Fjallaskokk yfir Bíldsárskarð

Bíldsárskarð er er gönguleið sem á sér sögu í föðurfjölskyldunni minni. Þarna hafa margir gengið, og sjálf fór ég fyrst yfir skarðið sex ára gömul. Árið 2009 stóðu þær frænkur mínar Sigga og Drífa fyrir minningargöngu um pabba sinn, Jón Dalmann (hann hefði orðið áttræður það ár). Nokkrar gönguleiðir voru í boði, sem allar enduðu í Reykjalundi, sumarbústað þeirra í Fnjóskadal. Sú leið sem flestir gengu var yfir Bíldsárskarð, og síðan er þetta orðið að venju, að á hverju sumri bjóða þær til veislu í Reykjalundi og geta gestir valið hvort þeir koma gangandi yfir skarðið eða í bíl. Ég tók þátt í göngunni 2009 og aftur í fyrra (2012). Samtals hef ég sjálfsagt gengið yfir Bíldsárskarð 5-6 sinnum.

Í gær var svo hin árlega Reykjalundaveisla og ég ákvað að nota þessa göngu sem smá æfingu, og blanda saman fjallgöngu og skokki. Fór þess vegna í hlaupafötunum og í utanvega strigaskóm (í stað þess að vera í gönguskóm). Tók heldur ekkert nesti með mér, heldur tvö gel + nóg af vatni.

Í upphafi göngunnar. Skarðið sést vel á bak við mig.

Í upphafi göngunnar. Skarðið sést vel á bak við mig.

Samtals voru sennilega ca. tuttugu manns sem fóru yfir skarðið á leið sinni í veisluna, bæði börn og fullorðnir.

Hópurinn sem gekk yfir skarðið. Á myndina vantar nokkra sem ekki voru komnir á staðinn þegar myndatakan fór fram.

Hópurinn sem gekk yfir skarðið. Á myndina vantar nokkra sem ekki voru komnir á staðinn þegar myndatakan fór fram.

Ég fylgdi hópnum til að byrja með, á meðan við vorum að ganga upp fyrstu brekkurnar og fórum yfir ána. Síðan hélt ég ein áfram þar sem ég ætlaði aðeins hraðar yfir en göngufólkið. Ég gekk rösklega, en byrjaði þó ekkert að skokka fyrr en ég var komin upp mesta brattann (eftir ca klukkutima göngu). Það var greinilegt á umhverfinu að mikill snjór hafði verið um veturinn. Enn voru skaflar hér og  þar, sem er óvenjulegt á þessum árstíma, lækir voru vatnsmiklir og efst á heiðinni var gróður lítið farinn að lifna við.

Snjóskaflar voru algeng sjón efst í skarðinu.

Snjóskaflar voru algeng sjón efst í skarðinu.

Mér fannst aðeins erfitt að breyta úr göngutakti yfir í skokk, enda þreytt eftir að ganga upp brekkurnar, en um leið og ég var komin í taktinn þá var þetta mjög fín leið til að skokka. Hægt að fylgja stígnum að mestu, þar sem undirlagið er mjúkt. Á stöku stað var þó það mikil drulla að betra var að fara út af stígnum og ganga á nærliggjandi þúfum. Um það leyti sem ég fór að sjá yfir í Fnjóskárdal kom ég að læk sem var það vatnsmikill að hann var eiginlega frekar á. Ég sá ekki fram á að komast yfir nema vaða og gegnbleyta þá skóna. Var reyndar að hugsa um að gera það bara… nota tækifærið og prófa hvernig er að skokka í blautum skóm 😉 En svo sá ég snjóbrú yfir ána aðeins neðar. Var með smá í maganum yfir hvort snjóbrúin myndi halda. Ef ekki, þá var fossandi áin fyrir neðan, og mig langaði ekki  mikið að detta þarna niður. En mér sýndist snjóbrúin vel þykk og traust og lét vaða. Það var ekkert mál, en ég viðurkenni að adrenalínið skaust upp við að hlaupa þarna yfir, verandi ekki alveg viss hvort snjórinn væri nógu þykkur. Ákvað að hringja í Siggu þegar ég var komin yfir og láta vita af því að snjóbrúin væri vel traust, þannig að þau gætu nýtt sér hana þegar þau kæmu þarna að á eftir mér.

Séð yfir Fnjóskárdal, rétt áður en ég kom að læknum/ánni þar sem ég fór yfir á snjóbrúnni.

Séð yfir Fnjóskárdal, rétt áður en ég kom að læknum/ánni þar sem ég fór yfir á snjóbrúnni.

Þó ég hafi sloppið við að gegnbleyta skóna með því að vaða yfir ána, þá blotnuðu þeir nokkru sinnum þegar ég var að stikla yfir læki eða í drullu eða mýri. En það loftaði það vel um þá að þeir voru fljótir að þorna aftur og þetta truflaði mig ekki neitt. Ég var að hlaupa á nýjum utanvegaskóm (Brooks, Cascadia – sem ég keypti í verslunni Tri í Reykjavík) og ég var mjög ánægð með skóna.

Frekar snemma á niðurleiðinni sá ég mann koma á móti. Sá var á hjóli og við komust að því seinna að hann var að fara á móti vini sínum sem skokkaði yfir skarðið alla leið frá heimili sínu á Akureyri.

Ég skokkaði að mestu alla niðurleiðina, nema þegar ég þurfti yfir læki eða upp á þúfur til að forðast drullupytti. Þýðir nú samt ekki að ég hafi farið mjög hratt, en þó eitthvað hraðar en ég ég hefði gengið rösklega. Mamma og pabbi ætluðu að leggja við Fjósatungu og rölta á móti göngufólki. Þegar ég sá í Fjósatungu tímdi ég ekki að fara þar niður. Framundan var mjúkur og freistandi moldarstígur, og ég var enn í góðu stuði, þannig að ég ákvað að taka frekar stíginn og fara lengri leiðina í átt að Kotungsstöðum (leiðin úr Fífilgerði og að Fjósatungu er ca 9,5 km, en um 11,5 km í Kotungsstaði). Á leiðinni hringdi ég í pabba og komst að því að þau voru ekki enn komin að Fjósatungu. Þannig að ég bað þau um að hitta mig við veginn þar sem ég myndi koma niður. Það passaði að þegar ég var rétt komin niður á aðalvegin þá komu þau keyrandi á móti mér. Ég var tæplega þrjá tíma á leiðinni (2 klst og 52 mín), en venjulega hef ég verið rúmlega fjóra tíma að ganga þetta (þá með nestispásum og öðrum pásum).

Ég stakk upp á að við myndum bíða nálægt þeim stað þar sem ég kom niður, þar sem ég átti von á að göngufólki kæmi frekar þar niður (sem var raunin, flestir skiluðu sér eftir stígnum). Borðaði nesti með pabba, mömmu og Viktori á meðan við biðum eftir hópnum. Mér leið fínt á leiðinni með því að taka gel á ca klukkutíma fresti og drekka nóg vatn, en ég var samt orðin svolítið svöng þegar ég kom niður, þannig að banani, Hámarksdrykkur með bláberjabragði og samloka smakkaðist einstaklega vel á þessum tímapunkti.

Göngufólkið fór svo að tínast niður, eitt af öðru. Þeir fyrstu um hálftíma eftir að ég var komin og eftir um fjóra tíma voru allir búnir að skila sér niður. Ég gekk með Viktori á móti fólkinu þegar það var að koma niður. Hann var mjög glaður að hitta systkini sín, mömmu og Siggu sína.

Í Reykjalundi beið nýgrillað lamb og meðlæti. Ekki slæmur endir á frábærri göngu :-)

Í Reykjalundi beið nýgrillað lamb og meðlæti. Ekki slæmur endir á frábærri göngu 🙂

Eftir gönguna fórum við öll í Reykjalund þar sem við gæddum okkur á nýgrilluðu lambi sem Zoran hafði grillað á teini á meðan við vorum að ganga yfir skarðið. Eins og fyrri ár var þetta hin fínasta veisla og margir góðir gestir (bæði göngufólkið og aðrir sem höfðu komið keyrandi). Frábær dagur 🙂

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Fjallgöngur, Hlaup. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s