markmiðinu heldur gerði það ferðalagið miklu skemmtilegra. Mér hefur líka þótt gríðarlega vænt um stuðning og skilning frá vinum og vandamönnum á þessu brölti mínu. Í því samhengi verð ég sérstaklega að fá að nefna hana mömmu mína, Hrefnu Hjálmarsdóttir, sem hefur ekki aðeins sýnt þessu oft tímafreka áhugamáli mikla þolinmæði, heldur verið óþreytandi að hvetja mig til dáða. Takk, elsku mamma.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Hreyfing, Keppni. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s