Um helgina hljóp ég hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoni. Þetta var þriðja hálfmaraþonið mitt og nákvæmlega ár frá því ég hljóp þessa vegalengd í fyrsta sinn, og þá sömu braut.
Ég sagði frá upplifuninni við að hlaupa hálfmaraþon í fyrsta sinn í bloggpistli hér, og frásögnina frá hálfmaraþoninu á Mývatni fyrr í sumar er að finna hér. Bæði þessi hlaup voru mjög skemmtileg og lærdómsrík.
Þetta þriðja hlaup gekk sérlega vel og ég var mjög sátt og ánægð þegar ég kom í mark. Ég hef samt verið í hálfgerðum vandræðum með hvað ég ætti að segja um þetta hlaup í þessum bloggpistli. Mig langar að halda frásögnum frá hlaupunum til haga, og þessi bloggsíða er leið til þess. Ég auglýsi hana lítið, og er ekki endilega að reyna að fá marga lesendur…. þetta er eiginlega meira bara fyrir mig og nánasta hóp sem hefur gaman af að fylgjast með þessu hlaupabrasi mínu. En mér finnst samt ágætt að hafa þetta svona á opinni síðu, því frásagnirnar gætu kannski hvatt einhverja áfram sem eru að reyna að koma sér af stað í hreyfingu og lífsstílsbreytingu.
Og það er eiginlega það sem er mér efst í huga eftir þetta hlaup… hvað hefur í rauninni orðið djúpstæð breyting á þessu síðasta ári. Það eru núna um þrjú ár síðan ég fór að hlaupa reglulega allan ársins hring, en þetta síðasta ár hef ég tekið hreyfinguna mun fastari tökum og sett það mun ofar í forgangsröðina að huga vel að eigin heilsu, bæði þeirri andlegu og líkamlegu.
En aftur að sjálfu hlaupinu á laugardag. Ég var mætt á upphafsstað með tveimur kátum Flandra hlaupavinkonum og við vorum bara vel stemmdar. Það var spenna í okkur öllum en ég var miklu minna stressuð en ég var fyrir ári síðan. Það tók ekki nema mínútu fyrir okkur að komast í gegn um marklínuna, eftir að hlaupið var ræst, og eftir það var þetta eiginlega bara eintóm sæla. Ég fann mig strax í hlaupinu, komst á þægilegan hraða, sem ég hélt út allt hlaupið. Náði meira að segja að hraða talsvert á mér eftir 20 kílómetra, og síðasti kílómetrinn í hlaupinu var sá hraðasti.
Ég sleppti vatnsbeltinu í þessu hlaupi. Tók eitt gel um 20 mínútum fyrir hlaup, og var svo með tvö gel í vasanum á hlaupabuxunum, sem ég tók á drykkjarstöð eftir 8 km og eftir 16 km. Ég fékk mér 1 glas af vatni á öllum drykkjarstöðum, og einnig eitt glas af powerade á síðustu drykkjarstöðinni (eftir 18-19 km). Þetta dugði vel, því orkan var jöfn og fín allt hlaupið. Í fyrra fannst mér erfiðasti hluti leiðarinnar frá Hörpunni (ca 11 km) og að drykkjarstöðinni eftir 13 km, en núna fannst mér þessi hluti hlaupsins mjög skemmtilegur því ég var svo upptekin við að fylgjast með hlaupurunum sem komu á móti, og voru að klára hlaupið. Ég náði að að sjá í fótfráustu Flandrarana þar og við gátum hvatt hvort annað áfram. Þegar ég var að hlaupa í mark leið mér vel og fannst þetta eiginlega hafa verið frekar átakalaust hlaup. Heyrði hvatningarhróp á hliðarlínunni, sem var beint til mín, og það minnti mig á að nú yrði ég að fagna almennilega, fyrst ég væri að koma í mark. Þannig að síðustu metrana hljóp ég skælbrosandi og veifandi höndunum í allar áttir.
Ég hafði sett mér það markmið í huganum, fyrir hlaup, að stefna að tíma innan við 2.20. Lokatíminn var 2.15,06 sem ég var mjög sátt við. Rétt rúmlega 9 mínútna bæting frá hálfmaraþoninu í júní og bæting um heilar 26 mínútur og 24 sekúndur miðað við hlaupið fyrir ári síðan, sem var á sömu braut.
Annars segir myndin hér að neðan eiginlega allt sem segja þarf um þá breytingu sem hefur orðið á þessu eina ári: