Hreppslaugarhlaup – 14,2 km

Í gær tók ég þátt í Hreppslaugarhlaupi í annað sinn. Í fyrra fór ég 7 km í þessu hlaupi en að þessu sinni tók ég allan hringinn sem er 14,2 km. Það voru mun fleiri þátttakendur en í fyrra, sennilega vel á annað hundrað, og ágæt stemmning. Alveg á mörkunum að Hrepplaugin réði við allan þennan fjölda (var a.m.k. mjög þröngt í kvennaklefanum) og mér finnst skipulagið svolítið ruglingslegt í upphafi hlaups, þegar verið var að ræsa. Ekkert af þessu dró þó úr gleðinni sem ég upplifði í þessu hlaupi.

Ég hef verið að vandræðast með ákveðið mál síðustu vikur, og að einhverju leyti hef ég leyft því að ræna mig gleðinni. Hlaupin og góð hreyfing hjálpa mér að glíma við áskoranir í lífnu en í hlaupinu í gær var eins og ég kæmist dýpra inn í kjarnann á sjálfri mér en í venjulegu hlaupi. Ég fór frekar hratt af stað, hraðar en ég hafði ætlað mér, og hljóp fyrstu 5 kílómetrana á tæpri 31 mínútu (30,50). Mér leið samt vel, var varla móð, og ákvað bara að hlaupa með hjartanu. Hafði hvort sem er engin sérstök tímamarkmið fyrir þetta hlaup og sá það meira sem æfingu fyrir hálfmaraþonið níu dögum síðar.

Þegar ég var búin að hlaupa í dágóða stund, eftir cirka 4-5 kílómetra, fylltist ég allt í einu einhverri djúpri hamingjutilfinningu. Ég var svo glöð yfir því að vera heilbrigð og hraust og geta notið þess að hlaupa. Og ég fann fyrir stolti yfir því að sú staðfesta sem ég hef sýnt í æfingum væri að skila sér. Ég fann vel fyrir líkamanum…. hverjum einasta vöðva… og það var góð tilfinning. Það var einhvernvegin eins og ég dytti inn í kjarnann á sjálfri mér og líkami og sál næðu saman. Mitt í þessari sæluvímu áttaði ég mig á því að hef ekki aðeins leyft fyrrnefndu máli að raska minni sálarró fullmikið heldur var ég líka farin að fyllast efasemdum um sjálfa mig. Og um leið og hugurinn fór að efast var eins og drægi úr væntumþykju í eigin garð. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa þessu, en lykillinn af því hversu vel hefur gengið í matarræði og hreyfingu undanfarna mánuði hefur tengst því að ég hef nálgast þetta viðfangsefni í kærleika til sjálfrar mín. Mér hefur liðið óvenjuvel og verið sátt í eigin skinni. Síðustu vikur hefur þetta jafnvægi átt undir högg að sækja. Lífið, með öllum sínum áskorunum, sér okkur fyrir sífelldum verkefnum og þá er auðvelt að villast af leið. En þarna, í miðju hlaupi, var eins og ég vaknaði upp og næði að tengjast aftur.

En aftur að sjálfu hlaupinu. Fyrstu 5 kílómetrarnir gengu sem sagt mjög smurt fyrir sig. Ég var næstsíðust en það var stutt í næstu hlaupara. Næstu 5 km voru meiri áskorun þar sem þarna var ein nokkuð löng og aflíðandi brekka, og þegar við beygðum inn á malarveginn eftir um 8 kílómetra fengum við nokkuð hressilegan mótvind í fangið. Ég var rúmlega 33 mínútur með þennan hluta hlaupsins, og því heldur hægari en í fyrsta hlutanum. Síðustu 4 kílómetrana náði ég hins vegar að halda ágætum hraða, þrátt fyrir mótvindinn, og leið enn mjög vel. Síðari brekka hlaupsins er þegar um þegar um 1,5 km er eftir af hlaupinu og í þeirri brekku fór ég fram úr tveimur hlaupurum sem ég hafði séð í allt hlaupið. Þegar ég var komin upp brekkuna vissi ég að restin væri niður á móti og gaf því bara vel í og lét mig gossa niður síðustu brekkuna. Bara gaman og skemmtilegt og ég átti nóg eftir.

Samkvæmt Garmin kom ég í mark á tímanum 1.31,14, sem er um 6,25 mín/km meðalhraði (bíð enn eftir opinberjum tíma á hlaup.is). Er mjög sátt við það. Það var samt ekki tíminn sem var neitt aðalatriði í þessu hlaupi heldur miklu frekar þessi djúpa gleði, vellíðan og  þakklæti sem ég upplifði á meðan á því stóð.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Keppni. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við Hreppslaugarhlaup – 14,2 km

  1. Þú átt klárlega inni fyrir flottum árangri, staðfesta og dugnaður þinn eru okkur honum mikil hvatning og algjörlega til fyrirmyndar 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s