Hálfmaraþon #4: München

Loksins, loksins kem ég því í verk að skrifa pistil um hálfmaraþonið í München, sem fram fór þann 12. október síðastliðinn. Fyrsta hlaupið sem ég tek þátt í erlendis. Við ákváðum nokkur í Flandra að stefna á þetta hlaup strax síðasta haust. Aðdragandinn var því nokkuð langur og þátttaka í þessu hlaupi eitt af aðal hlaupamarkmiðum ársins.

Ferðafélagarnir

Við vorum sjö úr hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi sem ferðuðumst saman til München. Tveir ætluðu í heilt maraþon, tveir makar í stuðningsliðinu og svo vorum við þrjú sem stefndum á hálft maraþon. Við vorum þó langt í frá einu Íslendingarnir í hlaupinu. Við nýttum okkur það að Bændaferðir voru með skipulagða ferð í hlaupið og auk okkar voru í þeirri ferð vaskur hópur Eyrarskokkara frá Akureyri, Vestfirðingar voru með fulltrúa sem og Austurland og nokkrir Reykvíkingar. Alls voru um 50 manns í ferðinni með Bændaferðum en auk þess voru 1-2 aðrir hlaupahópar frá Íslandi sem ferðuðust á eigin vegum. Í svona ferð skiptir félagsskapurinn ekki litlu máli og það var frábært að hafa félagana úr Flandra nálægt sér. Eins var sérlega gott og þægilegt að ferðast með Bændaferðum. Farastjórn var með miklum sóma og vel að öllu staðið. Hópurinn gisti á IBIS hóteli í miðbænum, rétt hjá aðalbrautarstöðinni. Hótelið var vel staðsett og þægilegt að flestu leyti nema mér þótti heldur mikill hávaði að næturlagi.

Markmið fyrir hlaupið

Ég átti svolítið erfitt að setja mér markmið fyrir þetta hlaup. Í Reykjavíkurmaraþoni hljóp ég hálft maraþon á tíma sem talsvert betri en ég hafði átt von á (2.15,06) og ég var því kannski ekki endilega mjög hungruð í bætingu. Langaði bara til að njóta hlaupsins. Vissi að ég ætti að geta hlaupið á innan við 2.20, vonaðist til að geta farið undir 2.15 (og bætt tímann minn) en ítrasta markmið var að hlaupa á 2.10. Ég held að á góðum degi hefði ég átt möguleika á því, en þegar til kom þá var það ekki raunhæft þennan dag.

Óvæntar aðstæður

Ein aðalástæðan fyrir hversu langan tíma hefur tekið fyrir að koma þessari frásögn á blað er sú að ég vissi ekki almennilega hvernig ég ætti að segja frá þessu hlaupi. Stór hluti af því hvernig maður upplifir hlaup er hugarástand. Og það voru ýmsir atburðir sem áttu sér stað dagana á undan sem urðu til þess að ég var í fremur skrýtnu og óvenjulegu hugarástandi þennan dag sem að hlaupið var. Meira fjarhuga en ég hefði kosið.

Ég hafði ákveðið, áður en ég fór af stað til München, að framlengja ferðina um tvær vikur. Þau verkefni sem fyrir lágu í vinnunni á þessum tíma voru þess eðlis að ég var ekki bundin staðsetningu og gat unnið þau hvar sem var. Markmiðið var að heimsækja frænku mína og hennar fjölskyldu sem er búsett í Austurríki, og í framhaldi hitta vin minn þar í landi sem ég átti erindi við. Það gekk erfiðlega að skipuleggja heimsókn til þessa vinar og að lokum fóru leikar svo að hann ákvað að koma að hitta mig í München. Það var kannski ekki alveg óskastaðan. Ég átti ýmislegt óuppgert við þennan vin, sem var tilfinningalegs eðlis, og hefði kannski frekar kosið að einbeita mér að því á einhverjum öðrum tíma en rétt fyrir hlaup. Það var engu að síður gott að hitta hann en samskiptin enduðu óvænt þegar hann þurfti að fara í flýti heim til sín vegna veikinda foreldris. Og eftir sat ég með óklárað erindi. Það var vont. Og ekki gott veganesi inn í hlaupið næsta dag.

Þrátt fyrir þetta kom aldrei annað til greina en að taka þátt í hlaupinu. Og að ákveðnu leyti hlakkaði ég til að komast af stað…. fátt jafn gott til að dreifa huganum eins og líkamleg áreynsla. En á meðan félagar mínir tóku til hlaupafötin og komu sér í gírinn fyrir næsta dag, lá ég andvaka mestalla nóttina á hótelherberginu og var að hugsa um eitthvað allt annað en hlaupið framundan.

Hlaupadagurinn

Ég var ósofin um morguninn og ekki í neitt sérlega góðu stuði. Staðgóður morgunmatur í félagsskap hlaupafélaga kom mér þó í mun betra skap og svona klukkutíma áður en við lögðum af stað frá hótelinu fór ég loks að finna fyrir spennunni og taugatitringnum sem yfirleitt fylgir svona hlaupi. Dreif mig í hlaupafötin… tók „selfie“ fyrir framan spegilinn og skellti á Facebook…. og ákvað að nú væri komin tími til að kýla á þetta.

 

Að duga eða drepast....!

Að duga eða drepast….!

Veðrið var yndislegt og það var góð stemmning á meðan við biðum eftir að hlaupið yrði ræst. Og ekki var verra að hafa uppáhalds hlaupavinkonu mína, hana Siggu Júllu, við hliðina á mér við ráslínuna.

Tilbúnar í átökin framundan. Mynd: Dofri Hermannsson

Tilbúnar í átökin framundan. Mynd: Dofri Hermannsson

Loks var hlaupið ræst og mikið fannst mér gott að komast af stað. Reyna á vöðvana, fá loft í lungun og svitna hressilega. Já…. þetta með svitann… ég þurfti ekki að kvarta yfir að væri ekki nóg af honum. Hitinn var kominn upp í 20°C eða meira (er ekki alveg viss hvað hann fór upp í á meðan hlaupinu stóð, en held að það hafi verið vel yfir tuttugu gráður) og ég svitnaði og svitnaði. Var í vandræðum vegna þess hversu mikið salt kom í augun á mér. Buffið á höfðinu náði ekki að taka við nema litlu broti af öllum þessum svita. Ég passaði því vel og vandlega að drekka á hverri einustu drykkjarstöð (þær voru á 3-4 km fresti) og þegar ég síðan uppgötvaði að það væri gott að hella eins og hálfu vatnsglasi yfir andlitið á mér, til að ná saltinu úr augunum, þá fór mér að líða heldur betur.

Rennsveit og fókuseruð...

Rennsveit og fókuseruð…

Fyrstu 2-3 kílómetrana reyndi ég að halda mig við hraða sem miðaði við að ég kláraði hlaupið á 2.10. Ég fór fram úr 2.15 blöðrunum strax í upphafi og þær voru fyrir aftan mig fyrstu 6-8 kílómetrana. En ég fann fljótlega að í þessum hita væri ekki raunhæft fyrir mig að halda þessum hraða. Ég þurfti virkilega að gæta að því að innbyrða nægjanlegan vökva og ég vildi frekar hægja aðeins á mér og tryggja að ég kæmist í mark í heilu lagi heldur en að enda með vökvaskort og krampa á miðri leið. Þannig að ég hægði svolítið á mér og eftir ca 12-13 kílómetra var ég hætt að sjá í 2.15 blöðrurnar. Mér leið samt aldrei illa í hlaupinu og var í ágætu stuði líkamlega. Andlega fann ég ekki sama lífskraftinn og gleðina innra með mér og ég hef oft upplifað í keppnishlaupum. Það var eins og væri einhver skuggi rétt til hliðar og ég þurfti að gæta að því að hleypa honum ekki að. Vissi að ég myndi ekki ráða við það þarna á þessari stundu. Þannig að þegar ég hugsa til baka um hvernig ég upplifði hlaupið þá var þetta fyrst og fremst puð… skref fyrir skref í miklum hita. Aldrei þannig að það væri neitt óyfirstíganlegt, en erfitt engu að síður. Ég tók ekkert sérstaklega eftir umhverfinu. Var í mínum eigin heimi.

Í eigin heimi...

Í eigin heimi…

Það var ekki fyrr en alveg í lokin, þegar 1-2 kílómetrar voru eftir, að ég fór að finna fyrir gleði og hamingju innra með mér. Umhverfið varð aðeins grænna og þegar ég nálgaðist Ólympíuleikvanginn, þar sem hlaupið endaði, glumdi kunnuglegt lag í hátalarkerfinu: „I´m Walking on Sunshine“. Lag sem ég held mikið upp á og textinn talaði til mín. Ég hugsaði með mér að ég vildi vera sólarmegin í lífinu. Ég fann kraftinn innra með mér og fylltist stolti yfir því að hafa ekki gefist upp, þrátt fyrir aðstæður, heldur haldið mínu striki og var núna að klára þetta hlaup með sóma. Það var eins og tónarnir úr laginu flæddu inn í líkamann og ég fann að ég átti næga orku fyrir hressilegan endasprett.

Walking (or running!) on sunshine... :-)

Walking (or running!) on sunshine… 🙂

Það var algjörlega frábær tilfinning að hlaupa inn á Olympíuleikvanginn. Fullt af fólki, mikil stemming og ég tók heilmikinn endasprett. Veifaði höndunum og brosti út að eyrum ef ég sá ljósmyndara. Fór sennilega fram úr um tuttugu manns þessa síðustu hundruð metra inn á vellinum. Og svo var ég komin í mark og hlaupið var búið. Tíminn: 2.19,10. Á þessum tímapunkti var tíminn orðinn aukaatriði fyrir mig, en ég var sátt að vera undir 2.20.

Gaman að fara fram úr á loka metrunum...

Gaman að fara fram úr á loka metrunum…

Eftir hlaupið var ég dálitla stund inni á svæðinu fyrir hlaupara sem voru búnir að klára. Fékk mér vatn og banana, tók af mér flöguna og beið eftir Siggu Júllu, sem skilaði sér stuttu síðar. Við drifum okkur síðan út af svæðinu, náðum í fatapokana okkur og hittum fleiri íslenska hlaupara sem við urðum samferða heim á hótel. Um kvöldið fór allur íslenski hópurinn sem var á vegum Bændaferða saman út að borða. Ég man ekki hvað staðurinn heitir, en hann var alveg fullkominn fyrir þennan hóp. Góður og vel útilátinn matur og við fengum að vera aðeins afsíðis, í sal sem hentaði vel fyrir þessa stærð af hóp. Ég borðaði heil ósköp, enda var ég ekkert svöng næsta dag, eins og oft er daginn eftir mikil átök.

Flott medalía.

Flott medalía.

Næst þegar ég tek þátt í stórum hlaupaviðburði langar mig að ná að vera betur fókuseruð á sjálft hlaupið. Upplifa allt ferlið…. fyrir… á meðan… og á eftir…. án þess að vera svo mikið með hugann við eitthvað annað. Engu að síður þá er ég sátt við hversu vel gekk og að ég náði a.m.k. í lokin virkilega að njóta stundarinnar.

Hvað næst?

München hálfmaraþonið var síðasta hlaupaverkefnið á þessu ári. Ég hef í raun náð öllum markmiðunum sem ég setti mér varðandi hlaupin fyrir árið 2014, bæði varðandi þau hlaup sem ég ætlaði að taka þátt í, tímamarkmið og heildarfjölda kílómetra. Það sem eftir er árs mun ég kannski slaka aðeins á í hlaupunum. Láta mér hinar hefðbundu þrjár æfingar í viku duga og vera kannski duglegri í styrktaræfingum og annarri hreyfingu í staðinn.

En nýtt ár er handan við hornið. Og nýju ári fylgja ný markmið. Þau verða kynnt betur síðar en munu þó sennilega fela í sér nýjar áskoranir eins og utanvegahlaup og hugsanlega fyrsta maraþonið. Ég er bara rétt að byrja 🙂

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Ferðalög, Hlaup, Hreyfing, Keppni, Markmið. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s