Að setja sér markmið og standa við það…

Fyrir ári síðan (sumarið 2011) ákvað ég að sumarið 2012 ætlaði ég að hlaupa 13 km í svokölluðu Jökulsárhlaupi. Mig dauðlangaði að hlaupa þetta hlaup það sumar en treysti mér engan vegin í það.  Og ekki í fyrsta sinn sem einhver óljós hreyfingarmarkmið urðu ekki að veruleika. Það var orðið að reglu frekar en undantekningu að ákveða að vera duglegri að hreyfa sig, en láta svo bara ráðast hvort það tækist eða ekki. Allt annað var látið hafa forgang: vinna, námið, önnur áhugamál.

Síðasta sumar ákvað ég að láta ekki óljósar áætlanir vísa mér veginn heldur setja mér skýrt markmið og segja frá því. Ég meira að segja skrifaði það í jólabréfi til vina og vandamanna að ég ætlaði mér að hlaupa þessa leið næsta sumar.

Nú er ég engin sérstök líkamsræktarhetja og þarf yfirleitt að hafa talsvert mikið fyrir hlutnum til að koma mér í sæmilegt form. Með öðrum orðum, hreyfing er ekki eitthvað sem liggur sérstaklega auðveldlega fyrir mér. Sem stelpa voru íþróttir yfirleitt sú námsgrein sem ég var lökust í. Það er samt með hreyfingu eins og annað, að með góðri ástundum er hægt að vega upp á móti öðru sem vantar.

Og í sumar tókst mér að taka hreyfinguna fastari tökum en áður. Ég byrjaði að skokka reglulega um miðjan mars og tókst nokkuð vel að halda dampi. Í apríl fóru nokkrar konur í Borgarnesi að hittast 2x í viku til að skokka saman og ég slóst í hópinn. Þótt heldur fækkaði í þessum hópi eftir því sem leið á sumarið, þá vorum við samt nokkrar sem héldum áfram. Við vorum 5 sem fórum saman í 5 km Miðnæturhlaup í Reykjavík og ein önnur úr hópnum fór með mér til Hólmavíkur í lok júní í 12 km skokk sem var hluti af svokölluðu Hamingjuhlaupi. Þó að mér finnist ágætt að skokka ein, þá fann ég samt hvað það var hvetjandi að eiga líka hlaupafélaga og hlaupa stundum með öðrum.

Og svo kom ágúst og Jökulsárhlaupið var framundan. Ég fann spennuna vaxa og kvíðann magnast. Hvað var ég búin að koma mér útí? Það var víst ekki aftur snúið úr þessu.

Ég var búin að undabúa mig eins vel og ég gat miðað við aðstæður. Hafði m.a. gengið leiðina Hljóðaklettar-Ásbyrgi, fyrr um sumarið í góðra vina hópi, og var búin að skokka reglulega 3-5 sinnum í viku í fimm mánuði. Ég vissi að svo framarlega sem ekkert óvænt kæmi upp á þá myndi ég komast alla leið án þess að þurfa að stoppa og ganga, en ég vissi líka að ég myndi væntanlega skokka hægar en flestir hinir í hlaupinu og vera aftarlega í hópnum. Jafnvel koma síðust í mark. Eftir að hafa legið svolítið yfir tölfræði og skoðað leiðina komst ég að því að það væri raunhæft fyrir mig að stefna að því að vera 2 klukkutíma á leiðinni. Allt undir tveimur klukkutímum væri bónus, en ég ætlaði mér að ná því að vera a.m.k. ekki lengur en það.

Ég keyrði norður í land á föstudegi, eftir vinnu, þann 10. ágúst, og gisti í foreldrahúsum. Mamma og pabbi voru búin að bjóðast til aðkoma með og taka á móti mér í marki, og þáði ég það með þökkum, enda gerði það ferðina alla miklu skemmtilegri en ella. Ekki spillti fyrir að Sigrún frænka og Valdi maðurinn hennar voru líka að hlaupa. Við lögðum svo af stað í Ásbyrgi um níuleytið á laugardagsmorgni.

Næring fyrir hlaupið

Ég borðaði vel af grófu pasta bæði á fimmtudag- og föstudagskvöld, og passaði að borða vel og reglulega, næringarríkan mat vikuna á undan (og sleppa öllu slikkerí!). Um morguninn borðaði ég hafragraut og drakk glas af appelsínusafa í morgunmat áður en við lögðum af stað. Um ellefu leytið, þegar við vorum alveg að vera komin í Ásbyrgi, borðaði ég síðan eina samloku með osti, sem ég hafði tekið með, einn banana, og drakk hálfan lítra af vatni. Drakk síðan hvorki né borðaði eftir það (hlaupið byrjaði 13.30). Þetta virkaði vel og ég fann hvorki fyrir svengd né því að ég hefði borðað of mikið á meðan á hlaupinu stóð.

Hlaupið sjálft

Við sem hlupum 13 km vorum ræst úr Hljóðaklettum klukkan 13.30. Þá voru flestir hlauparar sem voru að hlaupa lengri vegalengdir (frá Dettifossi eða úr Hólmatungum) þegar farnir fram hjá. Eftir allt stressið við að bíða, þá var ég fegin þegar loksins var ræst og ég gat hlaupið af stað og byrjað að nota alla þá orku sem hafði verið að byggjast upp dagana og klukkutímana á undan. Ég kom mér fyrir frekar aftarlega í hópnum en passaði mig samt að fara ekki of hægt af stað heldur. Gekk rösklega upp brattasta hluta brekkunnar upp Rauðhólanna. Þegar þangað kom voru 2-3 hlauparar á eftir mér en síðan fór ég fram hjá 5-6 manna hópi við fyrstu drykkjarstöðina.

Þessi drykkjarstöð var rétt eftir að komið var upp brekkunar og við tók 5-6 km kafli sem var frekar sléttur og auðveldur yfirferðar. Ég reyndi að halda jöfnum hraða, 8-8,30 mínútur á kílómetra, á þessari leið. Eftir á að hyggja hefði verið í lagi fyrir mig að vera heldur hraðari á þessum hluta, jafnvel nær 7,30-8 m/km, en ég var að spara mig til að ég gæti hraðað mér síðar. Allan þennan legg var ein kona rétt á eftir mér, sem þó reyndi ekki að fara fram úr þegar það bauðst. Fyrir framan var kona sem ég náði að lokum þar sem þurfti að fara yfir stiga, en þessar tvær héldu áfram að vera rétt á eftir mér út allt hlaupið.

Þegar við komum inn að botni Ásbyrgis, var önnur drykkjarstöð. Ég var með belti með tveimur vatnsflöskum í (samtals 400 ML) og var ég fegin því, þar sem þessir tæpu 6 km sem voru á milli drykkjarstöðvar 1 og 2, voru ansi langir í ljósi þess að hitinn var um 20°C. Þannig að ég drakk mest að vatninu sem ég var með á þeim legg og fékk mér síðan orkudrykk á drykkjarstöðinni. Þegar hér var komið sögu var ég enn í fínu standi og fannst ég hafa næga orku til að hraða aðeins á mér síðustu 4-5 kílómetranna. Vandinn var bara sá að á þessum legg var undirlag afar ójafnt, stígurinn krókóttur og steinar og trjárætur að flækjast fyrir, þannig að um leið og ég reyndi að hraða á mér varð mér fótaskortur og datt kylliflöt. Fann að ég fékk um leið krampa í annan kálfann. Stelpunum sem hlupu á eftir mér brá, en ég fann að ég hafði ekkert meitt mig þannig að ég hvatti þær til að halda bara áfram. „Það er allt í lagi með mig,“ sagði ég en var síðan svo snögg á fætur aftur að ég var komin af stað og byrjuð aftur að hlaupa áður en þær komust framúr.

Endaspretturinn… alveg að komast í mark

Eftir þetta ákvað ég að vera ekki að stressa mig of mikið á tíma heldur einbeita mér að því að halda jöfnum hraða án þess að misstíga mig eða detta. Það var eiginlega alveg nægjanlegt verkefni á þessum hluta. En það var aðeins skrýtið að finnast maður hafa orku til að hlaupa hraðar, en að undirlagið héldi aftur af manni. Ásbyrgi nálgaðist og þegar ég fór að sjá niður á marksvæðið heyrði ég nafnið mitt kallað í fjarska: „Áfram Auður“, heyrðist mér ég heyra einhvern kalla og ég færðist öll í aukana. Þegar niður var komið þá voru um 500-600 metrar eftir í mark á sléttu grasi og þá var loks orðið óhætt að spretta úr spori. Ég heyrði vel í bæði mömmu og Sigrúnu frænku hvetja mig áfram og það væri eins og hvatningarorðin færu beint inn í vöðvana og gæfu þeim aukakraft. Þrátt fyrir að vera búin að vera á hlaupum í tæpa tvo tíma fann ég að ég hafði orku í smá endasprett og hraðaði vel á mér, nægjanlega mikið til að engin hætta var á að konurnar tvær sem höfðu fylgt mér fast á eftir allt hlaupið, færu fram úr mér. Ég kom í mark á rétt rúmum tveimur tímum og markmiðinu var náð.

Komin í mark. Þvílíkt ánægð með mig 🙂

Hlaupið í heild, eftir að var ræst og þar til ég kom í mark, var hrikalega skemmtilegt. Gott veður og frábærlega falleg hlaupaleið. Ég náði að halda fókus allan tímann og naut þess að vera nú loksins að hlaupa hlaupið sem ég hafði stefnt að svo lengi. Það var góð tilfinning að finna að ég gat þetta… að með því að halda mig við efnið og vera duglega að æfa mig þá tókst mér í ár það sem ekki hefði verið möguleiki árið á undan. Þessi tilfinning að ná markmiðið sem ég hafði markvisst stefnt að var einhvernvegin alveg mögnuð.

Nú er bara að setja sér næsta markmið. Þetta var allt of gaman til að halda ekki áfram. Nota kannski þessa síðu til að blogga um hlaupin… veit allavega að mér finnst sjálfri gaman að lesa hlaupablogg og hvernig fólk upplifir það ferðalag sem þátttaka í svona viðburði er.

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Hlaup. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s