Löngu hlaupin

Ég er að æfa fyrir fyrsta maraþonið mitt. Á síðustu tveimur árum hef ég fimm sinnum tekið þátt í hálfmaraþon hlaupum. Stærsti munurinn á að æfa fyrir maraþon í staðinn fyrir hálfmaraþon eru löngu hlaupin, sem verða ennþá lengri en í æfingum fyrir hálfmaraþon. Áður en ég byrjaði æfingar fyrir maraþonið hafði ég aldrei hlaupið lengra en 21,1 km en nú er ég búin að taka nokkur helgarhlaup sem eru lengri en 25 km. Mér finnst alltaf svolítið spennandi að fylgjast með líkamanum og sjá hvað gerist þegar ég lengi tímann sem ég er á hlaupum. Hversu vel þolir líkaminn aukið álag? Hversu lengi er hann að ná sér?

Til gamans ætla ég að gefa hér stutt yfirlit yfir löngu hlaupin í júní og júlí og hvernig ég hef upplifað þau:

13. júní – 28 km

Þetta var fyrsta hlaupið þar sem ég hljóp lengra en 25 km samfellt. Ég var á Akureyri og tók stóran Akureyrarhring, út í þorp, yfir Leirubrúnna, aðeins inn í fjörð og svo til baka í gegn um Kjarnaskóg. Fyrstu 20 km voru bara svona „venjulegir“ en ég virkilega fann fyrir síðustu 8 kílómetrunum. Leiðin var líka þannig að á þessum bút voru mestu brekkurnar, þannig að hlaupaleiðin var kannski ekki skynsamleg frá því sjónarmiði. Meðalhraðinn í þessu hlaupi var eitthvað circa 7,10 og það hægði verulega á mér síðustu 10 kílómetrana (var vel undir 7,00 m/km fram að því). Síðustu 2-3 kílómetrana fann ég fyrir spennu í mjöðmum og eins var mér illt í hálsi og hendi hægra megin (músarhendin). Leið samt allt í lagi eftir hlaupið og alls ekki eins og ég væri örmagna. Fór meira að segja 8 km liðkunarskokk næsta dag sem gekk ágætlega.

20. júní – 30 km

Klárlega besta og skemmtilegasta langa hlaupið fram að þessu. Ég undirbjó mig aðeins betur. Ákvað leiðina út frá því að hún væri auðveldari hvað brekkur varðar. Keyrði inn að Hrafnagili og byrjaði á því að hlaupa aðeins inn í fjörð og svo til baka upp brekkuna í átt að Laugalandi. Þetta var stærsta brekkann á þessari leið og gott að ljúka henni á fyrstu 6 kílómetrunum. Síðan hljóp ég í norðurátt út Eyjafjörðinn, yfir Leirubrú og til baka inn í fjörð þar til ég var komin aftur á Hrafnagil. Heiða vinkona hjólaði inn að Hrafnagili og kom hlaupandi á móti mér og var samferða síðustu 2-3 kílómetrana og „í marki“ voru pabbi og mamma sem voru mætt til að koma  með okkur í sund og hádegismat á eftir. Það var ekki síst þessi félagsskapur í lokin sem gerði þetta hlaup skemmtilegt, en líka hvað gekk vel og mér leið vel allan tímann. Ég prófaði í fyrsta sinn gel með koffíni og tók eitt gel áður en ég fór af stað og svo á 8 kílómetra fresti (samtals fjögur gel). Var með ca 1,2 lítra af vatni í hlaupabakpokanum mínum sem passaði ákkúrat fyrir þessa vegalend. Veðrið var frábært. Gat verið á bol en samt smá gola til að mér yrði ekki allt of heitt. Ég byrjaði frekar rólega og var á rétt innan við 7 m/km hraða en smá hraðaði svo á mér og síðustu 10 kílómetrana hljóp ég á 6,40 m/km. Meðalhraðinn var um 6,48 m/km. Þegar ég var að klára hlaupið leið mér eins og ég hefði vel getað hlaupið nokkra kílómetra í viðbót og haldið sama hraða.

4. júlí – 33 km

Lengsta hlaupið fram að þessu. Átti að vera 32 km samkvæmt plani, en mig langaði að hlaupa Hvanneyrarhringinn sem er örlítið lengri. Og fannst ómögulegt að loka þá ekki hringnum. Við fórum tvær saman þennan hring, ég og Ella hlaupavinkona úr Flandra sem einnig er að æfa fyrir fyrsta maraþonið sitt. Fyrsti hluti leiðarinnar er eftir þjóðvegi eitt en svo eftir 7 km er beygt upp að Ferjubakka og svo hlaupið áfram að gömlu brúnni yfir Hvítá og svo að Hvanneyri. Leiðin þar sem beygt er af þjóðveginum og þar til komið er að Hvanneyri var langskemmtilegasti hluti leiðarinnar. Þetta er um helmingur hringsins (frá 7-21 km) og að mestu á malarvegi. Þarna var ég í góðum gír og meðalhraðinn eftir fyrstu 20 kílómetrana var 6,40 m/km. Ella er heldur hraðari en ég þannig að hún hljóp hægar en hún er vön en ég örlítið hraðar.

Hvanneyrarhringur

Ég og Ella á miðri leið. Myndin er tekin rétt við brúna við Hvítá

Eftir rúmlega 20 kílómetra fór ég hinsvegar að finna fyrir talsverðri þreytu. Þarna vorum við aftur komnar út á malbikaðan veg þar sem var talsverð umferð og því ekki hægt að hlaupa lengur hlið við hlið. Ég hafði heldur enga orku lengur til að spjalla. Þannig að ég sagði Ellu að hlaupa bara áfram á sínum hraða en ég þyrfti að hægja aðeins á mér. Ég stoppaði samt aldrei og labbaði ekki neitt, en fór síðustu 13 km á ca 7,10 m/km. Meðalhraðinn á mér var í raun mjög svipaður og tveimur vikum fyrr, eða um 6,48 m/km en hlaupið í heild reyndist mér mun erfiðara og ég var þreytt bæði á eftir og næsta dag. Eftir 31 km hlaupum við í gegn um kríuvarp og þá hraðaði ég talsvert á mér þrátt fyrir að vera orðin dauðþreytt í löppunum. Magnað hvað sjálfbjargarviðleitnin er sterk þegar 5-6 kríur fljúga ógnandi í kring og gera sig líklegar til að gokka mann í hausinn 😉 En þetta var skemmtileg hlaup þó það væri þrælerfitt.

18 júlí – 32 km

Var aftur komin norður og nú ákvað ég að hlaupa hinn hlutann af Eyjafirði, eða frá Hrafnagili og inn í fjörð (í átt að Saurbæ og Melgerðismelum) og svo til baka. Hlaupið var sex dögum eftir að ég kom heim úr nokkurra daga bakpokagöngu og ég fann fljótt eftir að ég fór af stað að það var talsverð þreyta í líkamanum. Byrjaði við Hrafnagil, svo upp brekkuna í átt að Laugalandi en beygði svo til hægri inn í fjörð. Fór ca 15 km í þá átt og þá yfir brúna og til baka að Hrafnagili. Skemmtileg leið og fyrstu tvo tímana mætti ég varla bíl. En ég náði mér aldrei alveg á strik og var frekar þreytt í líkamanum alla leiðina. Meðalhraðinn var um 7,10 m/km.

Eyjafjörður

„Selfie“ á hlaupum…:-)

Ég stefni á eitt langt hlaup í viðbót um næstu helgi en svo fer ég væntanlega að hægja á mér og „hvíla“ fyrir stóra daginn sem verður þann 22. ágúst nk, sama dag og ég verð 45 ára.

Mér finnst ég læra heilan helling á hverju hlaupi og vona að þau nýtist mér þegar kemur að sjálfu maraþoninu.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Hreyfing. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s