Hlaupið í minningu góðrar konu

Næsta laugardag ætla ég að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég mun hlaupa í minningu góðrar konu sem hefur verið stór hluti af tilverunni en hefur nú kvatt þennan heim. Stefanía föðursystir mín, eða Fanna frænka eins og hún hét alltaf í mínum huga, gat sjálf ekki hlaupið síðustu árin. Ekki einu sinni gengið. Líkaminn var orðinn lúinn og þreyttur. En andinn var óbugaður.

Fyrir nokkrum árum voru send inn á flest heimili póstkort sem átti eftir að skrifa á. Tilgangurinn var að fólk gæti skrifað nokkur orð og sent til einstaklinga sem hefðu verið þeim góðar fyrirmyndir í lífinu. Fanna frænka fékk eitt af tveimur kortum sem ég sendi. Það var ekki annað hægt en að dást að æðruleysinu sem hún sýndi í erfiðum veikindum. Fyrst fóru mjaðmirnar, svo axlirnar og að lokum var hún föst í hjólastól og flestar hreyfingar orðnar sársaukafullar. En það var sama hvað kom upp á, alltaf tókst henni að halda í glaðværðina og ljúfa framkomu. Hún var félagslynd, hafði gaman af fólki, og fann sér alltaf eitthvað til að  hlakka til.

En hvernig tengist minning mín um hana elsku frænku mína eiginlega hlaupaplönum helgarinnar? Síðasta föstudagskvöld sat ég við tölvuna og var að skoða síðuna hlaupastyrkur.is. Var að velta fyrir mér hvort ég ætti að skrá mig þar og safna áheitum en var eitthvað frekar óviss um hvað ég ætti að gera. Sannleikurinn er sá að ég er hálf stressuð fyrir þetta hlaup, þó ég hlakki líka til. Fannst því óþægilegt að draga athyglina of mikið að því að ég ætlaði að hlaupa þennan dag, óviss um hvort ég kæmist alla leið, hvort ég yrði vandræðalega lengi á leiðinni o.frv. Ég er engin sérstök líkamsræktarhetja og var allt í einu orðin einkennilega spéhrædd.

Einmitt þegar ég var að skoða síðuna og velta þessu fyrir mér fékk ég símtal með þeim fréttum að Fanna hefði kvatt þennan heim. Ég fylltist tilfinningum sem voru blanda af sorg, trega og einnig létti yfir að hún væri nú laus úr viðjum veikindanna. Svo leit ég aftur á síðuna fyrir framan mig og mundi hvað ég hafði verið að hugsa. Og fann fyrir hálfgerðri skömm, sem síðan breyttist í djúpt þakklæti. Hvaða máli skiptir hvort ég verð klukkutíma, sjötíu mínútur eða áttatíu á leiðinni? Hvaða máli skiptir hvort ég kemst hlaupandi alla leið eða ekki? Ég er heilbrigð og með hrausta sterka fætur sem geta borið mig þangað sem ég vil fara. Ég get gengið og ég get hlaupið. Það hvort ég er lengur eða fljótari en einhver annar skiptir nákvæmlega engu máli. Þegar ég hugsaði um hið ótrúlega æðruleysi sem hún frænka mín sýndi síðustu árin, þrátt fyrir að hafa misst næstum alla hreyfigetu, þó áttaði ég mig á því hvað hugsanir mínar nokkrum mínútum fyrr voru hjákátlegar og mikil tímaeyðsla.

Ég vildi svo gjarna nota áhugamál eins og hlaup til að hvetja til áheita til góðra málefna. Safna fyrir svöng börn í Sómalíu, veik börn á Íslandi, eða eitthvert annað verðugt málefni. Og kannski geri ég það einhverntíman síðar. En að þessu sinni kemur einhvernvegin ekkert annað til greina en að hlaupa í minningu Fönnu.

Hvíl í friði elsku frænka

Um Auður H Ingólfsdóttir

Audrey from Iceland
Þessi færsla var birt undir Fjölskylda, Hlaup. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s