10 km Globeathon

Ég tók þátt í 10 km hlaupi í dag. Bætti tímann minn frá því í Krabbameinshlaupinu í lok maí um rétt rúmar 3 mínútur og var 70 mín og 31 sek á leiðinni (skv. Garminn, opinber tími ekki enn kominn). Reyndar sagði Garminn að leiðin hefði verið 10,16 km, þannig að samkvæmt þeirri klukku var ég rétt undir 70 mínútum með tíu kílómetranna…. en það er víst ekki sá tími gildir. Og ég á það þá bara inni fyrir 2014 að rjúfa 70 mínútna múrinn í 10 km 😉

Ég var nokkuð viss um að ég myndi bæta tímann minn frá því í maí, en ekki eins viss um hvað mikið. Var að vonast til að ég myndi ná að slefa undir 70 mínútur, en það tókst ekki að þessu sinni, þó að munaði litlu. Brautin var heldur erfiðari en ég átti von á. Svolítið hæðótt þó væru engar stórar brekkur, og það var erfitt að enda á brekku síðustu 200-300  metranna. Það var full af fólki sem tók þátt í 5 km hluta hlaupsins, og margir hægfara í þeim hópi, en ekki nema sennilega tæplega fimmtíu sem að fóru 10 kílómetra. Þetta þýddi að þegar hlauparar í 5 km sneru við á 2,5 km snúingspunkti varð ég allt í einu ein að hlaupa og ég sá ekki neitt í næsta hlaupara fyrir framan. Það voru engir brautarverðir, né neinar merkingar eða keilur, frá 2,5 km og fram að 5 km snúningspunkti, þrátt fyrir að á nokkrum stöðum væri alls ekki augljóst hvert ætti að fara. Ég rambaði nú samt á rétta leið og þegar ég var komin um 4 km fór ég að mæta hlaupurum sem voru á leiðinni til baka. Sennilega hafa þeir sem voru næst á undan mér verið ca 2-3 mínútum á undan við 5 km markið. Það voru rétt rúmar 34 mínútur liðnar þegar ég kom að snúningspunkti og þar fékk ég mér 1/2 vatnsglas og nokkra sopa af rauðum orkudrykk. Sneri svo við og hélt áfram að hlaupa ein. Þegar ég kom úr undirgöngunum þegar voru tæpir tveir kílómetrar eftir var ljósmyndari og ég ákvað bara að pósa eins og sigurvegari og grínaðist með að ég klikkaði nú ekki á því þó að ég væri síðust. Reyndar kom í ljós að það var einn á eftir mér, ungur piltur sem hafði villst, en hann þaut fram úr mér þegar var tæpur kílómeter eftir. Mér leið ágætlega alla leiðina, og tókst að halda nokkuð jöfnum hraða, en  það var aðeins meira upp á móti á baka leiðinni og síðustu 100-200 metrarnir í mark voru ansi erfiðir þar sem þeir voru upp brekku (sem var sennilega ekkert mjög brött en virtist svakalega brött svona í lok hlaups!).

Ég var sem sagt síðust í mark en bætti mig samt talsvert og því bara sátt með hlaupið.

Þegar ég kom heim skellti ég í banana-eggja pönnsur, sem er að verða uppáhalds „eftirhlaups“ maturinn minn. Blanda saman 2 eggjum, einum banana og tæpum desilítra af haframjöli. Steiki á pönnu og í þetta sinn setti ég ofan á  vanilluskyr og bláber. Algert nammi 🙂 Hér fyrir neðan koma myndir af pönnsunum:

Búið að blanda eggjunum, haframjöli og stöppuðum banana í skál.

Búið að blanda eggjunum, haframjöli og stöppuðum banana í skál.

Þessi skammtur passar í 3-4 pönnukökur

Þessi skammtur passar í 3-4 pönnukökur

Með vanilluskyri og bláberjum. Bon appetit :-)

Með vanilluskyri og bláberjum. Bon appetit 🙂

P.s. Viðbót 30. sept: Samkvæmt upplýsingum á hlaup.is voru það 24 sem fóru 10 km (ekki tæplega fimmtíu eins og ég var búin að giska á, mest út af númerum sem ég sá, sem náðu upp í fjörutíu og eitthvað). Ég hef hinsvegar grun um að tímatakan hafi farið eitthvað úrskeiðis því hinn „opinberi“ tími er 68 mín og 10 sek, sem er eiginlega alveg útilokið… þ.e.a.s. að það muni 2 mín og 20 sekúndum á Garmin tíma og klukku þeirra sem mældu tímann í hlaupinu. Það voru engar flögur og ég setti úrið  mitt af stað um leið og hlaupið var ræst og stoppaði strax og ég kom í mark. Hlaupið bar það svolítið með sér að þeir sem skipulögðu það voru að gera það í fyrsta sinn. Vonandi verður búið að laga þessa hnökra fyrir næsta skipti. En ég verð held ég aðeins að bíða með það að lýsa því yfir að ég hafi rofið 70 mínútna múrinn, þar til ég tek þátt í hlaupi þar sem tímatökumál eru meira á hreinu.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Keppni. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við 10 km Globeathon

  1. stefangisla sagði:

    Til hamingju með þetta frábæra hlaup. Þriggja mínútna bæting er mjög mikil bæting, því að þú ert jú búin að hlaupa þó nokkur hlaup. Ef þetta væri hlaup nr. 2 eða 3 væri hægt að tala um tilviljanir. Framfarirnar eru sem sagt greinilegar og marktækar. Þú átt auðvelt með að rjúfa 70 mín. múrinn hvenær sem er á örlítið betri braut með örlítið fleira fólk í kringum þig. 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s