Vetrarhlaup

Hvaða heilvita manneskja æðir út í myrkur, kulda og hríðarbyl til að hlaupa? Jú, ég gerði það í morgun. Og reyndar líka í gær. Og stefni aftur út annað kvöld. Ég hef skorað skammdegið á hólm og neita að leyfa því að draga mig ofan í holu myrkurs, þreytu og vonleysis. Ég vil sanna fyrir sjálfri mér að andinn sé efninu yfirsterkara og ég geti stundum aðeins meira en ég held.

Þetta voru nokkrar af þeim hugsunum sem flögruðu um hugann í morgun þegar ég þrjóskaðist áfram í snjónum. Ég er sem sagt ekki mikil skammdegismanneskja og hef aldrei verið. Vorið og sumarið er minn tími. En skammdegið kemur á hverju ári hvort sem mér líkar betur eða verr. Það er ekki beinlínis þunglyndi sem hellist yfir mig. Meira einhver drungi og orkuleysi. Í gegn um árin hef ég beitt ýmsum brögðum til að vinna á móti þessari líðan. Í desember er sem betur fer margt sem hægt er að gleðjast yfir. Kveikja á kertum, setja upp jólaskraut, leyfa myrkrinu að umvefja sig, fara á tónleika og hlusta á fallega tónlist. Síðustu ár hef ég líka notað hið gamakunna trix að hafa svo mikið að gera í vinnu að skammdegið er liðið hjá áður en ég veit af. En þegar stærsta verkefnið sem liggur fyrir er risastór ritgerð sem mun taka nokkra mánuði að klára verður það aðeins erfiðara að eiga við en þegar dagarnir eru yfirfullir af fundum og daglegum skilafrestum.

Ég fann reyndar lítið fyrir skammdeginu í ár fyrr en í desember, þegar veturinn skall á með fullum þungum. Það er eitthvað við það þegar myrkur, kuldi, vont veður og ófærð blandast saman sem dregur úr mér orku. Mér finnst ég föst.

Og þá gríp ég til sama ráðs og hefur dugað mér best til að viðhalda jafnvægi og góðu skapi síðustu 2-3 ár. Ég fer út og hreyfi mig. Ég get ekki sagt að mig langi beinlínis út að hlaupa þegar ég vakna upp í svarta myrki um helgar, eða í sama myrkrinu að vinnudegi loknum á virkum dögum. En ég fer samt því ég veit mér líður svo miklu betur á eftir. Og einhvernvegin er bara allt í lagi um leið og ég er komin af stað. Þá er líkaminn í góðu standi og þakklátur fyrir að fá að hreyfa sig og fá fersk loft í lungun.

Ég fór í mitt hefðbundna helgarhlaup í gærmorgun (laugardag). Þá hitti ég hressa Flandrara, við hlupum góðan hring, og nutum þess svo að hlýja okkur í pottinum á eftir. Besta leiðin sem ég veit til að byrja helgina. En þessa helgi var það ekki nóg. Í gærkvöldið fékk ég þá flugu í höfuðið að mig langaði aftur út að skokka næsta morgun. Spáin var slæm. Enn einn vetrarstormur framundan. „Ég fer samt“ hugsaði ég ákveðin. Og þegar ég vaknaði var ég jafnákveðin. Klæddi mig í eins hlý föt og ég gat, án þess þó að neinsstaðar þrengdi að, svo ég ætti auðvelt með að hreyfa mig. Og fór af stað. Það var kolniðamyrkur þegar ég lagði af stað, rétt rúmlega hálftíu. Og þegar dagsbirtan fór að gæjast fram þá var hún heldur grámygluleg. Snjókoman var að breytast í hríðarbyl. Ég hélt samt áfram. Fór hring í hverfinu og svo áfram í gegn um hesthúsahverfið og svo aðeins lengra eftir stígum. Þegar ég var komin út úr byggðinni í Borgarnesi fór fyrst að vera gaman. Það var ekki sála á ferð, hvorki gangandi né keyrandi. Ég var með vindinn í fangið og á tímabili sá ég ekki á milli ljósastaura. Og allt í einu fannst mér algjörlega frábært að vera úti að hreyfa mig einmitt í svona aðstæðum. Ég fór að hrópa og kalla og reka upp gleðiöskur. Var í hrókasamræðum við sjálfa mig. Var alsæl og hamingjusöm.

Eftir sjö kílómetra sneri ég við…. og þá blasti við mér miklu bjartara veður. Sá jafnvel glitta í bláan himinn. Kílómetrarnir til baka voru eiginlega alveg áreynslulausir. Ég fann birtu og gleði innra með mér og sá svo sannarlega ekki eftir að hafa drifið mig út.

Alls ekki svo slæmt veðrið á svölunum í Hrafnakletti þegar ég var búin ;)

Alls ekki svo slæmt veðrið á svölunum í Hrafnakletti þegar ég var búin 😉

Það voru nú svo sem engin hraðamet slegin í þessu vetrarskokki, enda ekki markmiðið að þessu sinni. En 90 mínútur í vetrarveðri er ekki svo slæmt...

Það voru nú svo sem engin hraðamet slegin í þessu vetrarskokki, enda ekki markmiðið að þessu sinni. En 90 mínútur í vetrarveðri er ekki svo slæmt…

Allt hefur sinn sjarma – og vetrarhlaup geta verið alveg dásamleg – líka í hríðarbyl.

Þið sem hafið lesið alla leið…. er einhver annar ég sem þarf að beita öllum brögðum til að viðhalda gleðinni í hjartanu yfir dimmasta tímann? Hvað virkar best? Endilega deilum og lærum hvert að öðru.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Hreyfing. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s