Klukkutíma múrinn rofinn!

Í gær tók ég þátt í 10 km Flensborgarhlaupi. Ég hljóp 10 kílómetrana á 58,23 og bætti tímann minn frá því í maí um 2 mínútur og 50 sekúndur. Stefnan var að vera innan við klukkutíma og það tókst og vel það. Var því afar sátt og sæl með hlaupið.

Hlaupið hófst við Flensborgarskólann í Hafnarfirði og var hlaupið fram og til baka í átt að Kaldárseli. Leiðin var svolítið hæðótt, engar brattar brekkur en mikið af aflíðandi brekkum upp og niður. Við vorum tvö úr Flandra að hlaupa, ég og Gunnar Viðar, en svo hitti ég líka fullt af fólki sem ég þekkti.

Ég var ekkert kvíðin fyrir þetta hlaup. Hafði verið heima að vinna um morguninn, en dreif mig svo til Reykjavíkur upp úr hádegi og hitti kunningja yfir kaffibolla. Var síðan komin á hlaupastað tæpum klukkutíma fyrir hlaup og hafði því nógan tíma til að hita upp og spjalla við fólk. Ég hafði fengið mér eina beiglu með osti ca. tveimur tímum fyrir hlaup, sem fór ekkert sérlega vel í mig þannig að það var einhver óróleiki í meltingunni rétt fyrir hlaupið, en sem betur fer leið það hjá um leið og ég byrjaði að hlaupa.

Þegar við lögðum af stað fann ég einhverja gleðitilfinningu innra með mér og hlakkaði til þess sem var framundan. Fyrstu 2 kílómetrana hljóp ég á 11,30 (5,45 mín meðalhraði) en svo hægði ég aðeins á mér, sérstaklega þegar fóru að koma fleiri brekkur, en þó ekki meira en svo að alltaf þegar ég leit á klukkuna þá var ég undir 6 mín í meðalhraða miðað við þá vegalengd sem ég var búin með. Eftir fyrstu 2,5 kílómetra – þegar 5 km hlauprararnir voru snúnir við, var enginn sem fór fram úr mér það sem eftir var hlaupsins en ég náði að hlaupa uppi 2-3 hlaupara.

Við 5 km snúningspunktinn var klukkan komin upp í 29,16 sem þýddi að ég hafði hlaupið fyrri hlutann á rúmlega 20 sekúndna betri tíma en besti 5 km tíminn minn. Fékk mér eitt vatnsglas á drykkjarstöðinni og hélt svo áfram. Mér fannst ég vera að hlaupa frekar hratt fyrri hlutann, og efaðist um að ég myndi halda út allt hlaupið á þessum hraða, en svo var eiginlega síðari hlutinn auðveldari, ég orðin vel heit, og ég náði að halda hraðanum og gott betur, því ég var 9 sekúndum fljótari með síðari hlutann. Eftir 7,5 km hlupum við yfir tímatökumottu og millitíminn minn var 44,19. Sem þýðir að ég náði að hraða talsvert á mér síðusta fjórðung hlaupsins, enda leið mér eiginlega best í þessum hluta. Var á fínu róli þegar ég fór yfir millitímamottuna og þegar ca 8,5 km voru búnir hljóp ég fram hjá ljósmyndara og var í svo góðu skapi að ég veifaði í allar áttir og pósaði. Þegar ég átti ca 400 metra eftir kom einn hlaupari sem ég kannast við, sem var löngu kominn í mark, og hljóp með mér síðasta spölinn. Var alveg frábært að fá svona „héra“ í lokinn og ég tók hressilegan sprett sem sennilega varð til þess að ég náði 10-20 sekúndna meiri bætinu en ég hefði annars náð.

Ég var númer 72 af 93 hlaupurum og númer 21 af 39 konum, eða rétt neðan við miðju. Það hefur því talsvert mikið breyst frá því fyrir 1-2 árum, þegar mesta streitan sem fylgdi því að taka þátt í svona hlaupum var hvort ég yrði síðust. Fyrir ári rétt tæpu ári síðan var ég einmitt síðust í 10 km hlaupi og var þá rúmar 70 mínútur á leiðinni. Nú ég er ég búin að rjúfa 70 mínútna múrinn, sem var eitt af markmiðum ársins, og líka klukkutíma múrinn, sem var markmið sem mér datt ekki einu sinni í hug að láta mig dreyma um fyrir ári síðan 🙂

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Hreyfing, Keppni. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við Klukkutíma múrinn rofinn!

  1. Þetta kemur mér ekki á óvart Auður mín. Þú ert búin að leggja svo vel inn fyrir þessu á árinu með einbeitni, skipulagi og staðfestu. Til hamingju með þetta, þú ert að rústa öllum Flöndrururm í framförum, það er á hreinu 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s