Ég setti mér það markmið fyrir september að ná að hlaupa 100 km. Hef verið að hlaupa 80-90 km á mánuði nú í sumar þannig að það ætti ekki vera óraunhæft að ná því. Er þegar komin með 34 km. Þar eru reyndar inni 7 km frá því í dag, sem eru svona mitt á milli að vera fjallganga og skokk. Dreif mig upp á Esjuna… ekki alla leið, en upp að steini. Var ekki í gönguskóm, heldur strigaskóm og skokkfötunum og markmiðið var að ganga eins rösklega og ég gæti upp og reyna svo að skokka sem mest til baka á niðurleiðinni.
Það var ágætis veður þannig að ég sleppti vindjakka. Var í síðum hlaupabuxum og síðerma peysu. Var einnig með mittisbelti með tveimur 200 ML vantsflösku og eina próteinstöng. Byrjaði á að skokka aðeins, en fann fljótt að brekkurnar voru brattari en svo að það þýddi mikið fyrir mig að ætla mér að skokka á uppleið. Labbaði í staðinn rösklega og svitnaði vel. Stoppaði eiginlega ekki neitt, nema þegar ég var komin upp rétt tæpa 3 km og var farið að lengja eftir steininum. Minnti að hann væri neðar en hann síðan var (orðin 12 ár síðan ég labbaði upp á topp síðast, þó ég hafi oft síðan farið upp í miðjar hlíðar). Hitti konu sem var greinilega þaulvön og hún sagði mér að það væri enn smá spotti í steinninn. Það reyndist vera um ca 500 metrar viðbót og þegar ég var loksins komin upp var ég búin að vera 63 mínútur á leiðinni. Hef ekki hugmynd um hvort það er hægt eða hratt, en það var a.m.k. ca eins hratt og ég komst að þessu sinni 🙂
Stoppaði tæpar 5 mínútur við steininn, skrifaði í gestabók, borðaði próteinstöngina og drakk hluta af vatninu. Dreif mig síðan af stað niður. Fyrsta hlutann var ég satt að segja ekki mikið fljótari en ég hafði verið á uppleið. Fannst of grýtt til að geta nema gengið varlega, en svo fór ég að skokka meira þegar leið á. En ég átti nægja orku á niðurleiðinni og leið bara vel. Nema próteinstykkið fór eitthvað illa í magann á mér. Sennilega betra að taka gel eða drekka einhvern drykk til að fá orku? Eða kannski var þetta eitthvað tilfallandi. Hafði verið einhver ólga í maganum líka áður en ég fór af stað. Allavega… þetta gekk bara vel og ég var um 49 mínútur á leiðnni niður, samtals 1 klst. og 52 mínútur í ferðinni (eða rétt tæpa tvö tíma ef ég tel pásuna við steinninn með).
Áður en ég lagði af stað hafði ég verið að láta verk í hægri mjöðminni fara í taugarnar á mér. Virðist hafa komið eitthvað tak þarna eftir skokk tveimur dögum fyrr. Ég hafði áhyggjur af hvort þetta myndi versna við fjallgönguna en það virtist eiginlega frekar skána…. fann lítið sem ekkert fyrir þessu eftir göngutúrinn og nú, fjórum tímum seinna, hefur enginn verkur tekið sig upp. Vona að það sama verði upp á tengingnum í fyrramálið 🙂
Annars er það helst að frétta af hlaupamálum að við tókum okkur til, þrjú saman, og stofnuðum hlaupahóp síðasta mánudagskvöld. Hópurinn heitir Hlaupahópurinn Flandri (eftir mjög miklar pælingar og vangaveltur um nafn í næstum tvö tíma) og er ætlunin að hafa fasta æfingatíma hér í Borgarnesi þrisvar í viku. Það mættu 14 á fyrstu æfinguna, einhver slatti í morgun (ég komst ekki sjálf þá en sá nokkra úr hópnum á hlaupum þegar ég brunaði af stað til Reykjavíkur) og nú er bara vonandi að takist að skapa skemmtilega stemmningu í kring um þetta þannig að fólk hvetji hvort annað til dáða.