Skiptir máli hvað maður hugsar?

Í gær tók ég þátt í Flandraspretti númer 5, sem jafnframt var þriðji „Spretturinn“ sem ég tek þátt í nú í vetur. Ég var með tímann 34,37, sem er ágæt bæting síðan í janúar (þá var ég á tímanum 35,20 og í desember hljóp ég sömu vegalengd á 35,57). Enn á ég þó eftir að slá tímann síðan í lok ágúst 2012, þegar ég var 33,56, en eitt af markmiðunum fyrir árið 2013 var að bæta þann tíma í 5 km. Stefni á það í sjötta og síðasta Flandraspretti vetrarins sem verður þann 21. mars 🙂

Hlaupið í gær var mjög skemmtilegt, góð þátttaka og létt andrúmsloft. Gaman að sjá þegar fólk gerir sér ferð til að mæta í hlaupið, og skemmtir sér það vel að það mætir aftur næst. Í gær var talsvert af fólki úr Reykjavík, og einnig úr Hólmavík, fyrir utan hópinn sem býr hér á svæðinu í Borgarnesi og nærsveitum. Samtals voru 33 sem hlupu og að þessu sinni voru heldur fleiri sem voru á svipuðu reiki og ég hvað hraða varðar. Með öðrum orðum, ég hljóp ekki ein mestalla leiðina eins og í fyrri sprettum, heldur voru aðrir hlauparar bæði rétt á undan mér og rétt á eftir. Það hjálpaði eflaust til við að halda hraða og bæta tímann.

Það sem var þó sammerkt þessu hlaupi og hinum tveimur í desember og janúar var að mér leið vel allt hlaupið og þótti gaman allan tímann. Hvað sem öllum tímatökum líður, þá er það eiginlega það markmið sem mér finnst skipta mestu máli…. að njóta. Það gerist samt ekki algjörlega af sjálfu sér. Ég þarf að vinna með eigin huga og stilla mig af andlega til að ég nái að upplifa hlaup sem þessi með jákvæðum hætti. Það getur verið stutt í stressið og kvíðann: Verður þetta of erfitt? Verð ég síðust? Ætli ég verði kannski lengur en síðast?

Jafnvel þó að ég sé manna duglegust að tala um að ég sé bara að keppa við sjálfa mig, að mér liggi ekkert á, að það sé allt í lagi að vera lengur en hinir og allt það, þá leynist í mér keppnismanneskja. Og það leynist líka í mér hræðslupúki sem fer að hafa áhyggjur af því hvað aðrir hugsi ef ég er alltaf síðust. Hvað ég sé eiginlega að vilja upp á dekk í einhverjum hlaupahópi. Þetta eru tilfinningar sem koma upp, hversu órökréttar sem þær kunna að vera, og ég þarf stöðugt að vera að vinna með þær. Til þess beiti ég ýmsum aðferðum, sem snúa bæði að því að ná ákveðnum fókus (minna mig á að hlaupa mitt eigið hlaup og velta ekki öðrum fyrir mér á meðan), og felast einnig í því að hugsa markvisst jákvæðar og upplífgandi hugsanir á meðan á hlaupinu stendur. Í síðasta spretti sönglaði ég t.d. innra með mér laglínu þar sem textinn: „I am happy“ kemur fyrir… alltaf aftur og aftur þennan sama bút. Í þetta skiptið, þegar ég byrjaði að þreytast í einhverri brekkunni, byrjaði ég að kyrja innra með mér: „Þetta er æðislegt“ og „þetta er frábært“, og reyndi að finna um leið einhverja svona gleðitilfinningu innra með mér. Komst í einhvern rytma, þar sem það passaði að hugsa hverja setningu á þriggja skrefa fresti. Hljómar kjánalega, en einhvernvegin gerði þetta hlaupið auðveldara og festi upplifunina í minni sem eitthvað ánægjulegt.

Þegar ég kom í mark var ég glöð yfir að hafa bætt timann minn, glöð yfir því að hafa notið hlaupsins og glöð yfir því að einn hlaupafélagi, sem ég þekki ekki mikið, tók sér tíma til að segja mér að hann hefði tekið eftir framförum hjá mér. Þótti vænt um það og minnti mig á hvað skiptir máli að hrósa.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup, Hreyfing. Bókamerkja beinan tengil.

4var við Skiptir máli hvað maður hugsar?

  1. Hrefna Hjálmarsdóttir sagði:

    That´s my girl

  2. cocakolla sagði:

    Já, ég kannast við þessa spéhræðslu líka, en það góða er að því meira sem þú gerir af því að taka þátt, því minna fer fyrir henni. Allavegana er það mín reynsla, hérna í Flórída – og ég er sko pottþétt ekki fremst í flokki. Þú ættir bara að kíkja í heimsókn hingað – ég get ábyggilega lofað þér betri tíma þar sem að það er nú ekki brekkunum fyrir að fara 😀

  3. Þórný Hlynsdóttir sagði:

    já það skiptir máli, ég var búin að hugsa tempóið í laginu Hafið e. Jónas Sigurðsson og svo Hamingjan á lokasprettinum (hann er í uppáhaldi þessa mánuðina) og það hjálpaði, svo barðist ég við alla púka sem hvísluðu „ógeðslega er þetta erfitt“ í brekkunum og tók þá á skynseminni, rólega en reyndi að gefa í þegar upp var komið 🙂

  4. Ég hafði ekki hugsað út í þetta með rythmann, sniðugt. Já það er satt, hrós er mjög mikilvægt 😉

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s