Fyrsta hálfmaraþonið

Náði aðal hlaupamarkmiði ársins á laugardag þegar ég tók þátt í hálfu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoni. Kom í mark á 2.44,00 byssutíma, en flögutíminn var 2.41,30. Var þreytt eftir hlaupið, talsvert stirð um kvöldið, en að öðru leyti bara nokkuð spræk.

Undirbúningur fyrir hlaup

Kvöldið fyrir hlaupið, eftir að ég var búin að ná í hlaupagögnin, tók ég mér meðvitaðan tíma til að slaka vel á. Þá á ég ekki við svona slökun sem felst í því að liggja fyrir framan sjónvarpið eða hanga á facebook, heldur kveikti ég á reykelsi og kertum, fór í heitt freyðibað, hugleiddi og tók mig síðan til fyrir hlaupið.

Allt af verða klárt

Allt af verða klárt

Einn lærdómur frá því í fyrrasumar var að það skipti miklu máli fyrir jákvæða upplifun að ná almennilegum fókus. Mér tókst að ná þessum fókus fyrir Jökulsárhlaupið, og átti þvílíkt skemmtilegt hlaup, en svo hafði ég einhvernvegin ekki almennilega náð að undirbúa mig andlega fyrir 10 km hlaup í Reykjavíkumaraþoni viku síðar, og er það eiginlega í eina skiptið sem upplifunin af því að taka þátt í almenningshlaupi var frekar neikvæð. Ég vaknaði seint, leið ekki sérlega vel í hlaupinu og var miklu lengur en ég átti von á. Sofnaði svo strax eftir sturtu og fékk mér ekkert að borða eftir hlaupið fyrr en 4-5 tímum síðar, þá farin að titra  og skjálfa og með dúndrandi hausverk vegna þess að blóðsykurinn var orðinn svo lágur.

Ég ætlaði sem sagt ekki að endurtaka þau mistök, og var búin að vera mjög meðvituð dagana á undan að hvíla vel (síðasta skokk var á mánudegi, fimm dögum áður), borða reglulega og sæmilega hollan mat. Föstudagskvöldið var svo tekið frá til að vinna í andlega hlutanum. Þrátt fyrir þessa góða slökun skal viðurkennast að ég svaf ekkert svakalega vel… talverð spenna í gangi, enda hálfmaraþon meiri áskorun en ég hef tekist við áður.

Vaknaði kl. 05.45 og gaf mér tíma í stutta hugleiðslu áður en ég borðaði morgunmat og gerði mig klára. Hélt mig við minn hefðbundna morgunverð (hafragrautur og ½ grape), enda veit ég að það fer vel í maga og dugar mér vel í nokkra klukkutíma. Lagði svo af stað til Reykjavíkur um korter í sjö. Einn hlaupafélagi úr Flandra, sem ætlaði 10 km, fékk far með mér og vorum við komin í Lækjargötuna, þar sem hlaupið byrjar og endar, um klukkan átta. Veðrið var frekar grámyglulegt… alskýjað, rigningarúði og svolítill vindur. Ég notaði tímann fram að hlaupi til að fara með jakkann minn í geymslu í MR, hita aðeins upp og heimsækja kamrana.

Hlaupið sjálft

Eftir allt stressið og eftirvæntinguna þá var ákveðinn léttir þegar hlaupinu var loks startað. Ég var búin að ákveða fyrirfram að miða við 7,30 mín/km hraða í byrjun hlaupsins og sjá hversu lengi mér tækist að halda þeim hraða. Ég var líka búin að ákveða að ganga þegar ég myndi taka gel og drekka, en reyna að skokka allt hlaupið að öðru leyti. Ef mér tækist að halda þessum hraða myndi ég ná að klára hlaupið á rétt um 2 klukkutímum og 40 mínútum, sem voru neðri mörkun varðandi hvað ég gerði mér vonir um tímalega séð. Taldi mig nokkuð vissa um að ég næði að klára undir 2 klst. og 50 mín, en allt þar undir væri bónus.

Hraðinn á hlaupinu var svona skv. Garmin:

0-5 km – 36,14 (7,14 mín/km)

5-10 km – 37,21 (7,28 mín/km)

10-15 km – 38,52 (7,46 mín/km)

15-20 km – 40,03 (8,00 mín/km)

20-21,23 km – 8,59 (7,17 mín/km)

Meðalhraði: 7,36 mín/km

Eitthvað virðist ég hafa farið aukakróka í byrjun, kannski þegar þrengslin voru sem mest, þannig að ég var yfirleitt búin með ca 100 metra aukalega í hvert sinn sem ég kom að kílómetramerkingu (þó ég hafi sett Garmininn af stað um leið og ég snerti mottuna), og það skýrir vegalengdina 21,23 km.

En ég sem sagt var ekki langt frá áætluðum meðalhraða, þó að heldur hafi hægst á mér eftir að leið á hlaupið. En ánægð með að mér hafi tekist að hraða aðeins á mér aftur síðasta kílómetrann.

Fyrstu 5 kílómetrarnir voru frekar þægilegir. Eftir 4 km fór ég framúr „maraþonmanninum“ honum Pétri Jóhanni. „Ertu ekki til í að kippa mér bara með“ grínaði hann og ég sagði að ég væri jafnvel að hugsa um að vera bara samferða honum, því þá kæmist ég á svo margar myndir. Sá hann svo ekki meir fyrr en stuttu eftir 15 kílómetra skiltið, þegar hann sigldi fram úr mér og náði í mark tæpri mínútu á undan mér (samt rétt að halda því til hafa að samkvæmt flögutíma var ég nokkrum sekúndum fljótari en maraþonmaðurinn 😉 ).

Á einum stað í hlaupinu, ca eftir 6 km, heyrði ég nafnið mitt kallað: „Áfram Auður, þú getur þetta“. Leit upp og þar var komin kona sem ég kannast við úr Menntaskóla. Var gaman að fá svona hvatningu. Í raun er hvatningin og stemmingin á leiðinni stór hluti af upplifun í Reykjavíkurmaraþoni. Þeir sem stóðu vaktina að þessu sinni í hvatningarhrópum eiga hrós skilið fyrir að láta ekki leiðinlegt veður stoppa sig. Veðrið hafði í raun ekki mikil áhrif á okkur hlauparana… bara gott að hafa smá rigningarúða, en mig grunar að hafi verið heldur kuldalegt fyrir þá sem stóðu á sama stað í 1-2 tíma.

Eftir 7 km fékk ég mér fyrsta gelið og drakk svona tæplega helminginn af vatninu sem ég var með í flöskunum tveimur í vatnsbeltinu (ca 300 ml). Labbaði í ca 30-60 sekúndur á meðan ég var að koma gelinu niður. Ég hafði sleppt því að fá mér vatn á fyrstu drykkjarstöð (eftir 4 km) og stoppaði ekki heldur á drykkjarstöðinni eftir 8 km. Eftir 10 km leið mér enn ljómandi vel og fannst ótrúlegt að millitíminn minn var svipaður og í 10 km hlaupi sem ég tók þátt í fyrr í sumar.

Miðað við bakgrunninn er þessi mynd sennilega tekin ca þegar ég er hálfnuð með hlaupið. Er enn brosandi og í fínu stuði.

Miðað við bakgrunninn er þessi mynd sennilega tekin ca þegar ég er hálfnuð með hlaupið. Er enn brosandi og í fínu stuði.

Þegar ég var komin ca 11,5 km fór ég hins vegar að sjá eftir að hafa ekki fengið mér vatn á síðustu drykkjarstöð. Var farin að þreytast og orðin þyrst. Vildi helst ekki  klára vatnið sem ég bar með mér, því ég ætlaði að nota það fyrir næsta gel. Eftir 12 km tók ég samt stutta göngupásu og drakk 2-3 vatnssopa. Fékk mér svo vel af vatni, eða tvö glös, á drykkjarstöð eftir 13 km. Hressist við það, og líka við það að taka gel númer 2 eftir 14 km. Í raun var það þessi miðkafli sem mér fannst langerfiðastur, svona ca frá 11-15 km, en svo var eins og ég fengi smá aukakraft.

Þegar ég var komin upp brekkuna við Vatnagarða komst ég aftur í góðan takt og skokkaði á sæmilega jöfnum hraða fram að 20 km, með stuttri göngupásu við drykkjarstöð eftir 18 km. Á þessari síðustu drykkjarstöð fékk ég mér 1 vatnsglas og 1 glas af Powerade, en annars hélt ég mig við vatnið á drykkjarstöðvunum. Finnst Powerade hálfgerður ógeðisdrykkur, og stundum fer hann illa í maga, en það var stutt eftir og var gott að fá smá aukaorku síðustu kílómetrana. Hraðaði svo örlítið á mér þegar ég var komin fram hjá 20 km merkinu. Ég hafði nú ekki orku í tilkomumikinn endasprett en var samt í alveg sæmilegu standi þessa síðustu hundruð metra. Við markið stóðu Flandrarar sem höfðu þegar lokið sínu hlaupi vaktina og var sérstaklega gaman að sjá kunnuleg andlit og heyra nafnið sitt kallað á lokametrunum.

Komin í mark. Ekki alveg jafn brosmild og um miðbik hlaupsins enda allt of upptekin við að klára hlaupið til að vera að hugsa um einhverjar myndavélar.

Komin í mark. Ekki alveg jafn brosmild og um miðbik hlaupsins enda allt of upptekin við að klára hlaupið til að vera að hugsa um einhverjar myndavélar.

Garmininn sagði 2.41,31 og klukkan með byssutímanum 2.44,00 – en opinber flögutími var síðan 2.41,30. Fyrsta hálfmaraþoninu lokið og það var góð tilfinning.

Eftir hlaupið

Vá hvað ég var stirð þegar ég kom í mark! Tókst samt að losa af mér flöguna og koma á réttan stað, fékk mér smá vatn og teygði aðeins áður en ég yfirgaf afgirta svæðið. Ég var farin að finna vel fyrir kálfunum síðustu 5 kílómetrana, og eins var kominn smá verkur framan á vinstri sköflungi, en slapp samt betur fer við alla krampa.

Ég hafði lítið fundið fyrir veðrinu á meðan ég var að hlaupa, en kólnaði fljótt. Dreif mig í 10-11 og keypti einn banana og fór síðan og náði í stakkinn minn í geymslunni í MR. Ætlaði svo að reyna að ná að horfa á  Stefán Gíslason, Flandrara, koma í mark í maraþoni, en sá gerði sér lítið fyrir og bætti tímann sinn svo mikið að hann var löngu kominn framhjá þegar ég byrjaði að skima eftir honum.

Eftir hlaupið dreif ég mig í sund í Laugardagslaug, þar sem ég hitti hlaupafélaga úr Flandra. Við vorum eitthvað á bilinu 15-20 manna hópur úr Borgarnesi sem var að hlaupa og var mjög skemmilegt að hittast aðeins á eftir. Fórum svo á kaffihúsið Amokka í Borgartúni og fögnuðum árangrinum. Fékk mér svo að borða með Ásgeiri bróður og var komin heim í Borgarnes um sjö leytið um kvöldið. Var ekkert smá gott að koma heim, kúra sig undir teppi og hvíla lúin bein.

Hugleiðing

Það var virkilega skemmtilegt að taka þátt í þessu hlaupi. En það var skemmtilegt af því að ég var vel undirbúin og búin að stefna að því lengi. Eins og svo margt annað þá skiptir ferðalagið ekki síður máli en áfangastaður, og þá að sé ljúft að koma í mark, þá hefðu allar æfingarnar undanfarna mánuði verið algerlega þess virði þó ég hefði sleppt þessu hlaupi.

Aðal ástæðan fyrir að ég hef náð að halda mig við hlaupin þetta síðasta ár er sú að mér líður vel þegar ég hreyfi mig og mér finnst gott að fara út og skokka, fá smá súrefni í lungun og ná að svitna vel. Það að setja sér markmið sem þessi og taka þátt í almenningshlaupum hjálpar hins vegar heilan helling við það að halda sér við efnið. Og maður býr til fullt af skemmtilegum minningum.

Mér hefur verið það sérstaklega hugleikið síðustu mánuði að hvetja fólk áfram sem langar að byrja að skokka en veigrar sér við að fara af stað því það sé ekki í nógu góðu formi. Finnst að það sé ekki alvöru „hlaup“ nema hlaupa á einhverjum tilteknum hraða , einhverja tiltekna vegalengd ofrv. Sjálf fer ég hægt yfir. Ég hef verið að bæta mig í rólegheitum, en er samt hægari en flestir þeir sem skokka jafn reglulega og ég hef gert síðustu 1-2 árin. Það munar auðvitað um að bera umfram þyngd, en svo erum við líka bara misjöfn, og þurfum mismikið að hafa fyrir hlutunum.

Ég reyni að bera mig sem minnst saman við aðra, heldur einbeita mér bara að því sem ég er að gera. En mér hefur engu að síður fundist hvetjandi að vita af öðrum sem eru á svipuðu reiki og ég. Og það er ein ástæðan fyrir að ég birti þessi skrif hér á blogginu. Sjálfri finnst mér gott að setja þessa frásögn á blað til að festa upplifunina í minnið, en kannski getur hún líka orðið til að hvetja einhvern til dáða sem langar að spreyta sig en er óviss með hvort hlaup séu eitthvað fyrir sig.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Keppni. Bókamerkja beinan tengil.

6var við Fyrsta hálfmaraþonið

 1. Þú ert sko algjör snillingur kæra Auður, og flott hjá þér að klára þetta, ekki síst á svona flottum tíma…þótt ég hafi sko hugsað að ég ætli nú aldrei að fara hálft maraþon þá fær maður nú smá fiðring í hlaupaskóna þegar maður les svona blogg 🙂
  Ég þarf einmitt að taka mig aðeins á og hætta að hugsa um að ég hlaupi hægar en flestir, t.d. í Flandra. Ég hleyp að minnsta kosti hraðar en ég gerði áður 😉

 2. Álfheiður Karlsdóttir sagði:

  Skemmtileg og góð skrif. Það sem ég tók eftir að ferðalagið sjálft sem skiptir ekki síður máli en áfangastaðurinn!! Mikið rétt, við viljum stundum gleyma því. Að njóta stundarinnar og miða við sjálfa sig en ekki aðra. Við erum oft svo upptekin af að bera okkur saman við aðra sem er alrangt. Mér fannst mjög gaman að lesa pistilinn þinn og virkilega hvetjandi fyrir fólk sem hefur áhuga á að byrja að hreyfa sig en hefur ekki haft sig af stað út af ýmsum ástæðum. Aðaltilgangurinn er að líða betur bæði líkamlega og ekki síður andlega, öðlast slökun og vellíðan. Þetta er frábær árangur hjá þér og innilega til hamingu Auður. Þú uppskerð eins og þú sáir 🙂 Snillingur kæra vinkona.

 3. Sigrún sagði:

  Elsku frænka!

  Mér finnst þú ótrúlega dugleg og viðhorf þitt til eftirbreytni. Það er sko ekki hraðinn sem skiptir máli, heldur það að setja sér sín eigin raunhæfu markmið og ná þeim, eins og þú svo sannarlega gerir. Innilega til hamingju með hlaupið þitt, fannst þó leiðinlegt að sjá þig ekki fyrir eða eftir hlaup en við sjáumst bara síðar.

  Kær hlaupakveðja úr Hveragerði
  Sigrún

 4. Maj-Britt sagði:

  Magnað Auður, alveg magnað !

 5. Marín Hrafnsdóttir sagði:

  Skemmtileg frásögn og svei mér þá ef ég fer ekki bara að þora!

 6. Jónína Pálsdóttir sagði:

  Glæsilegt hjá þér 🙂 Gaman og fróðlegt að lesa þennan pistil – takk.
  Til hamingju með áfangann.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s