Ég hafði ætlað að hlaupa 14,2 km í þessu hlaupi (allan Hreppslaugarhringinn) en ákvað að breyta í 7 km í ljósi álagsmeiðslanna í fjallgöngunni tíu dögum fyrr. Vildi ekki taka neina áhættu fyrir hálfmaraþonið þann 24. ágúst. Hlaupið gekk ágætlega, ég hljóp á 48,43 – eða um 70 sekúndum hraðar en í Icelandair hlaupinu sem var líka 7 km. Og mér leið ljómandi vel á eftir.
Hér er markmynd sem Sigga Júlla tók:

Komin í mark. Hlaupið byrjaði og endaði á næstum kílómetra langri brekku. Var erfitt í byrjun hlaups en ljúft í lokin.
Mynd: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir
Ég var alveg ákveðin í að pína mig ekki í þessu hlaupi, því ég vildi ekki hætta á neitt. Var líka ágætt að vera ekki að pressa á sjálfa sig upp brekkuna í byrjun. Ég hélt aðeins aftur af mér fram að snúningspunkti… var svo alltaf að bíða eftir að ég myndi fara þreytast og þyrfti að hægja á mér, en kannski af því ég fór ekki of hratt í upphafi, þá náði ég að halda nokkuð jöfnum hraða allt hlaupið. Held ég hafi verið örlítið fljótari með síðari hlutann en þann fyrri. Eitthvað til að hafa í huga um næstu helgi… að passa sig á því að fara ekki of hratt í upphafi heldur stilla sig af þannig að takist að halda sem jöfunustum hraða. Finn að upplifunin verður mun ánægjulegri þannig.
Það er Ungmennafélagið Íslendingur sem stendur fyrir þessu hlaupi og er þetta er í fyrsta sinn sem það er haldið. Þrjár vegalengdir voru í boði: 14,2 km, 7 km og 3 km. Samtals voru rúmlega fjörutíu hlauparar sem tóku þátt og var bara fínasta stemmning. Skýjað og smá rigningarúði af og til, en lítill vindur (sem sagt frábært hlaupaveður).
Eftir hlaupið dreif ég mig í sund, og jafnvel þó ég búi svo stutt frá, þá er þetta í fyrsta sinn sem ég fer í Hreppslaugina (en örugglega ekki það síðasta). Verðlaunaafhengin fór fram við sundlaugarbakkann og svo var hægt að kaupa sér bragðgóða og saðsama súpu á eftir.
Hér er ein pottamynd sem ég hnuplaði af facebook og vona að mér sé fyrirgefið lánið á myndinni:
Þetta var hið skemmtilegasta hlaup og vel heppnað. Spái því að Hreppslaugarhlaupið sé komið til að vera.
Í dag (laugardag) fór ég svo rólega 8 km. Stefni á 1-2 róleg 3-5 km hlaup í fyrri hluta vikunnar en svo algera hvíld á fimmtudag og föstudag. Aðal hlaupamarkmið sumarsins er svo næsta laugardag, eftir ákkúrat viku.