Fjórar vikur í hálfmaraþon

Náði í fyrsta sinn að hlaupa 40 km á einni viku. Ekki að það hafi í sjálfu sér verið eitthvert sérstakt markmið, en þegar ég var að ákveða vegalengd í morgun datt mér í hug að væri skemmtilegt að miða við 18,4 km til að ná upp í 40 km fyrir vikuna.

Nú eru sem sagt fjórar vikur í fyrsta hálfmaraþon ársins sem er á áætlun hjá mér, sem fer fram á Mývatni þann 7. júní næstkomandi. Þannig að síðustu vikur hef ég verið að auka talsvert vegalengdirnar sem ég hleyp í hverri viku. Í vetur, þegar ég var ekki að æfa fyrir neitt sérstakt hlaup, heldur meira að halda mér við, þá reyndi ég að miða við að hlaupa ca 20 km á viku, en fór að auka upp í ca 25 km á viku strax um miðjan febrúar og hélt því fram í miðjan apríl. Síðustu fjórar vikur hafa hins vegar allar verið vel yfir 30 km, sú síðasta 37,2 og þessi vika, eins og fyrr segir 40 km.

Ég hef engin sérstök tímamarkmið fyrir þetta hálfmaraþon heldur verður aðaláherslan á Mývatni að njóta þess að hlaupa í fallegu umhverfi með góðum félögum. En þetta verður samt kannski smá stöðutékk, til að kanna hvar ég er stödd fyrir hálfmaraþonin tvö sem ég ætla að hlaupa síðar á árinu (Reykjavíkurmaraþon í ágúst og svo Munchen í október). Ég renn svolítið blint í sjóinn, því ég breytingar hafa verið það hraðar undanfarið að ég átta mig ekki alveg á hvar ég stend. Ég hef farið löngu æfingarhlaupin mín (15 km+) á rétt rúmlega 7 mín/km meðalhraða á síðustu vikum, og hefur liðið ágætlega á þeim hraða og heldur aukið hraðann síðustu kílómetrana ef eitthvað er, þannig að ég hugsa að ég ætti að geta hlaupið hálfmaraþon á meðalhraða eitthvað svolítið innan við 7 mín/km, án þess þó að vera eitthvað að pína mig svakalega mikið.

En tíminn svo sem ekki neitt aðalatriði, eins og fyrr segir. Líður bara svo vel þegar hlaupin eru orðin að lífsstíl og þau hafa hvatt mig áfram til að bæta mig á öðrum sviðum, bæði í matarræði og eins þá skilar hugarfarið sem ég hef verið að þjálfa í hlaupunum sér yfir í ritgerðarskrifin. Og ekki veitir af…. er alltaf að átta mig betur og betur á því að í doktorsnámi er það fyrst og fremst seigla, fremur en nokkuð annað, sem ræður því hvort tekst að klára eða ekki.

Rétt eins og í hlaupunum þá er líka ýmislegt að gerast í ritgerðarmálum, þó að hraðinn sé nú ekki mikill. En ég hef að minnsta kosti tíma núna í nokkrar vikur til að fókusera á rannsóknina. Er á Akureyri í 2ja vikna skriftörn og þegar ég kem til baka er ég að vonast til að ná að klára viðtölin fjögur sem ég á eftir og ná að afrita þau áður en næsta kennslutörn byrjar (sem verður strax í júní, því ég er með sumarnámskeið í síðustu lotu sumarannar). Ég verð reyndar stundum talsvert stressuð yfir hvað þetta gengur hægt, verk sem ég átti von á að klára á dagsparti tekur kannski nokkra daga, og það er auðvelt að fyllast vanmætti ef ég leyfi mér að hugsa um hvað er mikið eftir. En það þýðir ekki að láta undan slíkum hugsunum heldur fylla sjálfa sig eldmóði og minna mig á að þetta klárast á endanum, ef ég held bara áfram, orð fyrir orð.

Allavega… enda þennan pistil til gamans með „fyrir“ og „eftir“ myndum frá langa hlaupinu í morgun. Ljósmyndari er Hrefna Hjálmarsdóttir:

Fyrir hlaup

Fyrir hlaup: Klukkan níu á laugardagsmorgni. Vel úthvíld og til í tuskið.

Eftir hlaup: Rétt rúmum tveimur klukkutímum og 18,4 km síðar. Soldið lúin en samt enn brosandi :)

Eftir hlaup: Rétt rúmum tveimur klukkutímum og 18,4 km síðar. Soldið lúin en samt enn brosandi 🙂

Og áður en ég hætti….. heildarkílómetrafjöldi yfir árið 2014 er nú kominn upp í 495,7 km. Næstum hálfnuð með ársmarkmiðið og ekki einu sinni fimm mánuðir liðnir af árinu.

Ég spái því að sumarið 2014 verði frábært hlaupasumar 🙂

 

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s