Uppgjör fyrir árið 2014

Ég setti mér nokkur hlaupa- og heilsutengd markmið fyrir árið 2014 eins og sjá má í þessum pistli hér, sem ég skrifaði fyrir ári síðan. Nú, þegar árinu er að ljúka, er við hæfi að líta til baka og skoða hvernig til tókst að ná þessum markmiðum.

Hlaupamarkmið:

  1. Hlaupa 10 km á innan við 70 mínútum

Ég náði þessu markmiði og gott betur. Tók þátt í tveimur 10 km keppnishlaupum og var 61,13 mín í því fyrra (í maí) og 58,23 mín í því síðara (í septemer). Þetta var augljóslega langt umfram væntingar, eins og hlaupin voru almennt þetta árið, sem skýrist bæði að því að ég hélt mig vel við efnið varðandi æfingar, en ekki síst vegna þess hversu vel gekk að taka matarræðið í gegn (sjá síðar).

  1. Hlaupa hálfmaraþon á innan við 2.30,00

Þetta var ár hálfmaraþonanna og ég hljóp þrjú hálfmaraþon, öll á vel innan við 2.30,00. Það fyrsta í Mývatnsmaraþoni í júní á tímanum 2.24,12, næst hljóp ég hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoni á tímanum 2.15,06 og þriðja og síðasta hálfmaraþon ársins var í Munchen í október á tímanum 2.19,10.

  1. Hlaupa í heildina 1000 km eða meira á árinu

Þetta er markmið sem ég setti mér fyrir árið 2013 en náði því ekki (hljóp samtals 930 km það árið) en í ár var ég búin að ná þessu markmiði strax í sepetmber og heildarfjöldi kílómetra sem ég hljóp á árinu er 1357 km (46% aukning frá því í fyrra).

Auk þessara markmiða, sem öll náðust með stæl, þá tók ég líka þátt í fjórum 5 km hlaupum, hljóp 14,2 km í Hreppslaugarhlaupi og 12 km í einu utanvegahlaupi, svokölluðu Tindahlaupi í Mosfellsbæ, sem var sérlega skemmtilegt hlaup. Ég tók líka þátt í skemmtiskokkinu í Skógarhlaupinu í Vaglaskógi í lok júlí. Hafði ætlað mér að fara lengri vegalengd, en var rétt að skríða saman eftir tognun í liðbandi í hné, sem varð til þess að ég gat lítið sem ekkert hlaupið í júlí.

Í heildina var þetta frábært hlaupaár, og margar af bestu minningum ársins tengjast hlaupaviðburðum. Ekki endilega þeim hlaupaviðburðum sem hér er minnst á, heldur ekki síður ótal margar æfingar, bæði ein og í góðum félagsskap. Sérstaklega eru sum löngu hlaupin með vinkonum mínum úr Flandra minnisstæði, t.d. nokkrir Háfslækjarhringir, góður hringur nálægt Hvanneyri og svo hlaupatúrinn í hríðinni í desember sem ég bloggaði um hér.

Ég tók hlaupaskóna með hvert sem ég fór, og náði að hlaupa í Helsinki, Malmö, Kaupmannahöfn, Munchen, Längenfeld, Vínarborg og Rovaniemi. Á Íslandi hljóp ég ekki bara í Borgarnesi og nágrenni, heldur einnig á Akureyri þegar ég dvaldi þar í maí, í júlí og í desember. Ég greip hlaupaskóna oft með í vinnuna og naut þess að hlaupa í fallegri náttúru í kring um Bifröst og einstöku sinnum náði ég einnig að hlaupa í Reykjavík, og þá oftast í Laugardalnum.

Önnur heilsutengd markmið:

  1. Prófa allar 50 uppskriftirnar í bókinni „Heilsudrykkir Hildar“

Ég var dugleg í þessu fyrstu 2-3 mánuði ársins en svo datt botninn úr þessu markmiði. Ætli ég hafi ekki náð að gera svona 10-12 uppskriftir samtals, en sumar þeirra gerði ég 2-3 sinnum.

  1. Byrja aftur að hjóla

Ég keypti mér þessa fínu hjólabók snemma á árinu, þar sem var að finna hljólaleiðir á Vesturlandi. Dreif svo loks í að pumpa í hjólið mitt einhverntíman um eða upp úr páskum. Hjólaði á hjólinu heim og komst að því að bremsurnar voru bilaðar og lengra komst ég ekki með þetta markmið. En mig dreymir enn um að flétta hjólreiðar meira inn í lífsstílinn og fara einhverntíman í langa hjólaferð hérlendis og/eða erlendis.

  1. Finna skemmtilegar og árangursríkar leiðir til að bæta matarræði

Aldrei þessu vant þá náði ég umtalsverðum árangri hvað þennan þátt varðar. Ég tók mjög ákveðið á þessum málum í upphafi árs, fór í samstarf við ráðgjafa, skrifaði allt sem ég borðaði niður og lét reikna út fyrir mig orkuinnihald og hvernig það passaði við það sem ég var að brenna, miðað við grunnbrennslu og hreyfingu. Ég gerði þetta samviskusamlega í 5 mánuði og léttist um 12 kg. Ég hætti að skrifa allt niður eftir þann tíma, en hélt mig við svipað matarræði þar til ég var búin að léttast um 3 kg í viðbót og um mitt sumar var ég orðin 15 kg léttari en í byrjun árs. Eftir það slakaði ég aðeins á að því leyti að ef eitthvað var um að vera gerði ég frekar undantekningar og leyfði mér eitt og annað hvað mat varðar, en hélt mig samt áfram við svipað matarræði í grunninn, alla venjulega daga.

Ég hef verið að færa mig hægt og rólega í hollara matarræði síðustu ár, þannig að kannski voru þetta ekki neinar kollsteypur sem ég tók, en stærstu breytingarnar voru þær að ég minnkaði hveiti allverulega. Kaupi aldrei lengur brauð, borða ekki pizzur nema í undantekningartilfellum og takmarka það hvað ég borða mikið af kolvetnum eins og hvítu pasta, hvítum hrísgrjónum og þess háttar. Ég forðast einnig sykur, en það hef ég reyndar gert í nokkur ár. Eins, með því að sjá útreikninga á hitaeiningum varð ég meðvitaðari um skammtastærðir. Í stuttu máli, ekkert bannað en nokkur skýr prinsipp sem ég fylgi flesta daga.

  1. Jóga og styrktaræfingar í hverri viku

Ég var nokkuð dugleg að gera styrktaræfingar, hugsa að ég hafi gert þær a.m.k. einu sinni í viku allt árið, og oft tvisvar sinnu í viku, sérstaklega þann tíma þegar álagið í hlaupunum var hvað mest (maí-september). Ég stundaði ekki jóga reglulega en fór af og til í jógatíma og gerði af og til æfingar heima.

 

Aðalmarkmið ársins

Aðalmarkmið ársins var að klára drög að doktorsritgerðinni minni. Ég vissi þegar ég setti það markmið að það væri sennilega heldur bratt, og þó að áfram hafi mjakast, er ég ekki komin með nema ca 1/3 af heildstæðum drögum. En rétt eins og með 1000 km árið 2013, þá læt ég það ekki stoppa mig þó aðeins lengur taki að ná markmiði en upphaflega var að stefnt. Ég mun klára ritgerðina á þessu ári. Stefni að því að vera komin með heildstæð drög í vor eða snemmsumras og við það ljúka ritgerðinni og tilbúin að undirbúa vörn í lok árs.

Meira um það í næsta pistli, sem fjallar um markmið fyrir árið 2015.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Doktorsrannsókn, Hlaup, Hreyfing, Markmið, Matur. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s