Flatnavegur – Fyrsta heila fjallvegahlaupið mitt

Síðasta laugardag gerði ég tilraun tvö til að hlaupa og klára svokallað fjallvegahlaup. Fyrsta tilraun var fyrir ári síðan þegar ég var í hópi sem gerði atlögu að Leggjabrjóti en varð að snúa við vegna veðurs. Hægt er að lesa um það ævintýri á bloggsíðu Stefáns Gíslason (sjá hér). Að þessu sinni var verkefnið leið sem kallast Flatnavegur, sem liggur þvert yfir Snæfellsnesið, frá Rauðamelsölkeldu og endar á bænum Setbergi. Sem betur tókst okkur öllum sem vorum með í för að ljúka hlaupinu að þessu sinni, enda veður og aðstæður með besta móti. Upphafsmaðurinn að báðum þessum hlaupum er fyrrnefndur Stefán, Flandrari, hlaupafélagi og góður vinur.

Þeir sem hafa áhuga af þessum tegundum hlaupa geta fengið góðar og ítarlegar upplýsingar á sérstakri síðu þar sem Stefán deilir upplýsingum um fjallvegaverkefnið sitt. Þessi bloggfærsla lýsir hins vegar einungis minni persónulegu upplifun af þessu hlaupi, sem mér fannst erfitt en jafnframt sérlega skemmtilegt. Myndirnar sem birtast með pistlinum hnuplaði ég frá Stefáni á Facebook síðu fjallvegaverkefnisins og vona að hann fyrirgefi mér það.

Ég hef oft farið í gönguferðir um landslag svipað því sem við fórum um á laugardag en það eru ákveðnir hlutir sem ég er búin að uppgötva að eru talsvert frábrugðnir þegar markmiðið er að hlaupa frekar en ganga. Í fyrsta lagi er útbúnaðurinn annars konar. Í stað þess að ferðast um í sterkum, vatnsheldum gönguskóm eru strigaskór staðalbúnaður. Þeir eru léttari en maður kemst fljótt að því að það er til lítils að reyna að halda sér þurrum. Skórnir blotna við minnstu vætu og því alveg eins gott að ösla bara beint yfir ár, læki og mýrar án þess að hafa af því nokkrar áhyggjur þó fætur verði votir. Brooks Cascadia utanvegaskórnir mínur reyndur ljómandi vel í þessum aðstæðum. Fljótir að blotna en líka fljótir að þorna aftur.

Í öðru lagi er minna svigrúm til að taka með sér aukaföt og því eins gott að vanda valið vel þegar maður klæðir sig. Ekki gott að verða kalt, en ekki heldur þægilegt að þurfa að dragnast með aukaklæðnað ef manni verður of heitt.Ég var klædd í síðar hlaupabuxur, í compression legghlífum innanundir, síðri hlaupapeysu og léttum hlaupajakka. Hafði hárband sem virkaði bæði sem svitaband og hægt var að setja yfir eyru til að verja gegn vindi. Í bakpokanum var ég svo með húfu, hálskraga og vettlinga en þurfti ekki á þessum útbúnaði að halda. Fannst samt gott að vita af þessum aukaklæðnaði.

Í þriðja lagi er farið hraðar yfir í fjallahlaupum en göngutúrum, oft dreifist meira úr hópnum, og því meiri líkur á að maður endi ein á ferð, þrátt fyrir að vera hluti af hópi. Í fjórða lagi er minna um pásur, þar með talið nestispásur, og því næring á leiðinni aðallega í formi vatnsdrykkju og hlaupagels sem tekið er inn á ferð.

Með allt þetta í huga þá var ekki laust með að ég væri með pínulítið í maganum áður en hlaupið hófst. Ég er ekkert sérlega ratvís og hafði svolitlar áhyggjur af því að ef ég mynda enda ein myndi ég villast af leið. Og með svo lítinn útbúnað með sér þá er það ekkert sérstaklega aðlaðandi tilhugsun. Stefán var hins vegar búinn að setja greinargóða leiðarlýsingu á netið sem ég bæði las vel og vandlega, og prentaði út og var með í vasanum. Veðrið var líka eins og best var á kosið, hlýtt, skýjað en ágætt skyggni, sem dró úr hættunni á því að villast.

En aftur að sjálfu hlaupinu. Við vorum 23 sem lögðum af stað frá Rauðamelsölkeldu um klukkan 15:20, laugardaginn 30. maí. Þar af vorum við samtals 11 frá Flandra og einn til sem kom hlaupandi á móti.

Hópurinn í upphafi hlaups. Mynd: Stefán Gíslason

Hópurinn í upphafi hlaups. Mynd: Stefán Gíslason

Til að byrja með var hlaupið á mjúkum stíg en fljótlega vorum við komin í landslag sem var erfiðara undir fæti: þúfur, urð og grjót og á sumum stöðum jafnvel kjarr eða mýrar. Inn á milli voru þó stígar, sem auðvelduðu hlaupin, en landslagið var með þeim hætti að maður missti yfirleitt sjónar af þeim flestum eftir smá stund (nema síðustu 3-4 kílómetrana, sem voru eftir malarslóða).

Í fyrsta hlutanum, áður en við óðum yfir Flatnaá. Mynd: Stefán Gíslason

Í fyrsta hlutanum, áður en við óðum yfir Flatnaá. Mynd: Stefán Gíslason

Eftir 3-4 km komum við að staðnum þar sem átti að vaða yfir Flatnaá. Á þessum tímapunkti var hópurinn enn nokkuð samhangandi en fljótlega eftir að komið var yfir ána fór að dreifast úr honum, a.m.k. mín megin, sem var hægari hluti hópsins. Ég fann fljótt að mér fannst óþægilegt að fara of hratt yfir þar sem ég er ekkert sérlega fótviss og þarna var auðvelt að misstíga sig og hrasa. Þannig að ég var frekar hægfara, og hljóp í raun hægar en ég hefði getað miðað við dagsformið. En ég reyndi samt að halda mig í skokktaktinum og „hljóp“ eiginlega alla leið nema á nokkrum köflum þar sem þúfur og kjarr gerðu það að verkum að það var eiginlega ómöglegt annað en að ganga.

Eftir 5-6 km var ég hætt í að sjá í nokkurn mann, hvorki þá sem voru fyrir framan mig né aftan. Leiðin virtist þó nokkuð auðrötuð, mér leið vel og ég því bara í góðum gír þó ég væri bara ein að hlaupa með sjálfri mér. Veðrið var gott, skemmtilegt að virða fyrir sér fallegt landslag og góð tilfinning að hlaupa svona ein út í náttúrunni.

Frá seinni hlutanum. Áin var aldrei langt undan og það hjálpaði til við að halda áttum. Mynd: Stefán Gíslason

Frá seinni hlutanum. Áin var aldrei langt undan og það hjálpaði til við að halda áttum. Mynd: Stefán Gíslason

Ég var með þrjú gel með mér og rúmlega líter af vatni í vatnsblöðru í bakpoka (sem ég gat drukkið úr í gegn um rör). Ég stoppaði því aldrei til að borða og drekka en fékk mér gel á ca klukkutíma fresti. Ég var yfirleitt aðeins byrjuð að vera svöng og máttlaus áður en ég tók gelin, en sló á það um leið og fékk smá orku í kroppinn. Eftir ca 12 km dró ég fram leiðarlýsinguna, bara til að vera viss um að ég væri á rétti leið. Sá að leiðin mín passaði vel við lýsinguna þannig að ég hélt bara áfram, jafnt og þétt, og ca á kílómetra 15-16 fór ég aftur að sjá í næstu hlaupara á undan.

Rétt í þann mund sem ég var komin í gegn um erfiðasta hluta leiðarinnar, sem var blanda af kjarrlendi og mýrum, og búin að finna malarveginn sem við fylgdum síðasta spölinn, komu þeir Stefán og Gunni, hlaupafélagar úr Flandra, á móti mér. Þeir ákváðu að lengja svolítið hlaupið sitt með því að hlaupa til baka og hitta þá sem höfðu dregist aftur úr. Það urðu fagnaðarfundir og var gaman að fá pepp og faðmlag, svona rétt til að bæta á orkuna fyrir lokakaflann (allir alltaf svo góðir vinir svona upp á fjöllum 🙂 ).

Hér er ég búin að hlaupa tæpa 18 km, svolítið þreytt en jafnframt ánægð með að vera komin á beina og breiða braut og vita að væri stutt eftir. Mynd: Stefán Gíslason

Hér er ég búin að hlaupa tæpa 18 km, svolítið þreytt en jafnframt ánægð með að vera komin á beina og breiða braut og vita að væri stutt eftir. Mynd: Stefán Gíslason

Þeir héldu svo áfram til að finna þær sem voru á eftir mér en ég átti hið þægilegasta skokk síðustu kílómetrana eftir að ég var komin á malarvegin. Var hissa hvað ég átti mikla orku eftir þrátt fyrir að hafa verið á ferðinni í meira en þrjá tíma og leið bara eiginlega mjög vel þessa síðustu kílómetra.

Þegar ég loks komst á leiðarenda voru liðnir þrír klukkutímar og 37 mínútur síðan ég lagði af stað og samkvæmt Garmin úrinu mínu hafði ég farið samtals 21,5 kílómetra. Þó ég hafi oft hlaupið jafn langa vegalengd hef ég ekki áður verið jafnlengi á hlaupum samfleytt án þess að taka mér pásu og því kannsi ekki furða að ég væri orðin nokkuð lúin.

Á bænum Setbergi hitti ég fyrir bæði eiganda hússins og þá Flandrara sem kláruðu hlaupið á undan mér. Hinir hlaupararnir höfðu flestir drifið sig af stað heim fljótlega eftir að þeir kláruðu hlaupið og áður en ég komst alla leið en við í Flandra tókum okkur hins vegar góðan tíma í að skipta um föt og borða nesti áður en við héldum heim á við eftir góðan dag og frábært hlaup.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Fjallgöngur, Hlaup, Hreyfing. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s