Icelandair hlaupið og hálsbólga

Síðasta fimmtudag tók ég þátt í Icelandair hlaupinu, sem er 7 kílómetrar. Við vorum fjögur í Flandra sem tókum þátt, en alls voru 351 sem luku hlaupinu. Þetta er árlegt hlaup, var haldið núna í 19. sinn, og hlaupaleiðin er í kring um flugvallasvæðið, sæmilega slétt leið og þægileg að hlaupa.

Mig langaði í þetta hlaup því mér fannst tilvalið að taka eitt hlaup með vegalengd á milli 5 km og 10 km. Er auðvitað búin að taka þátt í Flandrasprettunum í vetur, og stefni á eitt eða tvö 10 km hlaup í júní/júlí sem lið í undirbúningi fyrir hálfmaraþonið. Þannig að þetta hlaup passaði vel inn í áætlunina.

Áætlanir eru eitt, en hitt er hvernig til tekst að fylgja þeim eftir. Ég hef verið að berjast við hálsbólgu síðustu tvær vikurnar en hef neitað að láta hana leggja mig að velli. Þjösnaðist áfram í vinnunni og mætti á allar hlaupaæfingar. Hélt alltaf að ég væri „alveg að komast yfir þetta“. Um síðustu helgi fannst mér ég alveg búin að ná þessu úr  mér en á miðvikudagsmorgun, 1. maí, vaknaði ég aftur með særindi í hálsi. Þar sem þetta var frídagur tók ég því rólega, svaf mikið þennan dag, og á fimmtdag þegar ég vakanði fann ég ekki fyrir neinu. Átti svo ágætis dag í borginni, fór á fund um morguninn, og fann mér svo notalegt kaffihús eftir hádegi þar sem ég fékk loks frið til að lesa nokkrar ritgerðir sem ég er prófdómari í. Mætti á hlaupastað upp úr sex og var ágætlega upplögð. Hitti þrjá Flandrafélaga sem komu saman úr Borgarnesi.

Við vorum fjögur úr Flandra sem tólkum þátt í hlaupinu. Hér erum við fyrir hlaupið (Stefán, Haukur, Hrafnhildur og ég)

Við vorum fjögur úr Flandra sem tólkum þátt í hlaupinu. Hér erum við fyrir hlaupið (Stefán, Haukur, Hrafnhildur og ég)

Veðrið var ekkert sérstakt þegar við fórum af stað; 2-3°C hiti, hálf rigningarlegt og svolítill vindur. En þetta var svo sem ekki slæmt hlaupaveður og rigndi lítið sem ekkert þennan tíma sem hlaupið stóð yfir. Ég hljóp af stað á sæmilegum hraða, og þurfti að passa mig aðeins að fara ekki of hratt yfir fyrstu 2 kílómetranna. Ég tók tímann á 2ja kílómetra fresti og var hröðust þá fyrstu, og hægði svo smám saman á mér og hægust síðasta kílómeterinn. Greinilega eitthvað til að æfa sig í, að halda passlegum hraða út hlaup. En mér leið hins vegar vel allt hlaupið og fannst mjög gaman. Um miðbik hlaupsins, ca 3-5,5 km, leið mér bara alveg mjög vel og fannst ég varla finna fyrir þreytu í fótunum. Svo kom aðeins þreyta í lokin, sérstaklega því þá var bæði mótvindur og aðeins upp á móti. En í heildina gekk þetta bara vel, og ég kom í mark á 49 mín og 53 sek, sem ég var bara ánægð með.

Þessi mynd er tekin þegar ca 2 kílómetrar eru búnir af hlaupinu. Keypti hana hjá vefnum hlaup.is

Þessi mynd er tekin þegar ca 2 kílómetrar eru búnir af hlaupinu. Keypti hana hjá vefnum hlaup.is

Ætlaði mér ekki að pína mig í þessu hlaupi, m.a. vegna þess að ég var búin að vera að glíma við þessa hálsbólgu, og ekki náð að hlaupa alveg þær vegalengdir sem ég hafði ætlað mér vikurnar á undan. Var samt að vonast til að mér tækist að vera undir 50 mínútum, og því mjög sátt með að það hafi tekist, og sérstaklega að það hafi tekist án þess að ég hefði verið að pína mig mikið, heldur hlaupið á sæmilega þægilegum hraða fyrir mig.

Mér leið mjög vel eftir hlaupið og fann varla fyrir þreytu. Keyrði heim, og enn var ég í góðu standi og ekkert þreytt. Ég var alltaf að bíða eftir þreytunni sem hellist yfirleitt yfir mig eftir svona hraðari hlaup. Svona góð þreyta þar sem ég finn vel fyrir því í fótunum að ég hafi verið að reyna á mig, og næ svo yfirleitt góðum og djúpum svefni í kjölfarið. En það gerðist aldrei. Ég fann aldrei þessa þreytu í löppunum, og það sem meira var, ég fann bara ekki fyrir neinni þreytu. Var upptjúnuð og gat ekki sofnað. Það var sama hvað ég reyndi að slaka á…. ekkert gekk, og sennilega náði ég ekki nema 2-3 tíma svefni þessa nótt. Sem þýddi að á föstudagsmorgni var ég þvæld og þreytt. Sem var ekki alveg eins og ég hafði planað það…..

Á föstudag og laugardag ætlaði ég nefnilega að vera á ráðstefnu. Ég mætti á ráðstefnuna, og var svo sem í sæmilegu standi á föstudegi, þó ég væri heldur þreytt. Hafði bókað mér herbergi á Bifröst, lagði mig milli 17 og 19, og tók svo þátt í sameiginlegum kvöldverði. Fékk mér þrjú hvítvínsglös um kvöldið, spjallaði við skemmtilegt fólk, en var komin aftur upp á herbergi um miðnætti. Sofnaði strax, en vaknaði sennilega í kring um þrjú eða fjögur og fann strax að ég var eitthvað skrýtin. Hálsbólgan var komin aftur og af tvöföldu afli. Þegar ég fór á fætur um sjö leytið var nokkuð ljóst að ég yrði til lítils gagns þann daginn. Kom ekki upp nokkru hljóði. Gat í mesta lagið hvíslað. Ég þurfti því að sleppa síðari ráðstefnudeginum sem var einmitt dagurinn sem ég átti að vera með minn fyrirlestur.

Ég veit ekki hvort það að hafa ekki tekið pásu í hlaupunum hafi komið í veg fyrir að ég hafi náð að hrista þessa hálsbólgu af mér. Ég held ekki… held það hafi frekar haft með það að gera að ég gaf mér ekki neinn afslátt hvað varðar vinnunna og hef verið að keyra mig áfram í stað þess að slaka aðeins á. Og þó… kannski er það blanda af þessu tvennu. Með öðrum orðum, ég neitaði að hægja á mér og slaka aðeins á. Þar til líkaminn sagði: Stopp!

Helgin hefur sem sagt farið í það að liggja og hvíla mig, sofa mikið og bara að „hangsa“. Er hundslöpp og bara það að skrifa þennan pistil er full mikil áreynsla. Hef þurft að taka nokkrar pásur á meðan ég hef verið að skrifa þetta og hvíla mig. Og ég er enn algjörlega raddlaus. Hefði aldrei trúað því að óreyndu hvað það er skrýtið… að geta ekki tjáð sig… geta ekki hringt í neinn…. því það kemur ekkert hljóð þegar maður reynir að tala. Kannski þess vegna sem ég finn þessa þörf að blogga núna. Að nota skrifin til að tjá mig, þar sem röddinn er í verkfalli?

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Veikindi. Bókamerkja beinan tengil.

2var við Icelandair hlaupið og hálsbólga

  1. Ertu ekki búin að prófa öll hálsbólgutrixin í bókinni? Eins og t.d. að sjóða saman sítrónu og engifer, síðan er ekki verra að bæta smá hunangi út í, veit ekki hvort þetta virkar en þetta er gott 😉 Taktu því rólega.

  2. Jú, te með hunangi, fjallagrasaseiði, hálstöflur og annað sem mer hefur dottið i hug. Ætli það se ekki með þetta eins og ýmislegt annað: þolinmæði og skynsemi 😉

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s