Í júlí skokkaði ég samtals 104,3 km. Ég fór líka nokkrum sinnum í sund og synti 500-750 metra í hvert sinn, nokkrum sinnum í jóga (45 mín eða lengur) og í eins dags fjallgöngu úr Lundareykjadal yfir í Skorradal, sem var dagur 2 í svokallaðri Pílagrímagöngu. Þetta var sem sagt góður mánuður hvað hreyfingu varðar, enda sumarfrí og því meiri tími til að gera það sem mann langar til 🙂
Jógaiðkun er tilkomin vegna námskeiðs sem ég skráði mig í á netinu sem hjálpar til við að gera jógaiðkun að venju heima við (án þess að fara endilega í sérstaka jógatíma, sem er hentugt fyrir konu eins og mig, sem er frekar mikið á ferðinni og á því erfitt með að sækja fasta tíma). Hér er hægt að finna upplýsingar um námskeiðið, en konan sem kennir er frá Nýja Sjálandi. Þetta er mjög skemmtilegt. Ég fæ tölvupóst á hverjum degi, hljóðfyrirlestur einu sinni í viku og svo er vídeó af æfingu sem ég valdi mér sérstaklega út frá því hvaða markmiðum ég vildi ná með jógaiðkun þar sem ég get lært æfingar sem henta miðað við hver markmiðin eru.