Hamingjuhlaup á Hólmavík

Hamingjuhlaupið á Hólmavík stóð algjörlega undir nafni. Hljóp 15 km og var glöð og sæl allan tímann. Ekki frá því nema hamingjan hafi vaxið eftir því sem kílómetrunum fjölgaði, og virtist þreytan sem fylgdi ekki draga neitt úr þessari gleðitilfinningu.

Þetta var sem sagt alveg svakalega gaman. Dásamlegt veður, fallegt umhverfi, skemmtilegir hlaupafélagar og ég var í ágætu stuði. Leið vel þegar ég lagði af stað, og sú tilfinning hélst út allt hlaupið. Var aldrei það þreytt að mig langaði að stoppa, þó auðvitað hafi ég verið farin að finna fyrir þreytu undir lokin.

Fyrir hlaupið

Hamingjuhlaupið bar upp á fyrsta dag í sumarfríi. Dagana fyrir frí hafði verið nokkuð mikið að gera. Sá um ráðstefnu í vinnunni á fimmtudegi og fundarhöld í framhaldi. Ármann bróðir kom frá Kanada á fimmtudegi og gisti í tvær nætur. Mamma og pabbi komu á Suðvesturhornið til að ná í hann. Þau fóru síðan á skátamót en Ármann varð eftir hjá mér og aðstoðaði við tímatöku og framkvæmd við Brákarhlaup á laugardagsmorgni, og kom svo með á Hólmavík síðar um daginn og hljóp með mér. Við lögðum af stað úr Borgarnesi kl. 14.30 og vorum komin ca. tveimur tímum síðar. Veðrið á Hólmavík var gott, 9-10°C hiti, svolítil gola og næstum heiðskírt. Fengum okkur að borða á útiborði á grasflöt í miðbænum. Ég fékk mér eina samloku með osti og smá kjúklingasalati og einn banana. Drakk ca 1/2 líter af sódavatni rétt á undan. Svo fórum við í sundlaugina og skiptum um föt og lögðum svo af stað á upphafsstaðinn, þar sem við ætluðum að byrja hlaupið.

Sjálft hlaupið

Í hamingjuhlaupi hleypur hver eins langt og hann vill, en allt hlaupið var að þessu sinni 53 km (sjá upplýsingar um hlaupið hér). Ekki er um tímatökuhlaup að ræða, heldur hleypur hver á sínum hraða en allir hlauparar koma saman í mark. Við Ármann ákváðum að hlaupa síðustu 15 kílómetrana og lögðum því af stað frá Bólstað.

Gamla brúin við Bólstað. Upphafsstaðurinn hjá okkur í hlaupinu. Þeir sem fóru alla 53 kílómetrana voru að koma niður af heiðinni þegar við mættum.

Gamla brúin við Bólstað. Upphafsstaðurinn hjá okkur í hlaupinu. Þeir sem fóru alla 53 kílómetrana voru að koma niður af heiðinni þegar við mættum.

Samkvæmt dagsrká hlaupsins átti að leggja af stað frá Bólstað kl. 18.00 og allir hauparar áttu að koma saman að sviðinu á Hólmavík kl. 19.50. Þar sem ég vissi að ég væri hægari en flestir hlaupararnir ætlaði ég að leggja af stað ca 17:45, en þegar við mættum á staðinn hittum við Siggu Júllu, sem sagði okkur frá því að búið væri að seinka því hvenær hlauparar ættu að vera mættir um 25 mínútur… þannig að við þurftum ekki að vera komin til Hólmavíkur fyrr en 20:15. Þannig að við ákváðum að leggja af stað kl. 18.00, rétt í þann mund sem hinir hlaupararnir voru að koma niður af heiðinni (þeir tóku sér smá pásu áður en þeir héldu áfram).

Við Ármann bróðir, á gömlu brúnni, rétt áður en við lögðum af stað.

Við Ármann bróðir, á gömlu brúnni, rétt áður en við lögðum af stað.

Við lögðum þrjú af stað á sama tíma, ég og Ármann og Sigga Júlla. Hún var þegar búin að hlaupa rúmlega 10 km, en hún og Haukur skiptust á að hlaupa alla hlaupaleiðina. Leiðin eftir malarveginum og að Staðará var mjög falleg, en þessi bútur var viðbót miðað við það sem ég fór í fyrra, þegar ég byrjaði hlaupið við Staðará. Fórum svo áfram eftir aðalveginum og upp á Fellabök. Hinir hlaupararnir náðu okkur flestir þegar við vorum á leið upp brekkuna. Það voru líka sífellt að bætast hlauparar við í hópinn. Ég stoppaði í 1-2 mínútur efst á hæðinni en svo héldum við áfram þar til voru bara nokkur hundruð metrar eftir að sviðinu þar sem hlaupið endaði. Þar var beðið eftir okkur sem höfðum dregist aðeins aftur úr. Við Ármann hlupum að mestu samsíða allt hlaupið og síðustu 2-3 kílómetrana fórum við að leika okkur að því að telja stikur til að stytta okkur stundir. Það hafði einhver ótrúlega róandi áhrif og mér leið eins og í hálfgerðum trans þennan síðasta hluta hlaupsins.

Við þurftum svo að bíða í 15-20 mínútur þar sem við stoppuðum, þar til var kominn rétti tíminn til að hlaupa í mark. Það var lítið mál, því veðrið var gott og við nýttum tímann í myndatökur og til að teygja á þreyttum vöðvum. Ég tók eitt gel á  leiðinni og drakk sennilega tæpan lítra af vatni (úr 200 ml brúsunum tveimur í vatnsbeltinu, og úr flöskunni sem ég hélt á, sem var ca 0,5 lítrar). Það dugði ágætlega.

Hér erum við búin með 14,5 km og bara eftir hálfur kílómetri í mark. Þarna biðum við í góða stund áður en hlaupið var klára.

Hér erum við búin með 14,5 km og bara eftir hálfur kílómetri í mark. Þarna biðum við í góða stund áður en hlaupið var klárað.

Um 20:10 kom grænt ljós á að hlauparar kæmu í mark, þannig að við skokkuðum saman þessa nokkur hundruð metra sem eftir voru að sviðinu, sem var staðsett við félagsheimilið (rétt hjá sundlauginni). Þar var samankominn mikill mannfjöldi sem klappaði fyrir hlaupaafólkinu. Mikil stemmnig og skemmtilegt.

Eftir hlaupið

Við drifum okkur í sturtu og pottinn í sundlauginni rétt eftir að við komum í mark. Það var alveg dásamlegt. Vorum búin rúmlega níu og þegar við komum út aftur var kökuhlaðborðið tilbúið og við fórum í röðina. Gæddum okkur á dýrindis kökum í boði gjafmildra Hólmvíkinga og vorum síðan svo heppin að Björk hans Stefáns bauð okkur í frábæra matarveislu, með lambakjöti og tilheyrandi, strax á eftir. Frábær endir og sérlega skemmtilegum degi.

Fengum svo far til að ná í bíllinn og keyrðum aftur í Borgarnes, og vorum komin heim ca tvö um nóttina. Það var notalegt að skríða í bólið eftir þennan viðburðarríka dag.

Allur hópurinn saman á "pásustað" nokkur hundrað metra frá markinu.

Allur hópurinn saman á „pásustað“ nokkur hundrað metra frá markinu. Björk Jóhannsdóttir tók þessa mynd.

 

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s