Lónsöræfi

Ég er nýkomin heim úr 3ja daga göngu um Lónsöræfi.Krefjandi ganga í frekar leiðinlegu veðri (vindur og heldur kalt, en að mestu þurrt). En náttúran var dásamlega falleg og félagsskapurinn góður, þannig að ég er alsæl með ferðina.

Þessi mynd er tekin við Tröllakróka (dagleið 2 úr Egilsseli í Múlaskála). Magnað landslag.

Þessi mynd er tekin við Tröllakróka (dagleið 2 úr Egilsseli í Múlaskála). Magnað landslag.

Ég hef einu sinni áður komið á þetta svæði, árið 2001. Þá gekk ég ásamt góðum hópi úr Snæfelli yfir í Geldingafell á degi eitt, síðan í Egilssel og enduðum í Múlaskála í Lónsöræfum.

Í þetta sinn var önnur leið farin… við byrjuðum í Geithellnadal og gengum að Egilsseli (með stoppi í Víðidal), síðan úr Egilsseli og í Múlaskála (sömu leið og ég fór 12 árum fyrr) og síðasta daginn var farið úr Múlaskála, upp Illakamb, og síðan meðfram gljúfrum að Stafafelli. Sú dagleið var í raun ekki möguleiki þegar ég var þarna áður, þar sem göngubrú yfir stærstu ána (sem er ein lengsta göngubrú landsins) var ekki sett upp nema fyrir nokkrum árum. Ég mæli hins vegar eindregið með þeirri leið…. reyndar talsvert erfið, mikið upp og niður í giljunum, en þó lítið klöngur og leiðin er ágætlega stikuð. Og sérstaklega falleg. Það blasti við nýtt útsýni á hverri hæð sem klifin var (og þær voru nokkuð margar).

Göngubrú við Eskifell nálægt Stafafelli í Lóni. Ein lengsta göngubrú landsins.

Göngubrú við Eskifell nálægt Stafafelli í Lóni. Ein lengsta göngubrú landsins.

Ég hef farið í einar 7-8 göngur síðustu 15 árin þar sem gengið er í 3-5 daga í röð, oft með byrðar á bakinu. Þetta er skemmtileg leið til að kynnast landinu og góð og krefjandi hreyfing. Yfirleitt er ég óskaplega ánægð með mig að göngu lokinni. En fyrir gönguna get ég verið alveg svakalega stressuð, og oft líka fyrri hluta göngunnar á meðan ég er að átta mig á aðstæðum. Það er svo margt sem erfitt er að hafa stjórn á: Hvernig verður veðrið? Hvernig mun hópurinn virka? Verður gangan of erfið líkamlega? Hvað ef eitthvað kemur upp á? Hvernig er best að skipuleggja nestismál?

Sem sagt alls konar spurningar sem eru annars vegar viðfangsefni sem þarf bara að leysa úr (t.d. nestið), og hins vegar ýmislegt sem er í raun ekki hægt að hafa áhrif og því þarf bara að temja sér æðruleysi gagnvart því og vera viðbúin (t.d. ef kemur vont veður eða ef maður lendir í óvæntum aðstæðum).

Það var ýmislegt sem kom upp á í þessari göngu.Veðrið var t.d. frekar leiðinlegt alla leiðina, strekkingsvindur og hálf kalt. Einhver rigning, en hélst nú samt þurrt að mestu, og var sæmilegt skyggni þrátt fyrir að væri skýjað. Ég gekk í göngupeysu, flíspeysu og regnskel eiginlega allan tímann og var oftast líka með húfu og vettlinga. Ekkert stuttbuxna- eða peysuveður.

Við lentum líka í vandræðum með að vaða Víðidalsá, þar sem var talsvert mikið í ánni, og fyrsta tilraun til að finna rétta vaðið gekk ekki nógu vel. Ein úr hópnum missti jafnvægið og datt í ánni. Hún komst með herkjum aftur upp á bakkann, rennblaut og köld. Mér varð svo mikið um að ég var komin á þá skoðun að ganga frekar auka 12 kílómetra (við vorum þegar búin að ganga 10 klukkutíma þennan dag) og komast þannig yfir auðveldara vað. Það tókst loks að sannfæra mig um að drífa mig yfir ána þegar betra vað fannst 100-200 metrum neðar í ánni, og tveir karlmenn buðust til að bæði taka pokinn minn og leiða mig á milli sín.

Almennt leið mér nokkuð vel líkamlega í göngunni, þ.e.a.s. mér fannst ég ráða við hana. Ég fór í göngu á Hornstrandir í fyrra og ég fann mun á því að þolið var heldur meira núna. Ég var líka fljótari að jafna mig, þannig að þó ég væri t.d. þreytt eftir fyrsta daginn (sem var langur dagur, eða um 11 tímar á göngu), þá var ég í ágætu stuði daginn eftir til að fara að ganga.

Síðasta daginn gekk líka vel framan af, en um miðjan dag fór ég að finna fyrir seiðingi framan á mjöðminni, hægra megin, í vöðvafestingum sem reynir á þegar fætinum er lyft upp þegar gengið er upp brekkur. Þetta var löng dagleið, um 22 kílómetrar, og þegar um 6-7 km voru eftir versnaði verkurinn til muna. Ég fann ekki til ef ég gekk á jafnsléttu eða niður brekkur, en fann mikinn verk þegar ég fór upp á móti, eða ef ég gekk á ójöfnu undirlagi. Af og til kom síðan sár stingur, eins og hnífsblaði væri stungið í fótinn. Þessir stingir komu mjög snöggt og óvænt en hættu strax og ég tók álagið af fætinum. Ég reyndi að beita vinstri fætinum meira upp brekkur og draga hinn hálfgert á eftir mér. En svo kom brekka sem var ekki mjög löng, en talsvert brött og grýtt. Og þá varð ég að beita báðum fótum fyrir mig til að komast upp. Sársaukinn var frekar mikill en ég harkaði af mér og komst upp brekkuna. En þegar ég kom upp og ein vinkona mín fór að tala við mig kom ég ekki upp nokkru orði. Þegar ég reyndi að segja eitthvað leið mér eins og ég væri að missa andann og í stað orða kom kökkur í hálsinn og ekkasog. Úff… þetta var frekar erfitt. En göngufélagarnir voru þvílíkt hjálpsamir og skilningsríkir. Einn tók pokann minn, annar rétti mér verkjartöflu, sá þriðji smá orku í formi þrúgusykurs og svo voru nokkrir sem fylgdu mér síðustu kílómetrana og létu það ekkert fara í taugarnar á sér þó ég tefði fyrir hópnum á lokasprettinum (það vor allir orðnir frekar spennir að fara í sund á þessum tímapunkti og ekkert mjög langt í að sundlaugin myndi loka).

Það sem er mér efst í huga eftir þessa göngu er hversu skemmtileg hún var þrátt fyrir þær áskoranir sem þurfti að takast á við. Ég virkilega naut þess að ganga um í fallegri náttúru, þrátt fyrir að veðrið væri ekki upp á sitt besta. Og það var svo miklu auðveldara að takast á við óttann við að vaða og sársaukann vegna verksins í mjöðminni vegna þess hve hópurinn var þéttur og stóð vel saman.

Ég gat lítið beitt fætinum um kvöldið og var t.d. í vandræðum að klæða mig úr og í sokka, en næsta morgun, eftir góðan nætursvefn, fann ég ekki fyrir neinu. Frekar skrýtið. Ætla samt að taka því rólega næstu daga og hvíla svolítið áður en ég tékka hvernig gengur að skokka og hvort ég finn eitthvað fyrir því þá. Hálfmaraþon eftir rúmar tvær vikur, þannig að ég vona að þetta hafi engin eftirköst.

Ég segi frá gönguferðinni eingöngu eins og ég upplifði hana. Finnst það ekki mitt að segja sögu annarra í ferðinni enda opið blogg sem allir geta lesið. En mér fannst frásögnin eiga heima hér á þessari vefsíðu, því markmiðið með henni er að greina frá ferðalagi í átt að betri lífsstíl, bæði frá þeim hindrunum sem verða á vegi, en einnig að deila þegar vel gengur. Og vonandi hvetja einhverja áfram. Það er ekki sjálfsagt mál að hafa heilsu til að taka þátt í gönguferð sem þessari. Og ég efast um að ég hefði treyst mér með ef ég hefði ekki tekið hreyfingu föstum tökum síðustu 1-2 árin og skokkað og hreyft mig reglulega allan ársins hring. Góð heilsa, þol og styrkur opnar fyrir möguleikann á ýmis konar reynslu og upplifunum sem ég annars færi á mis við. Ég hefði svo sannarlega ekki viljað missa af þessum dögum í Lónsöræfum.

 

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Ferðalög, Fjallgöngur, Hreyfing. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s